Fjárfestingarbanki atvinnulífsins

Fimmtudaginn 17. desember 1998, kl. 13:30:32 (2500)

1998-12-17 13:30:32# 123. lþ. 44.17 fundur 229. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# (sala hlutafjár) frv. 167/1998, Frsm. minni hluta ÁE
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 123. lþ.

[13:30]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Ég geri hér grein fyrir áliti minni hluta efh.- og viðskn. í 229. þingmáli sem er stjórnarfrv. um breytingu á lögum um stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. Auk mín standa að áliti minni hluta efh.- og viðskn. hv. þm. Svavar Gestsson og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon. Hv. þm. Kristín Halldórsdóttir sat fundi nefndarinnar og er samþykk nál. okkar. Það frv. sem hér er til 2. umr. er mjög einfalt. Það er í reynd einungis ein grein, svohljóðandi: ,,Heimilt er að selja allt hlutafé ríkissjóðs í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf.`` 2. gr. frv. er svohljóðandi: ,,Lög þessi öðlast þegar gildi.``

Frv. sjálft þýðir að í reynd er óskað eftir heimild til að selja 51% í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, þ.e. þau 51% sem nú eru óseld. Áður hafði ríkisstjórnin heimild til að selja 49% af eignarhlut bankans og sú sala hefur þegar átt sér stað. En það kemur fram í greinargerð með frv. að það er ætlun ríkisstjórnarinnar að selja allt hlutafé í Fjárfestingarbankanum á fyrri hluta næsta árs.

Það er mjög sérstakt við þetta mál að ríkisstjórnin skuli fara fram á að fá heimild fyrir að selja 51% í Fjárfestingarbankanum án nokkurrar útfærslu á því hvernig að því verði staðið. Það væri e.t.v. ekkert svo sérstakt ef menn hefðu ekki mjög sérkennilega forsögu að skoða þegar seld voru 49% í bankanum. Þegar 49% í Fjárfestingarbankanum voru seld fór það í gegnum einkavæðingarnefnd ríkisstjórnarinnar sem er fræg að endemum eins og þingheimur þekkir og þá var ákveðið að sérhver áskrifandi gæti skráð sig fyrir allt að 3 millj. kr. að nafnvirði. Þetta átti að vera í anda þess að reyna að tryggja dreifða eignaraðild. Þegar lögin um Fjárfestingarbanka atvinnulífsins voru afgreidd á hinu háa Alþingi og samhliða aflað heimildar fyrir sölu á 49% af hlutafénu var ekki kveðið á um nein sérstök skilyrði við þá sölu. Hins vegar kom mjög fram í máli hæstv. viðskrh. og stjórnarþingmanna og í umfjöllun í hv. efh.- og viðskn. sá vilji sem einnig var deilt af hálfu stjórnarandstæðinga að brýnt væri að tryggja dreifða eignaraðild við sölu þessa banka. Það gerðist hins vegar við þessa sölu, þegar 49% voru boðin til sölu og sérhver áskrifandi gat skráð sig fyrir allt að 3 millj., að þá hófu fjármálafyrirtæki að safna kennitölum. Það sem þarna átti sér stað var mjög sérstakt vegna þess að hér var um frumsölu að ræða, þ.e. þarna var ríkissjóður að selja eign sína með tilteknum hætti og ætlaði að dreifa henni meðal landsmanna eða reyna að tryggja dreifða eignaraðild, og þar skapaðist markaður með kennitölur. Það má eiginlega kalla þetta að þarna hafi orðið framvirkur eftirmarkaður. Það er nýyrði í fjármálalífi okkar og lýsir kannski vel þessari þróun sem hefur verið að gerast hér undanfarin ár. Alltaf dettur mönnum eitthvað nýtt í hug, alveg eins og þetta að hægt sé að safna kennitölum til að ná auknu hlutafé. Þetta gekk þannig fyrir sig að fólk seldi kennitölurnar þannig að það skráði sig hjá fjármálafyrirtækjum fyrir oftast hámarkshlut og framseldi síðan kaupréttinn til þessarar fjármálastofnunar. Það sem við höfum kallað sölu á kennitölum gekk raunverulega út á það að fólk var að selja kaupréttinn sem það hafði við þessa sölu og fjármálafyrirtækin sem óskuðu eftir að kaupa kennitölu með þessum hætti greiddu tiltekna þóknun fyrir. Það er augljóst af þessu að hér var verið að fara fram hjá áformunum um dreifða eignaraðild. Það var ætlun ríkisvaldsins og beinlínis sett þannig upp að hámarkseignarhlutur einstaklinga átti að vera 3 millj. Fjármálafyrirtækin sáu sér hins vegar leik á borði við að safna til sín meira hlutafé með því að safna áskrifendum frá einstaklingum á þennan hátt.

Það er mat okkar í minni hlutanum að hér sé ekki um að ræða ólögleg viðskipti. Hins vegar orkar þetta mjög tvímælis vegna áforma ríkisvaldsins um að ætla að dreifa eignaraðild sem þýddi þá líka að ekki var ætlunin að neinir, a.m.k. ekki í fyrstu umferð, yrðu stórir eignaraðilar að Fjárfestingarbankanum.

Þetta var ekki fyrsta kennitöluæðið sem greip um sig og reyndar ekki það síðasta, þ.e. það sem varð við sölu á 49% í Fjárfestingarbankanum. Þegar Landsbanki Íslands hf. bauð út hlutafé fyrr í haust áttu sér einnig stað svona viðskipti. Þau fóru hins vegar lágt og það var minna um þau. Ekki var fjallað um þau, held ég, í blöðum að neinu marki en þeir sem þekkja vel til á þessum markaði vita að nokkuð var um slík kaup. Þar var hins vegar staðið þannig að málum að eignarhlutinn sem hverjum og einum var boðinn til sölu, kauprétturinn, var mun lægri en var í Fjárfestingarbankanum.

Það var hins vegar svo með söluna á 49% að ekki áttu allir möguleika á að geta selt sína kennitölu. Þetta var ekki auglýst opinberlega. Það voru ekki allir sem komust inn í þessi viðskipti. Það var bara auglýst að menn gætu skráð sig fyrir hlut en ekki var öllum kunnugt um þennan markað sem hafði myndast. Það var því ekki nóg með að unnið væri gegn áformum um dreifða eignaraðild eða réttara sagt áformum um að í fyrstu umferð yrðu ekki mjög stórir hluthafar, heldur var þegnunum einnig mismunað einfaldlega vegna þess að sumir höfðu upplýsingar um þennan viðskiptamáta og gátu hagnast á honum en aðrir vissu ekki af þessu. Það finnast dæmi um að einstaklingar, sem var kunnugt um þetta, hafi gert samninga við fjármálafyrirtæki jafnvel upp á hundruð slíkra kennitalna og væntanlega hagnast vel á þeim kaupum.

Þessari kennitölusöfnun lauk ekki með sölu á þessum 49% í Fjárfestingarbankanum heldur átti þetta enn eftir að taka á sig stærri og mikilfenglegri mynd þegar boðið var út nýtt hlutafé í Búnaðarbanka Íslands. Þá var auglýst í heilsíðuaugulýsingum í blöðum. Ég held að Íslandsbanki hf. hafi riðið á vaðið með tveimur heilsíðuauglýsingum í Morgunblaðinu þar sem þeir auglýstu eftir kennitölum, þ.e. auglýstu eftir slíkum kauprétti.

Vitaskuld má halda því fram með réttu að við þá aðferð að framvirkur eftirmarkaður myndaðist á töluvert hærra gengi en frumsalan átti sér stað á eða salan frá ríkissjóði til nýrra hluthafa, hafi ríkissjóður og þar með almenningur orðið af fé vegna þess að gengið hafi verið of lágt. Það að gengið hafi verið of lágt sést best á því að það hækkaði verulega, sérstaklega í Búnaðarbankanum, reyndar einnig í Fjárfestingarbankanum. Hins vegar er hægt að færa rök fyrir því að við slíka sölu taki menn ívið lægra gengi en gæti fengist að öðru jöfnu, t.d. við uppboð eða eitthvað þess háttar sem er líka önnur aðferð, vegna þess að menn ætli sér að ná markmiðinu með dreifða eignaraðild. Hins vegar er hér um að ræða verulegan mun á gengi sem varð mjög fljótt. Ég held að gengi á bréfunum í Fjárfestingarbankanum hafi verið um 1,40 og þegar áskriftartímanum lauk hafi gengið verið komið upp í, ég held, 1,80. Mér er ekki kunnugt um, herra forseti, hvert gengið er á bréfunum í dag en sennilega er það ekki fjarri því, þó hefur það frekar farið hækkandi.

Það er ekkert að því, herra forseti, að reyna að selja einstaklingum á þennan hátt til að ná fram mörgum eignaraðilum, en þá verða menn að gera það þannig að það tryggi dreifða eignaraðild. Það var ætlun ríkisvaldsins við þessa sölu. Þetta var ekki einungis brotið á bak aftur af sjálfstæðum fjármálafyrirtækjum, heldur einnig af bönkum og fjármálafyrirtækjum í eigu ríkisins. Þannig tóku t.d. bæði Búnaðarbanki Íslands og Landsbanki Íslands sem eru í meirihlutaeigu ríkissjóðs þátt í kapphlaupinu um Fjárfestingarbanka atvinnulífsins. Hér voru því áformin brotin á bak aftur. Þetta var rætt utan dagskrár á hinu háa Alþingi. Minni hluti efh.- og viðskn. tók þetta mál upp í efh.- og viðskn., sem er rétti vettvangurinn, og óskaði upplýsinga um það. Og þess má geta að bankaeftirlitið er einnig að vinna að úttekt á þessu máli.

Þá upplýstu embættismenn viðskrn. í efh.- og viðskn. að ekki væri strax hægt að draga ályktanir af þessari kennitölusöfnun vegna þess að nákvæm hluthafaskrá lægi ekki fyrir og að hún gæti ekki legið fyrir fyrr en 4. desember þegar menn áttu að greiða þá áskrift eða greiða þau hlutabréf sem þeir höfðu keypt. Þá var talað um að lagt yrði mat á þessa aðferð og menn reyndu þá að draga lærdóm af þessu. Ekki var annað að skilja á fundi í efh.- og viðskn. en að bæði stjórnarandstæðingar og stjórnarsinnar væru því fylgjandi að þessi mál yrðu skoðuð betur þannig að menn gætu lært af þeim, þótt vitaskuld greindi menn á um hve alvarlegt málið væri. En þrátt fyrir að málið sé bæði í skoðun í bankaeftirliti og að enn séu ókomnar umsagnir til efh.- og viðskn. frá viðskrn. um þetta mál, þá brá svo við að stjórnarmeirihlutinn knúði á um afgreiðslu þessa frv., þ.e. að ríkisstjórnin fengi heimild til sölu á 51%, þ.e. á meiri hluta í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., án þess að nokkrar útfærslur fylgdu með frv. eða í nál. Nú hefði e.t.v. mátt gera þetta þannig að menn e.t.v. breyttu ekki frv. sem slíku heldur gætu um leikreglur í nál. Það hefði ekkert verið að þeirri málsmeðferð. En í nál. meiri hlutans segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund ...`` --- og svo eru taldir upp þeir sem komu á fund nefndarinnar og sendu umsagnir. Síðan segir í nál., með leyfi forseta:

,,Með frumvarpinu er lagt til að heimiluð verði sala á öllu hlutafé ríkissjóðs í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. Nú þegar hafa verið seld 49% hlutafjár í bankanum í samræmi við núgildandi lagaheimildir.

Meiri hlutinn mælir með samþykkt frumvarpsins.``

Herra forseti. Ekki eru þetta nákvæm fyrirmæli um hvernig standa eigi að sölu þessa hlutafjár og það, herra forseti, erum við í minni hlutanum að gagnrýna. Þar sem greinilegt er að salan fór úr böndum og fór ekki í þann farveg sem menn ætluðu sér þá er vitaskuld nauðsynlegt fyrir hið háa Alþingi að marka skýra stefnu um það hvernig eigi að selja eigur almennings. Hér er ekki um að ræða einkafé hæstv. viðskrh. eða hæstv. ríkisstjórnarinnar. Hér erum við að tala um eign almennings.

[13:45]

Eðlilegt hefði verið að bíða með afgreiðslu þessa máls og bíða eftir þeim athugunum sem eru í gangi. Salan á 49%, salan á Landsbankabréfunum og Búnaðarbankabréfunum og önnur sala á ríkiseigum, sem menn þekkja á hinu háa Alþingi eins og hin fræga sala á Síldarverksmiðjum ríkisins, segja okkur að ríkisstjórninni er ekki treystandi til að selja eigur almennings. Annaðhvort er staðið það illa að þessu að áformin sem lagt er upp með klúðrast í útfærslu eða þá að þess er gætt að hygla að vinveittum aðilum.

Ríkisstjórnin og svokölluð einkavæðingarnefnd eru samstiga í að standa mjög illa að málum. Nú er það ekki skoðun mín að fyrirtæki eigi almennt að vera í ríkiseigu. Ef um samkeppnismarkað er að ræða þá kemur vitaskuld til álita að tryggja aðra eignaraðild en okkur í minni hlutanum finnst augljóst að hér hafi ekki verið staðið eins vel að verki og hægt var. Við höfum lýst þessum áformum ríkisstjórnarinnar við að selja almannaeigur með þessum hætti með orðinu einkavinavæðing. Það nær alveg ágætlega yfir þá stefnu sem ríkisstjórnarflokkarnir fylgja.

Við hefðum talið að setja ætti í frv. ákvæði sem tryggðu dreifða eignaraðild. Það er alveg hægt. Það er hægt að setja inn ákvæði í frv. t.d. um að menn megi ekki fara með nema einhvern tiltekinn hlut hlutafjár og atkvæða í fyrirtækinu. Meira að segja hefði mátt selja til almennings og hafa þá kvöð á að kaupendur yrðu að eiga hlutabréfin tiltekinn tíma, 1--3 ár eða eitthvað þess háttar. Þetta eru allt kunnuglegar aðferðir við slíkar aðstæður. Stjórnarmeirihlutinn kýs að skoða ekki slíkar hugmyndir og vill eins opna heimild í þessu máli og hægt er. Málið á sér reyndar einnig þá forsögu að stjórnarandstæðingar lögðust gegn stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins. Fjárfestingarbanki atvinnulífsins er myndaður með samruna þriggja sjóða: Fiskveiðasjóðs, Iðnlánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs. Þetta eru sjóðir sem eru í eigu almennings, greitt inn m.a. af hálfu fyrirtækja í tilteknum atvinnugreinum. Þegar uppstokkun stóð fyrir dyrum á þessu sjóðakerfi fyrir tveimur árum lögðum við í stjórnarandstöðunni til að sjóðirnir rynnu inn í ríkisviðskiptabankana til að efla þá og hagsmuna almennings og starfsmanna gætt við uppstokkun í bankakerfinu. Við metum það svo að okkar stefna hafi reynst rétt miðað við kapphlaupið um Fjárfestingarbankann núna, m.a. milli sparisjóðanna og Búnaðarbankans. Það er eftirspurn eftir Fjárfestingarbanka atvinnulífsins. Þetta er mjög sterkur banki með gífurlega mikið eigið fé, almannafé, fé í eigu almennings. Þessir bankar, sparisjóðir, Búnaðarbanki og Íslandsbanki reyndar líka vildu komst yfir Fjárfestingarbankann, aðallega til að leggja hann niður eða fella inn í eigin starfsemi. Geta má þess að langflestir aðilar á fjármálamarkaðnum lögðust gegn stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins. Það vill stundum gleymast að banka- og fjármálakerfið lagðist gegn stofnun bankans og margir þar studdu okkar hugmyndafræði um að fella þá inn í ríkisviðskiptabankana. Einnig voru hugmyndir um að selja þessa sjóði beint á opnum markaði.

Ekki var farið eftir stefnu okkar stjórnarandstæðinga við uppstokkun á fjármálakerfinu, ekki við ,,háeff``-væðingu og uppstokkun í ríkisbankakerfinu, ekki við stofnun Fjárfestingarbankans og að hluta til ekki við stofnun Nýsköpunarbankans. Ríkisstjórnin hefur vitaskuld meiri hluta á hinu háa Alþingi til að knýja fram þau mál sem hún vill. Við sáum síðast í morgun að við réðum ekki við hið mjög svo gallaða frv. um gagnagrunn. Þetta eru leikreglur lýðræðisins sem við verðum vitaskuld að sætta okkur við. Við viljum hins vegar draga mjög skýrt fram varðandi þetta efni að í fyrsta lagi höfðum við rétt fyrir okkur á sínum tíma. Uppleggið með Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, þ.e. stofnun hans, var rangt. Í öðru lagi var staðið mjög illa að sölunni á 49% og ekki farið að almennum leikreglum. Þar áttu ekki allir möguleika á að taka þátt. Í þriðja lagi er að okkar mati algerlega óverjandi að ganga frá frv. með þessum hætti, þ.e. að láta ríkisstjórnina fá einfaldlega óútfylltan tékka við að selja 51% í þessum banka. Það er ekki sama, herra forseti, hvernig staðið verður að því. Úr því að hlutirnir fóru ekki eins og menn ætluðu, þeim mun meira áríðandi er fyrir hið háa Alþingi að ganga frá skýrum fyrirmælum eða leiðbeiningum um hvernig staðið skuli að sölunni. Við ráðum ekki við það ef ríkisstjórnin vill endilega selja meiri hluta í bankanum, bankann allan eða aðrar ríkisstofnanir. Sumu er hægt að færa rök fyrir, öðru ekki en við getum með fullri sanngirni gert þá kröfu að þannig verði staðið að þessu að allir sitji við sama borð.

Klúðrið við sölu á 49% í bankanum er þannig algerlega á ábyrgð ríkisstjórnarinnar. Stjórnarandstaðan kom hvergi að þessu máli, studdi ekki stofnun bankans, studdi ekki frv. eins og það var lagt upp, með sölu á 49%. Hún var með fjölmörg varnaðarorð sem einmitt hafa ræst við svokallaða sölu. Ábyrgðin er ríkisstjórnarinnar, einkum viðskrh., seinheppnari maður hefur ekki setið í ráðherrastól um langa hríð.

Herra forseti. Í ljósi þess að framkvæmd einkavæðingarinnar og kennitölusöfnunin eru komnar í algerar ógöngur teljum við í minni hluta efh.- og viðskn. brýnt að endurskoða meðferð málanna frá grunni. Þess vegna leggjum við til, herra forseti, að frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar enda sýna atburðir síðustu vikna að málatilbúnaður er algerlega ófullnægjandi. Það er ekki hægt, herra forseti, að fallast á að ríkisstjórnin fái svo víðtækt og opið umboð til að ráðstafa eigum almennings.