Fjárfestingarbanki atvinnulífsins

Fimmtudaginn 17. desember 1998, kl. 13:56:32 (2502)

1998-12-17 13:56:32# 123. lþ. 44.17 fundur 229. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# (sala hlutafjár) frv. 167/1998, Frsm. minni hluta ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 123. lþ.

[13:56]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi söluna á Síldarverksmiðjum ríkisins, þá voru þau mál alfarið í höndum þáv. sjútvrh. Sjálfstfl., hv. þm. Þorsteins Pálssonar. Það sem var ámælisvert við söluna á Síldarverksmiðjum ríkisins var að sá sem átti hæsta boðið fékk ekki að kaupa. Það var ámælisvert og hv. þm. veit þetta mætavel. Tvö tilboð bárust í Síldarverksmiðjur ríkisins. Annað var frá Haraldi í Andra, sem kenndur er við fyrirtækið, upp á rúmar 800 millj. ef ég man rétt, og annað tilboð 700 og eitthvað millj. frá Benedikt Sveinssyni og fleirum. Hin pólitíska misnotkun á valdi ráðherra var að Haraldi í Andra og félögum hans var ekki gefinn kostur á að standa við það tilboð. Það er ámælisvert við söluna á Síldarverksmiðjum ríkisins. Það var einkavinavæðing. Ég veit fullvel að SR-mjöl hefur verið rekið með miklum myndarskap síðan. Um það er ekki deilt. Við skulum hafa á hreinu í hverju einkavinavæðingin fólst á þeim tíma.

Varðandi það að rifja ekki upp af hverju við vorum á móti Fjárfestingarbanka atvinnulífsins þá erum við þar í góðum félagsskap, herra forseti. Allt bankakerfið var okkur samsinna í þeim efnum, hvort sem það voru sparisjóðir, Íslandsbanki eða verðbréfafyrirtæki, sem lögðust gegn þessari leið ríkisstjórnarinnar.

Nú talar hv. þm. um dreifða eignaraðild, 5--10% sem er nú reyndar of stór hlutur, og um að selja eitthvað í útboði. Þetta höfum við einmitt, herra forseti, verið að tala um. Setjum leikreglurnar, göngum frá því í lagatextanum eða í nál. hvernig útfæra eigi. Ég segi, herra forseti að það hefur sýnt sig að svo opin heimild í höndunum á hv. núv. viðskrh. er vafasöm. Hæstv. viðskrh. er enginn maður til að fara með slíka heimild, sem veitt væri af meiri hluta Alþingis.