Fjárfestingarbanki atvinnulífsins

Fimmtudaginn 17. desember 1998, kl. 14:01:01 (2504)

1998-12-17 14:01:01# 123. lþ. 44.17 fundur 229. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# (sala hlutafjár) frv. 167/1998, Frsm. minni hluta ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 123. lþ.

[14:01]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ekki er kveðið fast að orði að segja að salan á Síldarverksmiðjum ríkisins hafi verið umdeild. Hún var miklu meira en umdeild, þetta voru gjörsamlega ólíðandi vinnubrögð. Ég veit að hv. þm. er í reynd sammála mér um það. Ég er ekki að gagnrýna að SR-mjöl sé orðið 3,7 milljarða virði en var keypt á 700--800 milljónir. Það er bara allt í lagi, það er ekkert við því að segja því það var staðið rétt að því. Það var útboð og allir áttu tækifæri á að bjóða í. Það sem var gagnrýnisvert var að sá sem bauð hæst fékk ekki tækifæri til að standa við það. Það voru vinirnir í Sjálfstfl. sem voru meiri vinir í Sjálfstfl. en aðrir sem fengu þetta boð og hv. þm. veit þetta ósköp vel. Það er skömm að þessu máli vegna þess að það getur alltaf komið vel til álita að ríkið eigi að draga sig út úr atvinnurekstri, samkeppnisatvinnurekstri, en einmitt þetta dæmi er ekki gleymt en verður haldið til haga um ókomin ár.

Varðandi dreifða eignaraðild sem segir í frv. bendi ég á að það átti að verða dreifð eignaraðild í sölu á 49%. Við sáum að farið var fram hjá því með kennitölusöfnuninni. Það sem við erum að tala um er að sett séu nákvæmari lagafyrirmæli um þennan þátt vegna þess að reynslan sýnir okkur að nauðsyn er á því. Við höfum enga ástæðu, herra forseti, til að treysta hæstv. ríkisstjórn til að útfæra sölu á eigum ríkisins. Reynslan hefur sýnt að henni er ekki treystandi til þess.