Árásir Bandaríkjamanna og Breta á Írak

Fimmtudaginn 17. desember 1998, kl. 14:40:25 (2507)

1998-12-17 14:40:25# 123. lþ. 44.92 fundur 176#B árásir Bandaríkjamanna og Breta á Írak# (umræður utan dagskrár), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 123. lþ.

[14:40]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Það ber að sjálfsögðu að harma það að til þess hefur komið að hernaðaraðgerðir hafa hafist gegn Saddam Hussein, einræðisherra í Írak. Ég held að hins vegar megi telja ljóst að þessar aðgerðir voru óumflýjanlegar miðað við forsögu málsins og hvernig hann hefur þverskallast við að hlíta ályktunum Sameinuðu þjóðanna og margbrotið loforð um að eyða gereyðingarvopnum sínum.

Hins vegar hefur það borið allmikinn árangur að eyða þessum vopnum því að síðan 1991 hafa eftirlitsmenn Sameinuðu þjóðanna eytt 48 Scud-eldflaugum, 690 tonnum af eiturefnum, 3.000 tonnum af efnum til eiturefnagerðar og auk þess eyðilegt líf efnavopnaverksmiðjunnar í Al Hakam. Þetta eru allt saman efni og vopn sem Saddan Hussein sjálfur lofaðist til að eyða.

En þrátt fyrir þennan árangur hefur hann ekki gert grein fyrir 30 þúsund sprengjuoddum fyrir efnavopn og 4 þúsund tonnum af efnum til eiturefnagerðar. Það er alveg ljóst að eftirlitsnefndin fékk ekki tækifæri til þess að ljúka ætlunarverki sínu og það var komið í veg fyrir að það gæti haldið áfram. Áður hafði hann lofað því á síðustu stundu nokkrum mínútum fyrir fyrirhugaðar aðgerðir að hlíta í einu og öllu ályktunum Sameinuðu þjóðanna.

Menn geta auðvitað haft mismunandi afstöðu til þess hvað skyldi gera í þessari stöðu. Ég er þeirrar skoðunar og íslenska ríkisstjórnin að ekki hafi verið komist hjá því að grípa til þessara aðgerða og það sé vænlegra til árangurs en að sitja hjá því það eru ekki Vesturlönd sem bera ábyrgð á dauða þessa fólks sem hv. þm. nefndi (ÖJ: Jú.) heldur er það Saddam Hussein. Ég tek eftir því að sá hv. þm. sem grípur hér fram í telur ekki ástæðu til þess að nefna hann mikið í því sambandi og mér skildist það líka á hv. þm. sem hér hóf málið. Það er hann sem ber fyrst og fremst og fremst ábyrgð á því hvernig komið er.

Út af spurningum hv. þm. vil ég segja að ekki var haft sambandi við íslensku ríkisstjórnina út af þessum aðgerðum sérstaklega. (ÖJ: Það var reiknað með henni.) (Gripið fram í: Hvort sem er.) Í morgun gekk fulltrúi bandaríska sendiráðsins á minn fund og gerði grein fyrir ástæðum þessara aðgerða. Að því er varðar löglega hlið málsins, þá má segja að það verði að vitna til ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 687, um vopnahlésskilmálana eftir Persaflóastríðið og samkvæmt ályktun 678 er þeim ríkjum sem tóku þátt í aðgerðunum vegna Kúveit heimilar allar nauðsynlegar aðgerðir til þess að koma í framkvæmd ályktunum Sameinuðu þjóðanna. Á þessari túlkun er byggt og þótt aðrar þjóðir eins og Kína og Rússland hafi aðra skoðun, þá er ég þeirrar skoðunar að þessi hlið málsins sé í lagi þó að auðvitað megi deila um það.

Hv. þm. hélt því fram að það væri farið út í þessar aðgerðir vegna þeirra aðstæðna sem eru í Bandaríkjunum. (Gripið fram í.) Nei, hann er ekki einn um það en mér heyrðist að hann væri þeirrar skoðunar. Ég er algjörlega ósammála því og það eru tvær kenningar uppi í þessum efnum. Önnur er sú að Saddam Hussein hafi treyst á að Bandaríkjamenn mundu ekki grípa til aðgerða vegna aðstæðna heima fyrir og hin er sú að Bandaríkjaforseti hafi gripið til þessara aðgerða vegna aðstæðna heima fyrir. Ég held að hvorugt sé rétt og ég held að það sé alveg ljóst að Bandaríkjaforseti er ekki í betri stöðu í sínum málum eftir þessar aðgerðir. Það eru ekkert síður líkur til þess en að þingmenn sem hafa lýst því yfir að þeir muni greiða atkvæði með þeim tillögum sem eru uppi á Bandaríkjaþingi í sambandi við aðgerðir gegn forsetanum, muni verða enn þá ákveðnari að halda við það til þess að sýna fram á að þessar aðgerðir hafi ekki haft áhrif á þá. Ég held því að mjög erfitt sé að rökstyðja það og halda því fram að t.d. Bretar hefðu verið þessu sammála og allir þeir sem eiga sæti í þjóðaröryggisráði Bandaríkjanna. Ég held því að það sé hlutur sem menn ættu að leggja til hliðar í þessu sambandi.