Árásir Bandaríkjamanna og Breta á Írak

Fimmtudaginn 17. desember 1998, kl. 14:46:32 (2508)

1998-12-17 14:46:32# 123. lþ. 44.92 fundur 176#B árásir Bandaríkjamanna og Breta á Írak# (umræður utan dagskrár), KÁ
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 123. lþ.

[14:46]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég get ekki annað en lýst undrun minni á þeim ummælum hæstv. utanrrh. að þær aðgerðir sem gripið var til í gærkvöldi að íslenskum tíma hafi verið óhjákvæmilegar.

Um árabil hafa íbúar Íraks búið við viðskiptabann sem hefur bitnað mjög hart á konum og börnum, ekki síst börnunum. Harðstjórinn Saddam Hussein situr þrátt fyrir það sem fastast og ég hygg að þessar aðgerðir muni ekki breyta neinu um það. Þær munu ekki hagga honum. Þetta mál hefði átt að ræða í öryggisráðinu. Það á að meta það í hvert sinn hvort grípa skuli til nýrra aðgerða. Ég óttast, þó erfitt sé að fullyrða um það, að það að gripið var til þessara aðgerða núna tengist stöðu mála hjá Clinton Bandaríkjaforseta, að hann sé að reyna að vinna sér tíma til að ræða við þingmenn og reyna að breyta skoðun þeirra. Það er ömurlegt ef slíkt ástand er notað til þess að ráðast á aðrar þjóðir. Það getur ekki verið réttlætanlegt að einstakar þjóðir, í þessu tilfelli Bretar og Bandaríkjamenn, taki sér það vald að ráðast á aðrar þjóðir og beri ályktanir Sameinuðu þjóðanna fyrir sig. Það er mjög umdeilt að leggja ekki aðgerðirnar fyrir öryggisráðið. Bandaríkin og Bretar eiga ekki að hafa slíkt vald.

Íslensk stjórnvöld hljóta að krefjast þess að málið verði rætt í öryggisráðinu og jafnframt að beita sér fyrir því að þessum árásum linni nú þegar.