Árásir Bandaríkjamanna og Breta á Írak

Fimmtudaginn 17. desember 1998, kl. 14:53:05 (2511)

1998-12-17 14:53:05# 123. lþ. 44.92 fundur 176#B árásir Bandaríkjamanna og Breta á Írak# (umræður utan dagskrár), GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 123. lþ.

[14:53]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Ég harma það að herir Bandaríkjamanna og Breta hófu loftárásir á Írak í gærkvöldi eftir að vopnaeftirlitsmenn Sameinuðu þjóðanna höfðu verið kallaðir heim og Butler formaður þeirra sat á fundi með öryggisráðinu. Yfirlýst markmið árásanna er að ráðast á vopnabúr Íraka, sem sagt er ógna nágrannaríkjum Íraks. Sambærileg árás á Írak var fyrirhuguð í nóvember sl. en þá setti öryggisráðið sig gegn henni. Þá var m.a. kannað í utanmn. Alþingis hver afstaða okkar væri ef NATO stæði að slíkri árás. Sem betur fer reyndi ekki á það þá. Þá náðist samkomulag sem nú hefur verið rofið.

Þó Saddam Hussein eigi að sjálfsögðu að fara frá völdum og sé vondur harðstjóri, þá er mjög líklegt að þessar aðgerðir styrki hann frekar í sessi á kostnað almennra borgara í Írak fremur en hitt. Vissulega getur stundum verið nauðsynlegt að sýna klærnar en það á ekki við nú.

Herra forseti. Einkum tvennt vekur mig til umhugsunar vegna þessara aðgerða. Annað er tímasetning þeirra og hins vegar er það ósjálfstæði íslenskra stjórnvalda. Tímasetningin nú vekur furðu vegna þess að fram undan eru bæði jólin, friðarhátíð kristinna manna og föstumánuðir múslima, ramadan. Hins vegar vekur spurningar sú einkennilega tilviljun að einmitt í dag tekur Bandaríkjaþing mikilvægar ákvarðanir í tengslum við umræðu um hugsanlega embættissviptingu Clintons.

Oft hefur sambandið milli pólitísks ástands í Bandaríkjunum og hernaðaraðgerða verið augljóst en sjaldan sem nú. Þar sem íslensk stjórnvöld voru tilbúin að styðja NATO í sambærilegri árás í síðasta mánuði án samþykkis öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, þá kemur afstaða utanrrn. mér alls ekki á óvart nú þó að formlega reyni ekki á hana þar sem eingöngu Bretar og Bandaríkjamenn standa að henni. Þessi aðgerð er mjög umdeild alþjóðlega og ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum með þátttöku Tonys Blair í henni. Ég vona svo sannarlega að íslensk stjórnvöld fari fremur að fordæmi Frakka í framtíðinni og taki sjálfstæðar ákvarðanir þegar hvorki NATO-aðildin né málefnaleg rök mæla með því að fylgja stefnu Bandaríkjanna.