Árásir Bandaríkjamanna og Breta á Írak

Fimmtudaginn 17. desember 1998, kl. 15:04:22 (2516)

1998-12-17 15:04:22# 123. lþ. 44.92 fundur 176#B árásir Bandaríkjamanna og Breta á Írak# (umræður utan dagskrár), HG
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 123. lþ.

[15:04]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Já, þetta er dapur dagur, ekki eingöngu vegna þeirra árása sem gerðar hafa verið á Írak og eru tilefni umræðunnar, heldur er þetta dapur dagur á Alþingi Íslendinga þegar við heyrum talsmenn ríkisstjórnarflokkanna einn eftir annan rökstyðja þessar árásir, lýsa yfir stuðningi, telja að til þeirra hafi þurft að koma og telja þær óumflýjanlegar eins og hæstv. utanrrh. Þetta eru fádæmi. Þetta eru tíðindi á Alþingi Íslendinga eins og til þessara aðgerða er stofnað.

Trúir raunverulega nokkur maður því í þessum sal, þrátt fyrir orð hæstv. utanrrh., að ekki sé beint samband á milli tímasetningar þessara aðgerða og þeirra vandræða sem forseti Bandaríkjanna stendur í þessa daga, þegar það gerist í annað sinn á þessu hausti eða þessum vetri að við aðstæður þegar forseti Bandaríkjanna er að verða mát í sínum vandræðum að efnt er til undirbúnings hernaðaraðgerða eða árása af þessu tagi? Þetta er mat hjá fréttastofum heimsins á þessum degi. En á Alþingi Íslendinga er þessu vísað frá af talsmönnum ríkisstjórnarinnar.

Ég veit ekki hvort menn hafa heyrt mál Snowcrofts, fyrrv. ráðgjafa Bandaríkjastjórnar í öryggismálum, í beinu fréttaviðtali í gærkvöldi eftir að þessi tíðindi bárust. Hann gagnrýndi þessar aðgerðir m.a. vegna tímasetningar þeirra. Og ég verð að segja, virðulegur forseti, að það er erfitt að botna í þeirri röksemdafærslu sem fram er færð af Bandaríkjunum og Bretum í sambandi við þetta mál um það til hvers þessar árásir eiga að leiða, hvernig þær eigi að skila þeim markmiðum sem þeir í orði kveðnu segjast vera að berjast fyrir. Það er von að utanrrh. Bandaríkjanna, Madeleine Albright, hafi vafist tunga um tönn í gærkvöldi á fréttamannafundi þegar hún var beðin um að rökstyðja þetta nánar.