Fjárfestingarbanki atvinnulífsins

Fimmtudaginn 17. desember 1998, kl. 15:43:04 (2522)

1998-12-17 15:43:04# 123. lþ. 44.17 fundur 229. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# (sala hlutafjár) frv. 167/1998, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 123. lþ.

[15:43]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst mjög athyglisvert hvernig hv. þm. talar hér gegn því sem forsrh. hefur þó talað fyrir, þ.e. að dreifð eignaraðild eigi að vera og það sé rétt að setja skorður við 3--8%. Hv. formaður efh.- og viðskn. er gjörsamlega ósammála því. Og auðvitað er það svo og það er bara það sem við stöndum frammi fyrir að áformin sem voru uppi þegar lögin um Fjárfestingarbankann voru samþykkt á sl. ári, það er nú ekki lengra síðan, herra forseti, en rúmt ár, voru þau að Sjálfstfl. og þingmenn hans voru að stuðla að frekari einkavinavæðingu í bankakerfinu. Að geta selt fjársterkum aðilum verulegan hluta í þessum banka.

Vissulega er það stór hlutur þegar við erum að tala um að Kaupþing eigi orðið atkvæðamagn sem er um 14--15%, sem samsvarar því að þeir geti fengið einn stjórnarmann í bankanum. Hv. þm. þykir þetta greinilega allt í lagi. Það er þá hans skoðun ef hann vill stuðla að slíkri einkavinavæðingu, ég er bara gjörsamlega ósammála þingmanninum. Hv. þm. hefur í þeim málum sem hann hefur verið að beita sér fyrir, mörgum hverjum, bæði skattamálum og fleiri, verið að stuðla að og ýta undir þessa einkavinavæðingu og að fjármagn færist á fárra manna hendur, og það er hans lífsskoðun og við því er þá ekkert að segja. Ég hef bara aðra skoðun á málinu, hvernig við eigum að búa þetta þjóðfélag.

Varðandi það að ég hafi ekki viljað stuðla að stofnun Fjárfestingarbankans, þá er það alveg rétt af því ég vissi hvað vakti fyrir hv. sjálfstæðismönnum með því. Það var að koma þessum banka í ginið í kolkrabbanum, eins og hæstv. ráðherra nefndi það á sínum tíma þegar hann var þingmaður. Það hefði verið miklu eðlilegra og meiri hagræðing fólgin í því að setja þetta inn í bankana eins og við lögðum til.