Fjárfestingarbanki atvinnulífsins

Fimmtudaginn 17. desember 1998, kl. 16:01:59 (2526)

1998-12-17 16:01:59# 123. lþ. 44.17 fundur 229. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# (sala hlutafjár) frv. 167/1998, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 123. lþ.

[16:01]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir rétt að leiðrétta það sem hv. þm. sagði hér áðan, að sagan segði okkur að yfirleitt kæmu menn með mál inn í þingið og formbreyttu fyrirtækjum, settu á þau hlutafélagastimpil, kæmu síðan eftir á og segðu: Nú þarf að selja.

Í þeim tilfellum sem hér eru til umræðu, hvort sem menn eru að tala um Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, Landsbanka Íslands hf. eða Búnaðarbanka Íslands hf., á þetta ekki við. Þegar sjóðirnir voru sameinaðir í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins var klárt að til stæði að selja 49%, það stóð skýrt og skorinort í frv. Einnig var gerð grein fyrir því að selja ætti 51% síðar meir. Nú er leitað eftir þeirri heimild.

Sama gildir um Landsbankann og Búnaðarbankann. Það kom skýrt fram í frv. að ekki ætti að selja eignarhlut ríkisins þar heldur stæði til að auka hlutafé þeirra og við hefðum heimildir til þess allt upp í 35%. Farið hefur verið eftir öllu sem menn sögðu á þessum tíma og þinginu gerð fullkomin grein fyrir því.

Það sem upp úr stendur eftir þennan stutta tíma sem hefur reynt á sölu eða aukningu hlutafjár í þessum fyrirtækjum er að markmiðið sem ríkisstjórnin setti sér um dreifða sölu hefur gengið eftir. Það ætla ég að rökstyðja með þessu:

Eigendur í Landsbanka Íslands í dag eru í kringum átta þúsund. Stærsti einstaki hluthafi fyrir utan ríkið á þar á bilinu 2,3--2,5%. Í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins eru hluthafar í dag í kringum sjö þúsund. Stærsti einstaki hluthafinn fyrir hálfum mánuði, ég tek það skýrt fram, var með 9%. Sjóður í vörslu sömu aðila var með í kringum 5% og sjóður í vörslu Búnaðarbankans var með í kringum 5%. Í Búnaðarbanka Íslands skrifuðu tæp 93 þúsund manns sig fyrir hlutabréfum. Stærsti einstaki hluthafinn þar er Íslandsbanki með í kringum 1,5%.

Geta menn með einhverjum rökum haldið því fram að þarna sé, eins og staðan er núna, ekki um dreifða eignaraðild að ræða? Það er ekki hægt.

Það merkilegasta við þessa kennitölusöfnun alla saman er að hún misheppnaðist. Hún misheppnaðist hjá þeim sem stóðu fyrir henni, sem betur fer. Tveir þriðju hlutar þeirra sem tóku þátt í kaupum á Búnaðarbankanum neituðu að skrifa sig og framselja sín réttindi til þeirra sem voru að leita eftir þeim. Þeir eru í dag að selja á genginu 2,7 og eru þar af leiðandi að stórgræða á þessum viðskiptum sínum við bankann.