Fjárfestingarbanki atvinnulífsins

Fimmtudaginn 17. desember 1998, kl. 16:11:07 (2530)

1998-12-17 16:11:07# 123. lþ. 44.17 fundur 229. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# (sala hlutafjár) frv. 167/1998, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 123. lþ.

[16:11]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tók eftir því þegar hv. þm. hélt ræðu sína að hann var með athugasemdir um menn sem gengju í bláum skyrtum. Mér var þá litið á hv. þm. og viðskrh. og sjálfan mig og sá það að þann hóp fylla nú ýmsir ágætir menn.

Út af ræðu hv. þm. þá kemur enn og aftur fram að eignaraðildin að þessum fyrirtækjum er afar dreifð, hvort sem menn tala um Fjárfestingarbankann, Landsbankann eða Búnaðarbankann. Fyrirtækin hafa afar fjölmennan hluthafahóp og líklega mun Búnaðarbankinn verða langfjölmennasta hlutafélag landsins eftir þessar aðgerðir. Það er samt ekki nóg fyrir hv. þm.

Jafnframt hefur komið fram að með starfsemi Fjárfestingarbankans hefur samkeppni aukist á markaðnum. Það er ekki nóg fyrir hv. þm. Fram hefur komið að vextir og kjör lántakenda og viðskiptavina bankakerfisins hafa batnað. Vaxtamunur og vextir hafa lækkað. Það er ekki nóg fyrir hv. þm.

Komið hefur fram að stefna ríkisstjórnarinnar er að bjóða út þetta 51% sem eftir er í Fjárfestingarbankanum þannig að þokkalegt verð fáist fyrir. Það er ekki nóg fyrir hv. þingmann. Það hefur líka komið fram að einkavinir ríkisstjórnarinnar eru yfir 90 þús. Það er ekki nógu gott fyrir hv. þm. Það er sannarlega ekki nógu gott fyrir hv. þm. að ríkisstjórnin skuli eiga svona marga einkavini sem hún getur selt þessa banka.

Við skulum taka eftir því að Kaupþing kaupir þessa hluti í Búnaðarbankanum eða Fjárfestingarbankanum á fullu verði. Þeir borga markaðsverð fyrir bréfin, það er ekki verið að einkavinavæða þeim í hag. Salan er þeim 90 þúsund einstaklingum sem voru að kaupa þessi bréf í hag.

Ég verð að segja það að ég er afar stoltur yfir því hvernig til hefur tekist á þessum sviðum. Ég harma hins vegar að hv. þm. skuli ekki geta tekið þátt í þessari ánægjulegu þróun. Hann barmar sér yfir þessu öllu, enda ekki félegt það sem lagt var til af hálfu hv. þm. þegar málið var afgreitt.