Fjárfestingarbanki atvinnulífsins

Fimmtudaginn 17. desember 1998, kl. 16:13:49 (2531)

1998-12-17 16:13:49# 123. lþ. 44.17 fundur 229. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# (sala hlutafjár) frv. 167/1998, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 123. lþ.

[16:13]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Aðeins smáleiðrétting varðandi bláu skyrturnar. Ég átti auðvitað við að þeir væru jakkalausir í bláum skyrtum. Það er lykilatriði í þessu sambandi. En það er aukaatriði.

Ég segi enn og aftur, virðulegi forseti, að ég sannfærist ekki þó menn segi mér að hundrað þúsund eigendur séu að einhverju fyrirtæki, ef fimm af þessum hundrað þúsund eiga hugsanlega 90% í því. Það er að minni hyggju ekki dreifð eignaraðild þó að eigendurnir séu margir. Þetta er svipað og maður standi með annan fótinn í ísköldu vatni og hinn í sjóðandi vatni og teljist því að meðaltali volgur. Þetta er bara ekki svona einfalt og er ekki hægt að bera svona hluti á borð. Hægt væri að benda á margar hliðstæður sem sýna fram á að ein og sér eru þetta ekki borðleggjandi rök. En þau geta líka verið virk.

Annað í þessu samhengi, virðulegi forseti, af því að hæstv. ráðherra og formaður nefndarinnar hafa spurt hvaða önnur aðferð hefði t.d. tryggt dreifða eignaraðild. Ég minni á að það voru og eru raunar enn að stórum hluta 270 þúsund einstaklingar sem eiga Búnaðarbankann.

[16:15]

Það er hver einasti Íslendingur sem á hann. Ef menn vildu fara fyrir þá leið sem hér er verið að tala um og tryggja tugi þúsunda, hundruð þúsunda, af hverju hafði ríkisstjórnin ekki sjálf frumkvæði að því að senda eigendum þessa ríkishlutafélags bréf beint heim í stofu þar sem hún hafði frumkvæði að því að hver einasti maður kæmi að þessum kaupum en léti ekki kaupahéðna og víxlara sjá um það?

Við eigum þann möguleika enn þá. Er þá ekki langtum heiðarlegra að ganga þannig til verks? Hæstv. ráðherra og ríkisstjórn gerði það til að mynda, sem mér fannst um margt lofsvert en er engu að síður umdeilanlegt að sumu leyti, að bjóða starfsfólki bankanna að kaupa á einhverjum for\-markaði á tilteknu verði. Ég er sammála því, mér finnst það eiga við í þessu sambandi. Starfsfólkið hefur lagt fyrirtækinu starfskrafta sína um lengri eða skemmri tíma og það eru ákveðin réttlætisrök sem undirbyggja það. Hefði ekki á sama hátt verið eðlilegra að hver einasti Íslendingur hefði bara fengið bréf frá hæstv. ráðherra um að kaupa þessa pappíra á tilteknu verði og að ríkisstjórnin sjálf gerði það bara beint að bjóða þessi kaup? Eða hreinlega, eins og sumir sem hafa gengið svo langt að senda þennan mismun á raunverði og væntanlegu markaðsverði, bara beint heim í stofu, það væri bara jólagjöf ríkisstjórnarinnar, heldur en að einhverjir aðrir væru að því?