Fjárfestingarbanki atvinnulífsins

Fimmtudaginn 17. desember 1998, kl. 16:55:00 (2537)

1998-12-17 16:55:00# 123. lþ. 44.17 fundur 229. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# (sala hlutafjár) frv. 167/1998, SJS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 123. lþ.

[16:55]

Steingrímur J. Sigfússon (um fundarstjórn):

Herra forseti. Mér finnst þetta ekki nógu gott verklag. Það verð ég að segja alveg eins og er. Hér er forseti nánast að segja að þetta frv. um Fjárfestingarbankann sem þegar er búið að slíta einu sinni í sundur í umræðu, eigi að notast sem eitthvert uppfyllingarefni og að það eigi að skjóta svona inn ræðu og ræðu um það mál og slíta svo þá umræðu sundur ef þannig fer að menn ná einhvern tímann saman um að ræða stórmál sem búið var að ákveða eða a.m.k. tala um að yrði tekið á dagskrá klukkan þrjú. Og menn hafa verið að reyna að búa sig undir það að umræðurnar færu fram á þennan hátt.

Ég segi fyrir mitt leyti, þó að það sé ekki stórkostlegt vandamál, herra forseti, að þó að ég treysti mér svo sem í umræðu um hvort tveggja málið, þá hafði ég lagt til hliðar plögg um Fjárfestingarbankann og eytt síðustu tveimur klukkutímunum eða svo í að undirbúa þessa umræðu um sjávarútvegsmál vegna þess að hún hafði verið boðuð og það hafði reyndar þegar frestast um einn og hálfan tíma og nú bráðum tvo tíma að hún kæmist að.

Ég held að forseti skuldi okkur frekari skýringar á því hvernig á þessum hlutum stendur. Nær væri að lengja fundarhléið, herra forseti, og fá botn í það hvernig eigi að haga þinghaldinu í dag og í kvöld. Þetta er óskaplega eitthvað óskýrt og ekki skilvirknislegt svo vægt sé til orða tekið, herra forseti.