Fjárfestingarbanki atvinnulífsins

Fimmtudaginn 17. desember 1998, kl. 17:29:40 (2541)

1998-12-17 17:29:40# 123. lþ. 44.17 fundur 229. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# (sala hlutafjár) frv. 167/1998, SJS
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 123. lþ.

[17:29]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þungu fargi er af okkur létt að vita núna eftir eins og klukkutímaþóf hvað eigi að ræða næstu mínúturnar og ég verð að segja alveg eins og er að ég er af hjarta þakklátur fyrir að nú skuli vera fenginn botn í það hvernig fundarhaldinu verði háttað næstu mínúturnar og jafnvel klukkutímana og vona að það breytist sem minnst úr þessu. En ég leyfi mér þó að segja, herra forseti, þó að það sé utan við dagskrárefnið að eitt er að það sé ágreiningur um mál og jafnvel ágreiningur um tilhögun þinghaldsins og annað er að hér skuli þurfa að ríkja það sem maður eiginlega neyðist til að kalla skipulagsleysi og hálfgerða upplausn í skipulagningu starfanna. Í allan dag hefur staðið til að hefja ræður um sjávarútvegsmál og menn hafa búið sig undir það, búið að boða að það stæði til og svo stendur það ekki stundinni lengur og hér er margslitin í sundur umræða um dagskrármálið, frv. til laga um breytingu á lögum um stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. En það er sem sagt komin sú niðurstaða að það er málið sem á að ræða eitthvað á næstunni, er það ekki, herra forseti? Þá geri ég náttúrlega ráð fyrir því að hæstv. bankamálaráðherra verði til staðar og aðrir trúnaðarmenn ríkisstjórnarinnar á því sviði og væri ekki verra að formaður efh.- og viðskn. væri í salnum og annað helsta trúnaðarlið stjórnarinnar í þessum efnum. Það er víst ekki hægt að kalla einkavæðingarnefndina inn í þingsalinn, herra forseti, því utanþingsmönnum leyfist ekki að koma hingað, a.m.k. ekki til að tjá sig, en auðvitað ættu formenn einkavæðingarnefndar ríkisstjórnarinnar að sitja fyrir svörum umfram alla aðra, trúboðarnir sjálfir, því að það er hin nýja stétt trúboða. Eftir að trúboð í stórum stíl lagðist af í heiminum hefur vaxið upp ný stétt trúboða og trúboð hennar er einkavæðing og einkavinavæðing og einkafjármögnun og allt það.

En, herra forseti, það er spurning hvort upplýsingar liggja fyrir um ferðir viðskrh., hvort ég þarf að bíða lengi með að hefja mál mitt.

(Forseti (GÁS): Forseti vill upplýsa það að samkvæmt töflu forseta er hæstv. viðskrh. ekki í húsinu en það er verið að gera ráðstafanir til að hafa uppi á honum.)

Þá óska ég eftir að gera hlé á máli mínu, herra forseti, þangað til viðskrh. er kominn í salinn.

(Forseti (GÁS): Forseti verður við því. Það verður enn og aftur gert hlé á þessum fundi og honum fram haldið klukkan 17:40.)