Fjárfestingarbanki atvinnulífsins

Fimmtudaginn 17. desember 1998, kl. 17:46:27 (2542)

1998-12-17 17:46:27# 123. lþ. 44.17 fundur 229. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# (sala hlutafjár) frv. 167/1998, SJS
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 123. lþ.

[17:46]

Steingrímur J. Sigfússon (frh.):

Herra forseti. Það kann að vera eilítið ofmælt að ég hafi verið staddur í miðri ræðu því að ég hafði eiginlega rétt hafið mál mitt þegar í ljós kom að hæstv. viðskrh. var ekki alveg kominn í hús og við gerðum smáhlé á fundinum eins og forseta á að vera kunnugt. Af þeim sökum, sem kom sér reyndar mjög vel, var á meðan hægt að halda fund í stjórnarskrárnefnd og afgreiða þar mikilvægt mál. Það er því eiginlega ástæða til að færa viðskrh., þó óvenjulegt sé, þakkir fyrir að hafa verið fjarstaddur um skeið.

En okkur er að sönnu mikil ánægja að hafa hann hér í húsi þar sem hæstv. ráðherrann á auðvitað að vera eins og aðrir þingmenn til að taka þátt í umræðum eða hlýða á umræður um þetta mál, Fjárfestingarbankann.

Ég held að óhjákvæmilegt sé, herra forseti, að fjalla nokkuð um bæði aðdraganda og tilurð þessa banka og sömuleiðis stefnumótun hæstv. ríkisstjórnar í bankamálunum yfirleitt þegar þetta mál ber á góma enda er ítarlega vísað í þessa stefnumótun ríkisstjórnarinnar í greinargerð með frv. Þar er m.a. farið ítarlega yfir hina merku stefnumótun, sem ríkisstjórnin telur greinilega vera svo, í bankamálunum frá 28. ágúst sl. En af því það var nú sumar, herra forseti, og ekki víst að allir hafi fylgst í þaula með stjórnmálaumræðunni þegar bankamálafarsinn gekk yfir í sumar leyfi ég mér að rifja hann lítilega upp hér á eftir.

En fyrst vil ég segja um Fjárfestingarbanka atvinnulífsins að þó að sá banki hafi að mörgu leyti farið frísklega af stað, svo ég leyfi mér að orða það þannig, er ekki þar með sagt að það hafi endilega verið rétt ákvörðun að stofna hann og ég er enn þeirrar skoðunar að þar hefðu aðrir kostir verið betri. Ég held að menn hafi misst af gullnu tækifæri til að endurskipuleggja opinberar fjármálastofnanir þegar farið var út í þá breytingahrinu sem enn stendur yfir, og á ég þá auðvitað fyrst og fremst við hlutafjárvæðingu eða breytingu ríkisbankanna í hlutafélög og stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins.

Staðreyndin er sú að það ótrúlega gerðist að ríkisbönkunum var í raun fjölgað um einn. Teknir voru sjóðir, opinberir sjóðir eða hálfopinberir sjóðir, sem höfðu starfað á tiltölulega sjálfstæðum forsendum og lotið stjórn viðkomandi atvinnugreina að verulegu leyti, eins og Iðnþróunarsjóður og Fiskveiðasjóður höfðu gert. Úr þeim var búinn til einn heljarmikill ríkisbanki, Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf., og hann skellti sér út í samkeppni við aðra banka og aðrar slíkar fjármálastofnanir. Útkoman varð einn ríkisbanki í viðbót en ekki einföldun og hagræðing í bankakerfinu sem ríkið hafði þó öll tök á að gera og hafði auðvitað í höndum sér einstakt tækifæri til að endurskipuleggja þessar stofnanir sem eigandi þeirra að fullu og öllu.

Nú er þetta tækifæri ríkissjóðs að fjara út úr höndunum á ríkissjóði ósköp einfaldlega með því að búið er að breyta fyrirtækjunum í hlutafélög og farið er að hleypa meðeigendum inn í bankana eða jafnvel að selja þá að fullu og öllu leyti, eins og á að fara að gera með Fjárfestingarbanka atvinnulífsins. Þar með er málið úr höndum ríkisins og menn geta ekki komið við þeirri hagræðingu og endurskipulagningu sem skynsamlegt hefði verið.

Ég er hiklaust þeirrar skoðunar, herra forseti, að vænlegast hefði verið að stokka upp ríkisbankana tvo og hina opinberu fjárfestingarlánasjóði og leggja með því grunninn að einni mjög öflugri innlendri fjármálastofnun, sem hefði fyrst um sinn verið og átt að vera alfarið í eigu ríkisins eða a.m.k. að yfirgnæfandi meiri hluta í eigu ríkisins, til þess að tryggja inn í framtíðina a.m.k. eina sterka, innlenda fjármálastofnun sem hefði burði til þess að veita stærstu fyrirtækjum landsins þjónustu og gæti á allan hátt staðið í stykkinu hvað varðar starfsemi sína, starfssvið sitt og jafnvel átt í fullu tré við erlenda samkeppni og þess vegna leitað út á við eða sótt út á við með viðskipti sín.

Ef við tökum til að mynda Fiskveiðasjóð og Landsbankann var það svo að þessir tveir aðilar voru með yfirgnæfandi hluta af viðskiptum við íslenskan sjávarútveg og mjög oft báðir stórir viðskiptaaðilar við sömu fyrirtæki, Fiskveiðasjóður að sjálfsögðu grunnfjárfestingarsjóður greinarinnar, yfirleitt með fyrstu lán í öllum skipakaupum og allri uppbyggingu fiskvinnslustöðva o.s.frv. í sjávarútvegi, og Landsbankinn með líklega um 70% markaðshlutdeild þegar viðskipti á sviði sjávarútvegsins eru mæld sérstaklega.

Það hefði líka verið í takt við þróun í bankamálum annars staðar að í staðinn fyrir að starfrækja fjárfestingarlánasjóði eða þá þess vegna fjárfestingarbanka, þar sem kannski er flest sameiginlegt nema nafnið, hefði þessi starfsemi, langtímafjármögnun atvinnulífsins, færst inn í bankakerfið í stað þess að vera í einhverjum séreyrnamerktum, afmörkuðum sjóðum. Gamlar aðferðir og gamlar reglur um forgangsrétt sjóða til veðs, 1. veðréttur og annað því um líkt, hefði horfið eðlilega þegar viðskiptabankinn og langtímafjármögnunaraðilinn var orðinn einn og hinn sami.

Þetta hefði styrkt Landsbankann á þann hátt sem var að mínu mati heppilegt að gera við þessar aðstæður, þ.e. að leggja inn í hann öfluga stofnun eins og Fiskveiðasjóður var með mikið eigið fé, en hann lagði til lungann af eigin fé Fjárfestingarbankans. Þarna hefði þá líka sameinast eðlilega sú verkþekking og það vit á viðskiptamálum í sjávarútvegi sem var til staðar hjá þessum tveimur stóru stofnunum í landinu, Fiskveiðasjóði annars vegar og Landsbankanum hins vegar.

Síðan mátti hugsa sér að aðrir opinberir sjóðir og Búnaðarbankinn hefðu komið inn í þessa mynd með einhverjum hætti og úr þessu hefði orðið ein mjög öflug innlend peningastofnun, einhvers konar þjóðbanki, og afgang starfseminnar mátti vel hugsa sér að láta renna saman við aðra aðila, eins og sparisjóðina eða þá Íslandsbanka.

Þessum tækifærum glutraði ríkisstjórnin úr höndum sér og þar kom fyrst og fremst til bæði einkavæðingarþráhyggjan eða trúboðið, sem er ofar öllu öðru, og svo kannski líka það að ríkisstjórninni hentaði að gera þessar breytingar með þeim hætti sem raun bar vitni, t.d. að fara í þessa einföldu nafnbreytingu á Búnaðarbankanum og Landsbankanum þannig að þriggja bankastjóra kerfið gæti haldið sér, og bátnum væri ruggað sem minnst í samtryggingarkerfinu sem stóru fjármálastofnanirnar hafa að sjálfsögðu verið hluti af. Með öðrum orðum, herra forseti, var kannski ekki talið heppilegt á ríkisstjórnarheimilinu að rugga bátnum mikið og raska mikið valdajafnvæginu sem tök þeirra í þessum fjármálastofnunum hafa þróað enda hefur verið farið afar varlega í þeim efnum eins og kunnugt er.

Ef ekki hefðu komið upp skandalar og orðið áföll og læti í Landsbankanum væri þar örugglega allt óbreytt frá því sem áður var og sömu höfðingjarnir sætu þar við stjórn o.s.frv. Enda kom á daginn að hæstv. viðskrh. var ekki kjarkmeiri en svo að hann setti þá alla á vetur, alla saman, í Búnaðarbankanum og Landsbankanum. (Gripið fram í.) Hann gerði það víst, hv. þm., þangað til að þeir hröktust frá af öðrum ástæðum, og voru þá sumir látnir fara en aðrir ekki, að því er virðist fyrir sambærilegar sakir. Það er saga út af fyrir sig hvernig menn leysa slík mál með því að velja sér einn heppilegan eða þess vegna þrjá blóraböggla til þess að hlífa svo öðrum.

En þetta fór svona, herra forseti, og síðan var það þannig að loforð og yfirlýsingar hæstv. ríkisstjórnar í tengslum við breytingar í þessum bankamálum reyndust álíka endingargóð og yfirlýsingar forsetanna um fundahaldið hafa reynst síðustu dagana. Yfirleitt var ekki fyrr við litið eða menn komnir fyrir húshorn þegar allt sneri upp sem áður sneri niður. Því var t.d. lofað að ekkert yrði hróflað við ríkisbönkunum tveimur næstu fjögur árin, þeir yrðu látnir í friði, e.t.v. boðið út eitthvert nýtt fé en þeir yrðu látnir í friði. Þessu var hátíðlega lofað af ríkisstjórninni fyrir um einu og hálfu ári.

Sú samþykkt náði tæpast að verða ársgömul þegar af því bárust fréttir að farnar væru í gang viðræður af hálfu ríkisstjórnarinnar og viðskrn. við banka Wallenberganna í Svíþjóð, Skandinaviska Enskilda Banken, um að selja þeim ráðandi hlut í Landsbankanum. Þá var loforðið um að láta Landsbankann í friði og hrófla ekki við honum næstu fjögur árin orðið að þessu.

Þetta voru sem sagt sumaræfingarnar og ýmsir létu sér nú detta í hug að þetta væri svona eitthvert ,,midsommar`` upp á sænska vísu hjá ríkisstjórninni, þessi hugsun hefði orðið til á svona midsommar-gleði og þetta hefði verið allt í gríni og allt í plati enda reyndist það nú vera svo.

Sama átti við um Íslandsbanka, þeir voru hafðir að ginningarfíflum í þessum bankafarsa í sumar. Tímans vegna, herra forseti, ætla ég ekki að rekja það öllu lengur en vísa til þess að þannig var komið í lok ágústmánaðar að ríkisstjórnin sá sig knúna til þess að koma saman á krísufund og móta alveg nýja stefnu í þessum málum til að reyna að klóra yfir vitleysuna sem á undan var gengin, eftir margra vikna stanslausa fjölmiðlaumfjöllun um hugmyndir um þetta og hugmyndir um hitt, selja þennan banka til útlanda, hinn bankann, Íslandsbanka, eða ekki, þá greip ríkisstjórnin til þess ráðs að gefa út nýja stefnuyfirlýsingu um niðurstöður sínar eða markmið í bankamálum. Inn í það mál kom sú hugmynd að hraða sölu á eignarhlut ríkissjóðs í Fjárfestingarbankanum.

Nú er það svo, herra forseti, að allt á sér þetta ákveðnar skýringar. Mér er vel ljóst að innan ríkisstjórnarinnar voru ýmsir sem vildu ganga miklu hraðar fram í einkavæðingunni en núgildandi lög gera ráð fyrir og þessi stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar gerir ráð fyrir. En ástæðan fyrir því þegar hlutafélagabreytingarnar voru til umfjöllunar á Alþingi að þá átti að fara svona varlega, var sú að gert hafði verið um það eitthvert pólitískt samkomulag innan ríkisstjórnarinnar. Einhverjir efasemdarmenn höfðu verið í stjórnarliðinu um að þetta væri vænlegt og vel til vinsælda fallið eða til mikillar farsældar að rjúka til og einkavæða allar stofnanir ríkisins á fjármálasviði. Það mun vera svo, herra forseti, að þessar girðingar og þessir varnaglar hafa verið slegnir af hálfu einhverra sem vildu geta sagt bæði út á við og inn á við við kjósendur sína, stuðningsmenn, og jafnvel við sjálfa sig á kvöldin áður en þeir færu að sofa og á morgnana þegar þeir vöknuðu: Þetta verður allt í lagi því að næstu fjögur árin verður ekki hróflað við Landsbankanum og Búnaðarbankanum, og þetta er nú allt í lagi með nýja bankann sem á að stofna því að það er ekki heimilt að selja nema 49% í honum.

Síðan kom það á daginn að um leið og ríkisstjórnin var búin að skáskjóta þessum heimildum í gegnum Alþingi voru einkavæðingarhaukarnir komnir á fulla ferð með að ómerkja allt þetta, eins og reynslan frá í sumar sýnir og sannar. Þrátt fyrir ótvíræð ákvæði laga um að ekki mætti selja hluti úr ríkisbönkunum fóru viðræður í gang um að afhenda Wallenbergunum, þ.e. sænsku Engeyjarættinni, Landsbankann. Þetta er svona. Það er ástæða til þess fyrir virðulegan forseta, sem ég veit að er áhugamaður um bankamál, að hugleiða þetta. Og spurning til hvers menn eru að streitast við og fá inn svona varnagla og girðingar til að friða samviskuna þegar það heldur svo ekki stundinni lengur.

[18:00]

Reyndar er það mjög athyglisvert, herra forseti, að saga þessarar einkavæðingar er vörðuð af svona loddaraleik og það á ekki bara við um Ísland. Það hefur mjög víða annars staðar gerst að þegar verið er að knýja þetta áfram gegn miklum efasemdum manna, jafnvel í stjórnmálunum, og oft mjög miklum efasemdum í samfélaginu, þá er þessi smáskammtaaðferð notuð, sama aðferð og notuð hefur verið til að reyna að draga menn á halanum öfuga inn í Evrópusambandið. Það er alltaf talað svona: Þetta er nú allt í lagi, það á bara að athuga þetta, og stigið verður mjög varlega eitt skref í einu o.s.frv. En það er auðvitað alveg augljóst mál að ætlunin er að fara alla leið. Draumur einkavæðingarsinnanna er að ríkið fari algjörlega út úr eignarhaldi á þessum fjármálastofnunum, og einkaaðilar, hvort sem þeir eru innlendir eða erlendir, ráðskist með þetta allt saman. Þá geta menn farið að velta fyrir sér hvað væri þá orðið eftir af því sem heitir stöðugleiki eða festa í innlenda fjármálaheiminum ef t.d. allar fjármálastofnanirnar væru komnar í eigu mismunandi einkaaðila og gengju kaupum og sölum.

Það leggst lítið fyrir þá kappa, herra forseti, eins og hv. 2. þm. Suðurl., ég veit að ég þarf ekki að nafngreina hann við virðulegan forseta, en hann mun hafa verið einn af þeim sem stóðu í þessari girðingasmíð og varnaglaslætti þegar einkavæðingarfrv. í bankamálunum voru hér á dagskrá á dögunum.

Síðan hefur í framhaldinu, herra forseti, þjóðin mátt upplifa mjög sérkennilega hluti eins og t.d. kennitölufárið. Þegar þessir dauðu tölustafir, sem menn hafa nú ekki fram undir þetta áttað sig á að hefðu mikið gildi nema bara sem æfing í að muna tölur því að flestir leggja metnað sinn í að muna við velflestar aðstæður kennitöluna sína, og tekst það nú sjálfsagt almennt, en þá er allt í einu þessi kennitala orðin gulls ígildi. Menn gátu bara selt sig og fyrirhafnarlaust orðið eigendur í þjóðbönkunum, að vísu bara mjög stutta stund, út á kennitölurnar.

Menn þekkja þann kappleik sem þar upphófst og þann farsa sem í raun og veru reis í kringum það mál allt, og á ég þá ekki við þátt almennings því að auðvitað er það í sjálfu sér fullkomlega eðlilegt að almenningur smitist og vilji reyna að ná sér í ókeypis pening á slíkan hátt. En farsinn snýr auðvitað annars vegar að hæstv. ríkisstjórn, sem ber ábyrgð á framkvæmdinni, og hins vegar að fjármálastofnunum, að því móverki sem fer út í slíkan leðjuslag eins og áflog þessara fjármálastofnana um bréfin hver í annarri var og er og ekkert annað. Ekkert annað en leðjuslagur.

Þegar á að byrja að einkavæða opinberar stofnanir eða banka, og boðin eru út hlutabréf og almenningur á að eiga forkaupsrétt að þeim, hvað gera þá ríkisbankar í eigu ríkisins og undir stjórn hæstv. viðskrh. sem vill að almenningur eigi bréfin? Þeir leggja í auglýsingaherferðir til að ná þessum bréfum aftur í sína eigu. Landsbankinn, sem nýlega var búið að bjóða út hlutafé í þannig að inn í eignarhald á honum kæmu aðrir aðilar með ríkinu, fer því og kaupir bréf sem losna í Búnaðarbankanum. Ríkisbankinn kaupir bréfin úr hinum ríkisbankanum sem átti að selja almenningi. Er þetta eitthvað annað en farsi, herra forseti? Ég spyr. Auðvitað er það með ólíkindum. Síðan kemur hæstv. viðskrh. sem skipar bankaráðin og fer með eignarhald ríkisins í bankanum og yppir öxlum og getur ekkert við þessu gert og er voðalega vandræðalegur og kindarlegur og segir: Þetta gengur jú að vísu gegn markmiðum ríkisstjórnarinnar um dreifða eignaraðild en þetta er bara svona. Markaðurinn og markaðurinn, þetta er bara svona.

En það er ekki staldrað við, þá er ekki hætt og menn spyrja sig ekki hvort þeir séu á réttri leið og hvort þessi aðferðafræði gangi upp. Nei, það er haldið áfram, vaðið beint úr hlutafjárútboði í Landsbankanum, þar sem menn sáu forsmekkinn af þessu, í hlutafjárútboð í Búnaðarbankanum þar sem tókst að æra upp þriðjung af þjóðinni til að selja kennitölurnar sínar og fá fyrir einhverja hundraðkalla.

Hæstv. viðskrh. hefur lagt út í þann hetjuskap, m.a. í umræðum á Alþingi, að færa fram þessu til málsbóta að þjóðin hafi verið að hagnast og það sé nú gott. Og jafnvel þótt þriðjungur hafi selt kennitölurnar sínar og fengið þúsundkall fyrir þá skulum við nú aðeins líta á þessa röksemdafærslu. Er þetta ekki dálítið þunnur ís sem hæstv. ráðherra er þarna á? (Gripið fram í: Hæstiréttur gaf þeim boltann og ...) Hvað högnuðust þeir tveir þriðju hlutar þjóðarinnar, herra forseti, mikið sem ekki tóku þátt í kennitölufárinu? Hvernig snýr dæmið að þeim? Það snýr þannig að þeir horfa upp á eign sína selda á undirverði, augljóslega. Og þessi þriðjungur sem tók þátt í kennitölufárinu er líka hluti af eigendum bankans, hann er hluti af þjóðinni eins og aðrir, því verður að mínusa gróða hans um það sem nemur undirverðinu á bréfunum á þeim þriðjungi bréfanna sem hann átti, sem verið var að bjóða út. Með öðrum orðum þjóðin á þarna að græða á sjálfri sér.

Mér finnst þetta vera í raun og veru eins og búið væri út fyrirkomulag þar sem menn færu með einhverja eign sína, afhentu hana eða hún væri tekin af þeim eða afhent einhverjum á umtalsverðu undirverði. Síðan ættu þeir kost á því að eignast hana í korter og græða á því nokkur hundruð krónur. Ég hef, herra forseti, í blaðagrein líkt þessu við aðferðafræði Münchhausens, en hann vann sér það m.a. til frægðar, herra forseti, sem ræðumaður gæti nú ekki gert, að toga sig upp úr keldu á hárinu. Og af þessu er frægt ævintýri. Þetta er af hugmyndaheimi Münchhausens, herra forseti, þessi aðferðafræði hæstv. viðskrh. þegar þjóðin á að fara að græða á sjálfri sér með þessum hætti.

Það liggur þegar fyrir, herra forseti, að eignarhaldið í þessum stofnunum þjappast auðvitað saman á sömu hendur eins og við mátti búast. Þessi bréf koma til með að sópast saman með undrahraða í hendur fjármálastofnananna sem eru að fljúgast þarna á um völd, áhrif og eignarhald hver í annarri. Það minnir mann auðvitað einna helst á rússnesku aðferðirnar, þegar gefin voru út bréf í rússnesku ríkisfyrirtækjunum sem á einhvern undraverðan hátt voru svo bara eftir augnablik komin í eigu nokkurra manna í Rússlandi. Þannig að nokkrir auðmenn, gamlir valdarefir í Rússíá eiga nú öll helstu stórfyrirtæki Rússlands. Til dæmis mun sá mæti maður Tsjernomyrdín eiga Gazprom, sem er eitt stærsta olíufyrirtæki í heimi. Hvernig eignaðist hann það upp úr þurru? Jú, hann náði með einhverjum töfrabrögðum að sópa til sín bréfum almennings, kannski hefur hann gefið eitthvað út í viðbót, og áður en við var litið var hann allt í einu, án þess að menn vissu í raun og veru hvernig hann hefði fjármagnað það, orðinn eigandi að þessu risastóra fyrirtæki. Og sama gildir um marga aðra aðila í Rússíá.

Ég held að bréf almennings í þessum bönkum muni sópast saman, ég segi nú kannski ekki alveg með rússneskum hraða en langleiðina það. Það hvimleiða og dapurlega við þetta er líka, herra forseti, að mér finnst þetta öfugt við það sem margir hafa verið að segja, að þetta sé allt saman til marks um það hve markaðurinn sé orðinn þroskaður á Íslandi og hann sé að dýpka og breikka og ég veit ekki hvað þau heita öll fínu hugtökin.

Mér finnst þetta segja mér alveg öfugt, gagnstætt þessu, að það hefur ekkert breyst. Það eru sömu fáu blokkirnar og sömu fáu peningaveiturnar sem koma til sögunnar og sópa til sín því sem losnar af bréfum af þessu tagi. Það eru sömu valdablokkirnar, sömu fjármagnsuppspretturnar sem þarna eru á ferðinni, og eru oft ræddar hér undir ýmsum nafngiftum.

Þessar breytingar í fjármálakerfinu verða ekki til þess að þroska það, þær verða ekki til að breikka einhvern markað eða dýpka, þær verða ekki til þess að gera samkeppnina breiðari og öflugri, hvort heldur er í fjármálum eða á öðrum sviðum, heldur munu þær auka á samþjöppun valds og fjármuna í landinu. Það er alveg augljóst mál þegar maður lítur á það hverjir eru að keppast um að verða þarna stórir eigendur og fá sér ráðandi hlut.

Það sem er líka sjúkdómsmerki er það að verðið virðist ekki skipta máli. Það er nefnilega ekki arðurinn af þessum fjárfestingum sem menn eru fyrst og fremst að hugsa um og það hefur sjaldnast verið það á Íslandi þegar hlutabréfakaup eiga í hlut. Það er að langmestu leyti þetta gamla sama að fjölskyldurnar og peningaöflin eru að fljúgast á um völd og áhrif og aðstöðu í íslenska fákeppnisheiminum, og að þessu sinni fjármálaheiminum. Við þekkjum slík áflog og bolabrögð úr tryggingabransanum, úr olíufélagabransanum, úr sjávarútvegsgeiranum og fleiri slíkum sviðum þar sem svipaðar blokkir eða aðilar eru að glíma.

Ég held að þetta segi heldur ekki nokkurn skapaðan hlut um eftirspurnina. Menn hafa farið út í alveg ævintýralega útreikninga á því hvað eftirspurnin sé upp á marga tugi ef ekki hundruð milljarða og reiknað það út frá þátttöku almennings. Hvers konar barnaskapur er þetta? Það vissu allir að þeir fengju brot af því sem þeir máttu skuldbinda sig fyrir og menn ætluðu ekki að eiga þetta stundinni lengur og höfðu loforð fyrir því að þeir gætu selt þetta strax aftur. Auðvitað var auðvelt mál að skrá sig fyrir þessu. Það segir ekki nokkurn skapaðan hlut um raunverulega eftirspurn eftir bréfum af þessum toga til lengri tíma litið. Og það er enn fáránlegra að nota þetta kapphlaup og gylliboð þessara aðila sem þarna fóru í leðjuslaginn sem mælikvarða á raunverulegt verðmæti þessara stofnana. Það er algjörlega út í hött.

Niðurstaða mín er því sú, herra forseti, að öfugt við það sem haldið er fram og öfugt við það sem liggur í forsendum þessa máls, og er í grg. notað sem rök fyrir því að selja nú restina í þessum banka, þá er ekki hægt að draga neina slíka lærdóma af því sem á undan er gengið. Það getur vel verið að dellan haldi eitthvað áfram. Það getur vel verið að hægt sé að kynda upp annað kapphlaup í kringum seinni helminginn af Fjárfestingarbankanum. En það segir ekkert um raunverulega eftirspurn til lengri tíma litið, t.d. meðal almennings hvað það varðar að vera eigendur að þessum bréfum í langan tíma. Ekki nokkurn skapaðan hlut.

Herra forseti. Í umræðunni um þessi mál hefur hæstv. viðskrh. og ríkisstjórnin öll oft og iðulega gleymt einu atriði, sjálfsagt af því að það er smáatriði fyrir þeim, en það er dapurlegt engu að síður að t.d. í umræðum um æfingarnar á sl. sumri í bankamálunum, þá var starfsfólkið yfirleitt ekki nefnt á nafn. Bankastarfsmenn og atvinnuöryggi þeirra og hagsmunir voru yfirleitt ekki nefndir á nafn fyrr en eftir að hæstv. viðskrh. var minntur á að það ynni fólk í bönkunum og þá hrökk hann við á þriðja degi og fór að tala um það. Það væri að vísu þarna fólk og það væri alls ekki meiningin að koma illa fram við það.

Einnig að þessu leyti, herra forseti, hefur ríkið farið vitlaust í hlutina. Þarna átti ríkið einmitt, ekki bara sem eigandi bankanna heldur líka sem vinnuveitandi þessa fólks, að vanda sig alveg sérstaklega hvað það varðaði að standa þannig að þessum breytingum að bankastarfsmönnum væri gert kleift á eins auðveldan hátt og kostur var að mæta þeim breytingum hvað varðaði áhrif á stöðu þeirra. Og það er hart að þurfa að segja það, herra forseti, og ekkert hart í sjálfu sér því það á að geta þess sem vel er gert, að ég fæ ekki betur séð af því að skoða þessi mál og hafa fylgst með þeim undanfarin ár, en að það sé einkabankinn, Íslandsbanki sem hafi þrátt fyrir allt staðið sig betur en ríkið þegar þar að kemur, herra forseti, að fólkið, starfsfólkið mæti þessum breytingum. Ég minnist þess a.m.k., herra forseti, að Íslandsbanki reyndi að fara í þær breytingar sem tengdust tilurð hans og breyttum rekstri þegar þar sameinuðust nokkrar stofnanir, að grípa ekki til uppsagna eða fjöldauppsagna en ráða ekki í lausar stöður á móti og láta þar með starfsaldurinn hjálpa til við að færa til fólk og fækka stöðugildum, að auðvelda fólki að fara á námskeið og endurhæfa sig og endurmennta og finna sér ný störf o.s.frv. Það er vel og er til fyrirmyndar að menn reyni að gera hlutina þannig.

Það hafa menn t.d. gert líka á hinum Norðurlöndunum þar sem menn leggja yfirleitt metnað sinn í að koma vel fram við starfsfólk eftir langa og dygga þjónustu þess.

[18:15]

En ríkið, herra forseti, hefur nánast ekkert gert, ekki sýnt lit hvað það varðar að taka sérstaklega á málefnum starfsmanna sinna, hvorki sem vinnuveitandi né eigandi hvað þá heldur ríki sem ber auðvitað almenna ábyrgð á ástandi á vinnumarkaðnum í landinu. Og það er dapurlegt.

Nú er verið að einkavæða eða selja og þar með er auðvitað einkaaðilanum ætlað það hlutverk að ganga í böðulsverkin fyrir ríkið. Það getur svo sem vel verið þegar upp er staðið að þá reynist þeir ekki verri en ríkið sjálft. Við höfum m.a. horft upp á að hæstv. félmrh. lagði hér fram frv. um breytingu á ríkisstofnun í hlutavætt form þar sem ekki var eitt einasta ákvæði um atvinnuöryggi starfsfólks. Þetta var þegar hæstv. félmrh. lagði niður félagslega húsnæðiskerfið og Húsnæðisstofnun ríkisins. Það var með miklum ólíkindum að jafnvel þau ákvæði sem hafa verið í ýmsum öðrum tilvikum um að starfsfólk eigi að hafa forgang til starfa, voru ekki með þar.

Herra forseti. Ég sagði fyrr í ræðu minni að Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hefði á hinn bóginn að ýmsu leyti reynst vera frísklegur banki, og þá vísa ég til þess að menn hafa þar farið ótroðnar slóðir að ýmsu leyti, farið út í ýmsar æfingar sem hafa vakið athygli og jafnvel hrist upp í öðrum. Það er allt í lagi með það í sjálfu sér úr því að þessi banki varð til á annað borð. Þó ég hafi á sínum tíma haft aðrar hugmyndir um það hvernig hefði átt að endurskipuleggja peningakerfið þá er ekkert að því í sjálfu sér að nýjar hugmyndir komi inn með nýjum mönnum og það hafa þær vissulega gert í þessum Fjárfestingarbanka. Menn geta þar velt fyrir sér ýmsu og t.d. því hvort það hafi verið hlutverk eða eigi að vera hlutverk slíkra banka að gerast milliliður í fyrirtækjakaupum eins og þar hefur verið gert og er nokkurt nýmæli hér og menn sjá þar stórar tölur á ferð. En hvað varðar ýmsa þjónustu og annað þá hygg ég að megi segja að þessi banki hafi að ýmsu leyti reynst frísklegur. Það er ekki þar með sagt að önnur tilhögun en að setja hann á stofn, búa til í raun og veru fjórða stóra bankann eða bankasamstæðuna, hefði ekki verið vænlegri kostur.

Herra forseti. Eitt hefur dálítið leitað á mig í tengslum við þessa einkavæðingu bankanna. Mönnum finnst það núorðið sáluhjálparatriði að ríkið hverfi þarna alveg út úr eignarhaldinu og nota til þess alls konar röksemdir, m.a. þær að þetta sé ekki svona á hinum Norðurlöndunum eða annars staðar, þar sé ríkið yfirleitt ekki svona stórt í þessum stofnunum og þetta séu vond ríkisafskipti. Svo setja menn hf. aftan við nafnið og viðskrh. fer eftir það einn með völdin í staðinn fyrir að áður voru kosnar þingkjörnar stjórnir til að stýra þessum stofnunum. Þessi hugarheimur endurspeglast ágætlega í orðum á bls. 3 í grg. með frv. Þar segir eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Það er mat ríkisstjórnarinnar að mikilvægt sé að hraða sölu hlutafjár í FBA og að stefna beri að því að selja allt hlutafé ríkissjóðs í bankanum á fyrri hluta ársins 1999 ef aðstæður leyfa.`` --- Það er að vísu sá fyrirvari. --- ,,Ástæðan er einkum sú að engin rök hníga lengur til þess að ríkið sé stór eigandi hlutafjár í bankanum.``

Löngu síðar í sömu málsgrein er að vísu sagt:

,,... auk þess sem ríkissjóður fær góðar tekjur af sölunni.``

Það er svona aukaatriði að ríkið fær svo þarna einhverjar tekjur, að vísu minni en gæti orðið ef menn væru að hugsa um að fá fullt verð fyrir eignir almennings í bönkunum, en einhverjar tekjur verða það samt.

Herra forseti. Það er ekki eins og Íslendingar séu að finna upp hjólið í þessum efnum. Oft er nú leitað hér yfir Atlantsálana í austurátt eftir fordæmum eða hliðstæðum, a.m.k. þegar lagasmíð og margt annað á í hlut, og þá gjarnan til hinna Norðurlandanna. Sú Norðurlandaþjóðin sem talin er okkur skyldust, enda næst okkur í stærð, eru frændur okkar Norðmenn. Þar hafa menn ákveðna reynslu af bæði einkavæðingu og líka öðrum hlutum í þessum bankamálum. Þar voru t.d. einkavæddir bankar og þar voru líka bankar í blandaðri eigu ríkis og annarra aðila.

Svo gekk þar yfir bankakreppa, herra forseti, eins og reyndar á öllum hinum Norðurlöndunum, þó kannski einna minnst á Íslandi. Hvað gerðist í bankakreppunni? Fóru einkabankarnir á hausinn? Fyrst má reyndar spyrja: Af hverju varð bankakreppan úr því að þetta var allt einkarekið og sá rekstur er alltaf svo góður, ekki satt, herra forseti. Hann er alltaf betri en ríkisreksturinn, er það ekki? (Gripið fram í: Jú.) Jú, jú, segir hv. þm. Gunnlaugur Sigmundsson, alltaf betri. Þannig var það samt engu að síður þó að uppi á Íslandi væru ríkisbankar og sparisjóðir, sjálfseignarstofnanir, en í Noregi væru t.d. að mestu leyti einkabankar eða blandaðir bankar, þá varð bankakreppan miklu verri í Noregi, í landi einkarekstursins. Það mætti reyndar nefna mörg fleiri dæmi (Gripið fram í: Kanada.) um einkabanka sem hafa farið glæsilega á hausinn, í Kanada, Singapúr og víðar.

En hvað gerði ríkisstjórn Noregs? Hún gerði eins og ríkisstjórn Svíþjóðar, Finnlands og Danmerkur þegar bankakreppan gekk yfir, að vísu minnst í Danmörku. Jú, hún fór í ríkisstjóð og mokaði peningum í bankakerfið. Mokaði skattpeningum inn í bankakerfið til að halda því á floti, inn í hina fínu einkavæddu banka. Í Noregi gekk þetta svo langt að ríkið yfirtók eignarhaldið í nokkrum stórum bönkum og sparisjóðum. Hefur engum dottið það í hug, herra forseti, að þetta gæti hugsanlega gerst hér? Hefur engum dottið í hug t.d. að Landsbankinn sem væri nýlega einkavæddur, Landsbankinn sem við vitum öll að hefur staðið tæpast hvað varðar eiginfjárhlutfall og annað því um líkt, lenti í því að hér gengju aftur í garð erfiðleikar, t.d. í undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar? Það er ekki eins og og það sé verið að skálda slíka möguleika eða þurfi að grípa til fantasíunnar í þeim efnum. Ætli reynslan sýni okkur ekki að slíkar sveiflur hafa komið. Þar mundu menn mæta erfiðleikum og bankinn lenti í erfiðleikum. Hvað mundi gerast? Mundu menn láta hann fara á hausinn? Nei. Menn mundu auðvitað grípa til þess að moka peningum úr ríkissjóði. Og til hvers er þá unnið? Er það þá endilega sérstakt framfaraskref --- reyndist það þannig í Noregi? --- að keppast við alveg fram undir bankakreppuna að einkavæða fjármálastofnanir þar sem ríkið og opinberir aðilar höfðu áður verið stórir ef þetta sama ríki og þessir sömu opinberu aðilar sitja hvort sem er uppi með ábyrgðina þegar á bjátar? Og það gera þeir með margvíslegum hætti í gegnum tryggingu á innstæðum og sparnaði almennings sem er lögleidd og ljóst að ríkið þarf að standa á bak við og í gegnum ósköp einfaldlega þá staðreynd að menn láta ekki mikilvægustu fjármálastofnanir í litlum hagkerfum og jafnvel stórum fara á hausinn vegna þess að menn þola það ekki. Allt er þetta svona í þessu verndaða pilsfaldakapítalismasamhengi, herra forseti. Þannig er það. En trúarbrögðin á einkavæðinguna láta ekki á sjá enda er trúin öllu öðru öflugri ef hún er til staðar, ef hún er nógu sterk, herra forseti. Það vantar nú ekki. Trúin á einkavæðinguna og einkareksturinn og einkafjármögnunina er svo sterk, herra forseti, að jafnvel skynsömustu menn, þvert gegn öllum staðreyndum sem fyrir liggja í málum, haggast ekki. Þeir lemja höfðinu við einkavæðingarklettinn alveg stanslaust þó það sé orðið blóðrisa og þeir ættu að vera farnir að átta sig á því að kletturinn er klettur og steinninn er úr steini.

Það er t.d. alveg með ólíkindum að sjá Framsfl. þannig genginn í þessi björg að hann hefur nú forustu, herra forseti, á hverju sviðinu á fætur öðru í einkavæðingu og einkafjármögnun, jafnvel í viðkvæmum þáttum velferðarþjónustunnar.

Ég geri ráð fyrir að herra forseti hafi tekið eftir auglýsingu í Morgunblaðinu fyrir réttri viku síðan þar sem Ríkiskaup buðu út þjónustu í nafni heilbr.- og trn. Hvað var boðið út? Það var eitt stykki hjúkrunarheimili. 60 gamalmenni voru boðin út til 25 ára af Framsfl. Fólk í fyrirrúmi. Þar, herra forseti, er verið að fara út á braut thatcherískrar einkavæðingar sem heitir í þessu tilviki og samkvæmt þessari formúlu því fína nafni einkafjármögnun. Það er boðið út að fjármagna eitt stykki hjúkrunarheimili, byggja það og reka það í 25 ár. Það þýðir að ríkið ætlar að skaffa heimilinu eða öllu heldur rekstraraðilanum sjúklinga í 25 ár og borga fyrir þá. Þetta heitir á fínu máli einkafjármögnun. Svo koma menn hér alveg gallharðir og segja: Þetta er ódýrt og skynsamlegt og gott og mikið mikið betra að einkaaðilarnir geri þetta heldur en ríkið.

En reynslan er ólygin um það hvernig þetta hefur komið út alls staðar þar sem þetta hefur verið prófað, þ.e. hörmulega. Þetta hefur reynst dýrara. Þetta hefur bundið hendur ríkisins þannig að ef menn vilja fara út í einhverjar áherslubreytingar í þessum málaflokki, þá er það meira og minna stoppað, blokkerað af, af því að ríkið er fast á klafa samninga til 25 ára um að borga fyrir plássin fastar upphæðir. Þetta er dýrara vegna þess að einkaaðilarnir þurfa að sækja dýrara fjármagn heldur en opinberir aðilar eiga yfirleitt kost á o.s.frv.

Herra forseti. Ég held að þessi einkavæðingardella í bankamálunum sé af sama meiði. Þetta er sama dellan. Þetta er jafnilla rökstutt. Þetta er jafnblint og jafntrúarlegs eðlis í raun og veru eins og allt þetta skillerí er allt saman. Það er, herra forseti, talsvert merkilegt, og þó er það kannski ekki merkilegt, að það skuli vera Framsfl. blessaður sem er nú í fjósverkunum fyrir íhaldið í þessum efnum, veður flórinn miðjan upp að hnjám og einkavæðir og einkafjármagnar á báðar hendur, banka hér og hjúkrunarheimili þar. Og á meðan halla þeir á höfuðbólinu sér öruggir aftur í stólunum, gott ef þeir fá sér ekki vindil og slappa af, þ.e. frjálshyggju- og einkavæðingarhaukarnir í Sjálfstfl. Þeir þurfa ekki að óhreinka fingurgómana. Þeir þurfa ekki að ganga í verkin. Þeir hafa vinnumenn til þess. Einn af þessum vinnumönnum er hæstv. iðn- og viðskrh., bara þónokkuð liðtækur vinnumaður í þessum skilningi orðsins, fyrir íhaldið.

Að vísu eru fardagar fram undan og það var til siðs að menn skiptu um vist á fardögum í gamla daga. Nú veit ég ekki hvort eitthvað slíkt er í huga hæstv. viðskrh. Kannski er hann svo sæll í vistinni, kannski er honum flórmoksturinn í fjósi íhaldsins svo kær að hann vill bara halda áfram að einkavæða og einkafjármagna í þágu hugsjóna íhaldsaflanna í landinu.

Herra forseti. Ég hef enga sérstaka hugsjón í sambandi við það að ríkið eigi endilega að reka og eiga banka, og alls ekki marga banka. Ég gæti vel séð fyrir mér að eitthvað af þeirri starfsemi t.d. sem lenti hjá Fjárfestingarbankanum hefði lent annars staðar. Ég hef enga sérstaka fordóma gagnvart því. Ég er þeirrar skoðunar t.d. að það sé allt í lagi í sjálfu sér, af því að við búum nú einu sinni í blönduðu hagkerfi --- eða bjuggum, það er ekki að verða mjög blandað lengur --- að hér sé rekinn einkabanki eins og Íslandsbanki. Ég held að það sé bara allt í góðu lagi. Ég held að það sé mjög mikilvægt og gott að við eigum almenningsþjónustuvinsamlegar stofnanir eins og sparisjóðina, sjálfseignarstofnanir með sjálfstæði í hverju héraði og mikilvægar stofnanir og yfirleitt vinsælar af því fólki sem við þær skiptir. Enda hefur þeirra hagur blómgast mjög undanfarin ár og fer ákaflega í taugarnar á sumum sem hafa miklar áhyggjur af eignarhaldinu á sparisjóðunum. Sumir sofa varla á nóttunni yfir áhyggjum út af því að þessar sjálfseignarstofnanir skuli vera til. En ég held að það sé líka gott, herra forseti, til þess að tryggja þarna samkeppni, til þess að tryggja þarna fjölbreytni og dreifingu, til þess að hindra þarna of mikla samþjöppun fjármálalegs valds í landinu, til þess að tryggja a.m.k. eina sjálfstæða innlenda peningastofnun, að hið opinbera haldi utan um a.m.k. eina slíka og það vil ég að sé framtíðarstefnan. En því miður hefur ríkisstjórn Íslands ekki mótað neina slíka stefnu. Það liggur alveg eins í loftinu að ríkisstjórnin gæti hugsað sér að afhenda einkaaðilum restina af fjármálastofnunum landsins og leyfa þeim þess vegna að safnast á fáar hendur. Ég les það m.a. út úr því að ríkisstjórnin hikar ekki við og stingur hvergi niður fæti þó að málið gangi fyrir sig eins og raun ber vitni í einkavæðingunni og kennitölufárinu þessa mánuðina.

[18:30]

Herra forseti. Það mætti vissulega fara yfir ýmislegt fleira í tengslum við þetta mál og hæstv. ríkisstjórn verðskuldaði það að gerð væri nokkuð rækileg úttekt á afrekum hennar á þessu sviði og þá ekki síst Framsfl. Vegna þess að af einhverjum undarlegum ástæðum verður manni það oft á, sem er auðvitað að verða bara einhver þráhyggja eða íhaldssemi, mér liggur við að segja íhaldssemi að vera að gera einhverjar aðrar kröfur til Framsfl. í þessum efnum en Sjálfstfl. en ég játa þann veikleika, herra forseti, að ég á það enn til að gleyma mér og gera aðrar og meiri kröfur til Framsfl. í þessum efnum en til íhaldsins. En ég viðurkenni að þetta er orðinn veikleiki, þetta á ekki lengur rétt á sér og ég skal reyna að venja mig af þessu. Ég skal reyna að venja mig af því að vera að gera nokkurn greinarmun á Framsfl. og Sjálfstfl. þegar kemur að t.d. frjálshyggjustefnu gagnvart velferðarkerfinu eða hverju öðru. Og ég verð að horfast í augu við það og beygja mig fyrir þeim óhrekjandi, mér liggur við að segja sönnunum sem uppi eru hvað það varðar að Framsfl. er að ýmsu leyti að verða forkólfur hér og gerandi og frumkvæðisaðili í einkafjármögnun og einkavæðingu í landinu. Það liggur þannig. Það blasir bara við. Svo maður minnist nú ekki á stóriðjutrúboðið sem hæstv. iðnrh. hefur auðvitað orðið frægur fyrir að endemum, að vilja bara virkja og virkja og reisa álver hér og álver þar, því meira því betra, enda ríkisstjórnin orðin fræg að endemum úti um allan heim fyrir frammistöðu sína í umhverfismálum o.s.frv. Allt teiknar þetta í raun og veru upp til sömu hlutanna, herra forseti, að það eru engin pólitísk rök lengur fyrir því að gera neinn greinarmun á stjórnarflokkunum í þessum efnum. Enda hefur Hannes Hólmsteinn, einn allra mesti hugmyndafræðingur frjálshyggjunnar á öldinni, a.m.k. hér norðan Alpafjalla, lesið það út úr þróun undangenginna missira að langskynsamlegasta sameiningin í íslenskum stjórnmálum væri sameining Framsfl. og Sjálfstfl. Þeir eigi mjög vel saman, og það sé í raun bara handavinna að ljúka því sem eftir er í þeim efnum að sameina þá formlega.

Formenn flokkanna hafa auðvitað gengið dálítið í þessa átt, m.a. með því að taka upp það nýmæli að gegna hvor fyrir annan, þannig að í raun og veru er formaður Framsfl. orðinn einhvers konar varaformaður Sjálfstfl. og öfugt. Og allt teiknar þetta auðvitað til hins sama, hvað málefnaáherslurnar snertir þá hefur Sjálfstfl. einfaldlega bara haft sitt fram. Það er hans stefna sem er framkvæmd og framsóknarmenn fá rós í hnappagatið fyrir að vera jafnverkaliprir og þeir eru í þeim efnum, vera jafndugleg og ötul vinnuhjú á höfuðbólinu eins og raun ber vitni.

Herra forseti. Ég fer senn að ljúka máli mínu og áskil mér þó að vísu allan rétt til þess að ræða ítarlegar um þetta mál seinna í þessari umræðu eða þá við 3. umr. sem eftir er. En ég vil segja það í lok ræðu minnar að engin minnsta ástæða er til að afgreiða þetta mál nú, herra forseti. Það er auðvitað alveg með ólíkindum að ríkisstjórnin skuli vera að reyna að troða þessu hér áfram, þessari heimild til að selja seinni hlutann af Fjárfestingarbankanum ofan í allt sem á undan er gengið. Það er í rauninni til skammar og sýnir hrokann og ofstopann í ríkisstjórninni að vera að þvæla þessu máli yfirleitt á dagskrá núna á lokasólarhringum þinghaldsins í staðinn fyrir að taka fyrir þau mál sem menn eru sammála um að mikilvægt sé að koma til umræðu og skoðunar, eins og til að mynda þeim sjávarútvegsfrv. sem tengjast kvótadómnum. En kannski er það vegna þess að einkavæðingin er þvílíkt forgangsmál hæstv. ríkisstjórnar að hún eigi að ýta öllu til hliðar og þetta mál haft hér á dagskrá en smámál af því tagi sem er dómur Hæstaréttar yfir kvótakerfinu hrekst hér undan og kemst ekki til umræðu dag eftir dag.

Áherslur ríkisstjórnarinnar og meiri hlutans sem fer með völdin í þinginu eru náttúrlega mjög umhugsunarverðar, herra forseti, þessa daga. Þannig eru t.d. fjárlög, tekjuskattsmál og önnur slík smámál og lög sem tengjast reglubundinni afgreiðslu mála fyrir áramót og jólaleyfi hvergi hér á dagskrá, þau sjást ekki. En stóru málin, gæluverkefnin, þ.e gagnagrunnur með einkaleyfi handa einu fyrirtæki og áframhaldandi einkavæðing í bankakerfinu, eru þvílík stórmál að mati ríkisstjórnarinnar að þau eru látin ganga fyrir umræðum t.d. um sjávarútvegsmál og kvótadóminn.

Herra forseti. Það er engin einasta ástæða til að vera að afgreiða þetta mál fyrir jólaleyfi, það er ekki bundið eða tengt áramótum á einn eða neinn hátt. Það væri miklu nær, og mér fyndist það mannsbragur af hæstv. ríkisstjórn að sýna umræðu um þessa hluti þann sóma að frv. yrði haft hér til umfjöllunar aftur á þingi eftir áramót, þannig að menn hefðu eðlilegt tóm og nægjanlegan tíma til að ræða þessi bankamál, sem þrátt fyrir allt eru mikilvæg, þ.e. breytingar í bankakerfinu og þessum stóru fjármálastofnunum, og gera það þá á skikkanlegum tíma í lok janúar eða byrjun febrúar.

Varðandi afstöðu mína til málsins er alveg ljóst að ég er ekki sammála því að hæstv. ríkisstjórn fái heimildir til að selja afganginn af Fjárfestingarbankanum. Ég tel að það sé lágmark að menn staldri nú við í ljósi reynslunnar og í ljósi þess sem gerst hefur í þeim efnum undanfarnar vikur og mánuði. Mér finnst að hæstv. ríkisstjórn ætti að skammast til að setja nú á ís frekari einkavæðingaráform fram yfir kosningar, þannig að nýr meiri hluti og ný ríkisstjórn gæti þá á vordögum eða næsta sumar og með haustinu mótað sínar áherslur hvað framhald málsins snertir. Þó að þegar sé búið að vinna þarna ýmis skemmdarverk er enn mikið í húfi, það sem eftir stendur af eignarhaldi ríkisins og almennings í landinu í gegnum sinn sameiginlega sjóð í mörgum mikilvægum fyrirtækjum eins og bönkunum, svo ekki sé nú talað um það að ríkisstjórnin fari ekki lengra út í einkavæðingu í velferðarkerfinu en þegar er orðin. Því ég er alveg viss um, herra forseti, að þó að mönnum finnist sárt að sjá stofnanir almennings afhentar einkavinavæddar á silfurfati og gæðinga sópa til sín eignarhaldinu á örskömmum tíma í framhaldinu í krafti fjármálalegs valds og yfirburða, þá er ég alveg viss um að þær deilur eru smámunir samanborið við það sem við munum sjá ef farið verður út í að einkavæða velferðarkerfið með þeim hætti sem Framsfl. er nú að byrja á. Þá verður styrjöld, ég er alveg viss um það. Það verður styrjöld hér í landinu, þá trú hef ég enn á viðspyrnu meðal almennings ef menn ætla lengra út á þá braut að fara að bjóða upp hjúkrun á 60 gamalmennum í aldarfjórðung o.s.frv. Það finnst mér, herra forseti, að sanngjarnt væri að geyma fram yfir kosningar. Stjórnarflokkarnir geta þá lagt stefnu sína á borðið, ef þeir eru menn til, og Framsókn getur útskýrt í næstu umferð hvernig fólk í fyrirrúmi samrýmist því að bjóða upp gamalmenni. Það er bara alveg sjálfsagt mál. Fara um héruð landsins og afla því sjónarmiði fylgis og verði þeim að góðu.

En við fáum þá á það mælingu í kosningunum hvað þjóðin vill. Mér finnst það beinlínis óheiðarlegt ef ríkisstjórnin ætlar að þröngva hérna í gegn mikilvægum ákvörðunum um frekari einkavæðingu og einkafjármögnun á síðustu vikum þinghalds fyrir kosningar. Það á þá frekar að leggja stefnuna í þessum málum fyrir í kosningunum þannig að eitthvað sé hægt að lesa út úr úrslitunum um vilja almennings í landinu hvað þetta varðar. Þess vegna skora ég á ríkisstjórnina, herra forseti, og þann hluta meiri hlutans sem einhver döngun er í að leggja sitt af mörkum í þeim efnum að nú verði látið staðar numið. Og þar af leiðandi er ekkert með það að gera, herra forseti, að afgreiða þetta frv. Það er ekki þess virði að rífa það eins og eitt frv. var rifið í sundur á færeyska lögþinginu á dögunum, en það er að vísu það þunnt að það var ekki erfitt, herra forseti. En ég legg til að þess í stað verði það ósköp einfaldlega látið liggja.