Fjárfestingarbanki atvinnulífsins

Fimmtudaginn 17. desember 1998, kl. 18:43:21 (2544)

1998-12-17 18:43:21# 123. lþ. 44.17 fundur 229. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# (sala hlutafjár) frv. 167/1998, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 123. lþ.

[18:43]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég gef nú ekki mikið fyrir það hvort hæstv. viðskrh. gefur eitthvað fyrir mig og minn málflutning eða ekki. Ég læt mér það í mjög léttu rúmi liggja, satt best að segja. Það er almenningur sem dæmir um það og þeir sem á okkur hlýða eða lesa ræður okkar og við skulum láta þá um það.

Það kann vel að vera að ræða mín hefði mátt vera eitthvað styttri en hún hefði líka getað verið miklu lengri. Það er ýmislegt fleira sem ég á ósagt ef út í það er farið við hæstv. viðskrh. Og það væri hægt að fara yfir umskiptingshátt hans hér frá því að hann þandi sig í stjórnarandstöðu á síðasta kjörtímabili og gagnrýndi einkavæðingaráform og einkavæðingarbrölt þáv. ríkisstjórnar og yfir í það sem hann er núna. Það er auðvitað líka ástæða til þess, herra forseti, áður en þinginu lýkur að fara svolítið yfir Framsfl. og framgöngu hans í þessum efnum almennt á kjörtímabilinu í ljósi hinna miklu loforða sem hann gaf hér á sínum tíma.

Mér hefur ekki snúist hugur hvað varðar Fjárfestingarbankann. Ég fór einmitt yfir það í ræðu minni að ég tel enn að aðrar leiðir hefðu verið heppilegri til endurskipulagningar á bankakerfinu og fjármálastofnununum en valdar voru. Hins vegar hefur Fjárfestingarbankinn eftir að hann tók til starfa starfað frísklega sem slíkur og það er allt í lagi með það. Í afstöðu minni voru ekki endilega fólgnar hrakspár eða svartsýni hvað það varðaði að þessi banki, vel mannaður, gæti ekki sem slíkur staðið sig, heldur miklu frekar hitt að ég sá fyrir mér og sé enn fyrir mér að annars konar endurskipulagning á þessum fjármálastofnunum hefði verið heppilegri.

Það er kostulegt að heyra hæstv. viðskrh. tala þannig að við höfum viljað henda fjármununum inn í ríkiskerfið, inn í ríkisbankana. Eins og þeim hefði verið hent þannig. Hefði eigin fé Fiskveiðasjóðs verið hent ef það hefði verið lagt inn í Landsbankann? Hefði það ekki styrkt efnahagsreikning hans og gert hann að sterkari stofnun? Og hefðu verðmætin ekki átt að skila sér þar? Ég hefði haldið það.

Starfsfólkið gleymdist í sumar þegar allt í einu var farið að ræða við Skandinaviska Enskilda bankann um sölu á ráðandi hlut í Landsbankanum. Þvert ofan í hvað? Ofan í loforð sem bankamönnum voru gefin um að ekki yrði seldur hlutur í ríkisbönkunum næstu fjögur árin. Og ég bið hæstv. viðskrh. að fletta upp á yfirlýsingum m.a. formanns bankamanna í sumar af þessu tilefni.