Fjárfestingarbanki atvinnulífsins

Fimmtudaginn 17. desember 1998, kl. 18:47:11 (2546)

1998-12-17 18:47:11# 123. lþ. 44.17 fundur 229. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# (sala hlutafjár) frv. 167/1998, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 123. lþ.

[18:47]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég hef ekkert sérstaklega farið ofan í saumana á því hvernig samskiptunum við starfsfólkið hefur verið háttað í gegnum allt þetta ferli, en gæti þó vel gert það. Það sem ég hef verið að vísa hér til almennt er að í þessari umfjöllun um bankamálin, hvort heldur er sölu allt í einu á stórum hlutum af ríkisbönkunum eða t.d. í ýmsum útreikningum sem bæði viðskrn. hefur komið að og fleiri aðilar um gífurlega hagræðingu með sameiningu banka o.s.frv., þá gleymist oft sá þáttur að stærstur hluti þessarar hagræðingar, reikningslegrar hagræðingar, byggir á fækkun útibúa og uppsögnum starfsmanna í stórum stíl. Það er þannig. Og þessi þáttur hefur oft gleymst.

Ég nefndi áðan skýrt dæmi um það þegar starfsfólkið gleymdist, þ.e. loforð sem því hafði verið gefið. Það vill svo til að ég veit að þetta tiltekna loforð um að þrátt fyrir formbreytingu bankanna í hf. þá yrði ekki um beina sölu á hlut ríkisins í þeim að ræða næstu fjögur árin, skipti sköpum um afstöðu starfsfólksins í þessu máli. Það var því ekkert smámál þar á ferðinni þegar allt í einu komst upp um strákinn Tuma og í ljós kom að komnar voru í gang bullandi viðræður um að selja ráðandi hlut í Landsbankanum til Svíþjóðar. Þetta er staðreynd og ég veit að hún verður ekki hrakin þannig að ég vísa til þess sem ég áður sagði í þeim efnum.

Auðvitað skil ég það, herra forseti, að öðru leyti að hæstv. viðskrh. sé það viðkvæmt mál að mikið sé verið að fara ofan í almenna frammistöðu Framsfl. í þessum efnum. Auðvitað veit ég að Framsókn er með móral á köflum yfir þeirri hægri stefnu sem í raun og veru verður lesin út úr öllum verkum og athöfnum flokksins, og að á það sé minnt hvert sá flokkur hefur verið að fara síðustu árin. Það má bera hann t.d. saman við það sem hann stóð fyrir fyrir fimm eða tíu árum síðan undir forustu annarra manna en nú. Hann er flokkur sem vill fulla ferð inn í Evrópusambandið, einkavæða og einkafjármagna o.s.frv., herra forseti.