Fjárfestingarbanki atvinnulífsins

Fimmtudaginn 17. desember 1998, kl. 18:49:54 (2547)

1998-12-17 18:49:54# 123. lþ. 44.17 fundur 229. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# (sala hlutafjár) frv. 167/1998, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 123. lþ.

[18:49]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að flytja langa ræðu. Vil taka undir þau orð sem fram komu hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni. Hann flutti mjög góða pólitíska ræðu. Þetta mál fjallar nefnilega um pólitík. Þetta fjallar um pólitískar yfirlýsingar sem stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar gefa og hvernig þeir síðan framkvæma.

Menn höfðu margir trú á því þegar ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. var mynduð á sínum tíma fyrir nærri fjórum árum að Framsfl. kynni að standa í fæturna og verjast hörðustu frjálshyggjunni sem er við lýði innan Sjálfstfl. og standa gegn einkavæðingu og sölu og gjöfum á almannaeignum. En síðan kemur í ljós að Framsfl. reynist hálfu verri en sjálfur Sjálfstfl. í þessum efnum.

Það er líka mjög alvarlegur hlutur þegar gefnar eru yfirlýsingar og veitt eru loforð af hálfu stjórnmálamanna og ráðherra, loforð sem auk þess eru skjalfest í opinberum gögnum, sem síðan eru svikin. Þannig var gefið fyrirheit á sínum tíma varðandi ríkisbankana að þeir yrðu ekki seldir innan tiltekins tíma, fjögurra ára. Þetta var svikið. (Gripið fram í: Svikið?) Þetta var svikið já. Þetta var ekki svikið? (Gripið fram í: Hvernig þá?)

Nú vænti ég þess að hæstv. ráðherra komi og geri grein fyrir þeim yfirlýsingum sem gefnar voru á sínum tíma um einkavæðingu og sölu á ríkisbönkunum og er að finna í grg. með frv. um formbreytingu sem svo er stundum nefnd þegar menn vilja hafa fín orð og afvegaleiðandi um einkavæðingu á stofnunum í almannaþjónustu. Þar sagði að bankarnir yrðu ekki seldir á næstu fjórum árum. (Gripið fram í: Þeir hafa ekki verið seldir.) Þeir hafa ekki verið seldir. Það er nefnilega það. Við höfum séð það í heilsíðuauglýsingum þegar verið er að ganga frá þessari sölu. Hún er að eiga sér stað nú um stundir.

Það er náttúrlega mjög alvarlegt þegar ekki er hægt að treysta yfirlýsingum frá ráðamönnum, að ekki sé minnst á ráðherra og ríkisstjórnir. Annað sem mér finnst vera slæmt og mjög ámælisvert er þegar farið er með ósannindi um starfsmenn og starfsmannafélög. Það er staðreynd að þegar bankarnir voru einkavæddir eða gerðir að hlutafélögum og þessi ganga hafin þá voru þau ... (Viðskrh.: Þetta er misskilningur, hv. þm. Hv. þm. misskilur málið alveg í grundvallaratriðum.) Alveg í grundvallaratriðum. (Forseti hringir.) Við skulum bara fá upplýsingar um það hér á eftir. Og ég vil gjarnan líka fá upplýsingar um það sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir spurði hæstv. ráðherra um áðan. Hún beindi til hans ýmsum spurningum sem hefur ekki verið svarað. Mér þætti ágætt að fá upplýsingar um það frá hæstv. forseta hvort hæstv. iðnrh., bankamálaráðherra og viðskrh. sé á mælendaskrá til að gera grein fyrir og svara þeim spurningum sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir beindi til hans hér áðan og ég tek undir og nauðsynlegt er að fá svör við. Ég bíð eftir því að hæstv. forseti upplýsi okkur um þetta.

(Forseti (GÁ): Hæstv. viðskrh. er hér í sæti sínu. Hann er ekki skráður á mælendaskrá en hann getur komið inn á mælendaskrá hvenær sem er. Það er hans mál.)

Ég vek á þessu athygli vegna þess að ...

(Forseti (GÁ): Forseti setur engan inn á mælendaskrá.)

Nei, en hæstv. ráðherra var að taka þátt hér í umræðum úr sæti sínu og ég er að vekja athygli á því að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir beindi til hans ítarlegum spurningum áðan, sem hann á eftir að svara og gerir væntanlega ekki í stuttum andsvörum. Það er eðlilegt að hann komi fram með sínar skýringar og sín svör í ræðu þannig að hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur gefist kostur og tækifæri til að hlýða á þau svör og síðan bregðast við þeim áður en hún stígur í ræðustól til að flytja sitt mál.

Efni þessa frv. sem hér er til umræðu er að heimila ríkisstjórninni að selja allt hlutafé ríkissjóðs í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. Áður hafði ríkisstjórnin heimild til að selja 49% bankans. Þetta frv. fjallar því um að ríkið fái heimild til að selja þau 51% sem eru óseld. Ætlun ríkisstjórnarinnar er að selja allt hlutafé í bankanum á fyrri hluta næsta árs.

Vandinn er sá við sölu á þessum banka og reyndar ríkisbönkunum einnig að farið er í sama farið og gert hefur verið, sama einkavæðingarfarið, sama gjafafarið og gert hefur verið í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar allan þennan áratug varðandi sölu á opinberum eignum. Og ég tók eftir því þegar hæstv. ráðherra tjáði sig um þetta mál og vísaði í þær tillögur sem komu frá stjórnarandstöðunni á sínum tíma um að þeir sjóðir sem hér voru sameinaðir í einn banka yrðu látnir renna inn í viðskiptabankana til að styrkja þá og stokka upp bankakerfið, að þá hafði hann þau orð um það að menn hefðu viljað henda þessum eignum inn í bankana. Það er mjög undarlega til orða tekið.

Hins vegar vil ég minna hæstv. ráðherra á að á sínum tíma þegar thatcherisminn hóf innreið sína í Bretlandi hafði ágætur íhaldsmaður, MacMillan uppi þau orð um þessa sölu að þetta minnti sig a.m.k. á það þegar fjölskyldur seldu borðbúnaðinn, ættarsilfrið. Það gæti verið skammgóður vermir um tíma en menn skyldu sjá fyrir endann á því sem þeir væru að gera.

Ég lít svo á að fjármálastofnanir þjóni í meginatriðum tvennum tilgangi. Í fyrsta lagi eru þær þjónustustofnanir við almenning. Þær eru þjónustustofnanir við atvinnulífið og þær eru þjónustustofnanir við hinn almenna borgara. Í annan stað er í fjármálastofnunum sýslað með fjármuni þjóðarinnar. Þar eru veitt lán og þar er veitt alls kyns þjónusta sem að gagni kemur. Þannig eru þessar stofnanir valdatæki í samfélaginu og það skiptir máli hverjir hafa þar ráðin.

Í seinni tíð hafa menn reynt að sverta aðkomu fulltrúa lýðræðislega kjörinna aðila að þessum stofnunum. Mönnum þykir það eitthvað afspyrnuslæmt og vilja hafa faglegri vinnubrögð, svo er það oft kallað þegar stofnanirnar eru einkavæddar og nýir stjórnendur kallaðir til sögunnar. Vandinn er bara sá að eftir sem áður koma pólitískir aðilar þar að málum. En þeir eru yfirleitt úr einum og sama ranninum. Þeir koma frá Sjálfstfl. Það er yfirleitt hægrisinnað fólk úr fjármálaheiminum og Framsfl. eftir atvikum. Þetta er vandinn við þessa einkavæðingu, að aðkoma lýðræðislega kjörinna fulltrúa er útilokuð, henni er ýtt til hliðar, en það verður einsleitari söfnuður sem fer með völdin.

Varðandi þjónustuna við almenning þá er það staðreynd að ríkisbankarnir hafa veitt miklu meiri þjónustu á landsbyggðinni en tíðkast hefur í einkastofnunum. Það hafa þeir gert. Og ég velti því stundum fyrir mér þegar talað var um hugsanlega sölu á ríkisbönkunum eða öðrum ríkisbankanum til sænskra aðila, að þá var haft á orði að þeir hefðu yfir að ráða svo mikilli sérfræðiþekkingu, svo góðum sérfræðingum. Ég velti því fyrir mér í hverju þeirra sérfræði liggur, í hverju þeirra sérstaða liggur. Ég held að svarið sé það að þeir eru nægilega langt frá Þórshöfn og Vík og Höfn til að heyra ekki kvartanir almennings eða starfsmanna þegar þessar stofnanir eru lagðar af í anda einhverrar misskilinnar arðsemishugsunar.

[19:00]

Ég ætla ekki að hafa langt mál um þetta en tek undir þær vangaveltur sem komu fram hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni í ræðu hans áðan, þar sem hann rifjaði upp þrengingar bankakerfisins í Noregi fyrir fáeinum árum. Reyndar á hið sama við um fleiri lönd, t.d. Kanada. Það er svo þegar þrengir að fjármálastofnunum og þær riða til falls þá þurfa opinberir aðilar, fulltrúar almennings og fyrirtækjanna í landinu að koma að málum og reisa þessar stofnanir við. Og þá er eðlilegt að ábyrgðin sé gagnkvæm, að fulltrúar almennings hafi einnig einhverja aðkomu að stjórnun þessara stofnana. Á það vil ég leggja áherslu.

Framsfl. talar um það á hátíðastundum, ekki síst þegar hann heldur ráðstefnur sínar, landsfundi og landsráðstefnur, að hann sé miðjuflokkur. Það er reyndar staðreynd að í ýmsum efnum í gegnum árin og áratugina hefur Framsfl. beitt sér fyrir ýmsum félagslegum málefnum. Og innan hans vébanda og í hópi stuðningsmanna hans er margt félagslega þenkjandi fólk. En þessum öflum hefur mjög verið ýtt til hliðar í seinni tíð. Ég á sannast sagna mjög erfitt með að sjá muninn á frjálshyggju Sjálfstfl. og frjálshyggju Framsfl. á þessu kjörtímabili, ég á mjög erfitt með að sjá það. Framsfl. hefur haft forgöngu um einkavæðingu og markaðsvæðingu á kostnað félagslegra sjónarmiða, hann hefur gert það. Hann hefur látið Sjálfstfl. komast upp með að ganga mjög langt og hart fram í þessum efnum og sjálfur hefur Framsfl. og fulltrúar hans hér á þingi og í ríkisstjórn verið fylgjandi þessari sömu stefnu.

Ég vil því láta það verða mín lokaorð að óska þess að Framsfl. finni aftur leið inn á miðju stjórnmálanna. Það getur vel verið að það dugi að toga Framsfl. inn á miðju og hugsanlega til vinstri í öðru samstarfi en því sem hann er í núna. En þau skilaboð sem Framsfl. sendir í þessu frv. og ýmsum öðrum frv. til kjósenda eru mjög pólitísks eðlis. Hann er flokkur einkavæðingar og mismununar, hann takmarkar lýðræðið. Og ég held að kjósendur Framsfl. hljóti að verða mjög þenkjandi í væntanlegum kosningum. En ég vona að Framsfl. eigi eftir að braggast og það mun hann vonandi gera í öðru og betra samfélagi en hann er í nú. En því miður er því svo farið að Framsfl. er harður talsmaður einkavæðingar, markaðshyggju og mismununar í íslensku þjóðfélagi.