Fjárfestingarbanki atvinnulífsins

Fimmtudaginn 17. desember 1998, kl. 19:36:06 (2555)

1998-12-17 19:36:06# 123. lþ. 44.17 fundur 229. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# (sala hlutafjár) frv. 167/1998, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 123. lþ.

[19:36]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er tiltölulega einfalt að svara þeirri spurningu hv. þm. sem snýr að Fjárfestingarbanka atvinnulífsins. Ég er í öllum meginatriðum sammála þeirri söluaðferð sem hv. þm. telur að gæti komið til greina við þessa sölu.

Hins vegar vil ég líka benda á að ég tel að fleiri aðferðir geti komið til greina. En í fljótu bragði líst mér nokkuð vel á og það hugnast mér nokkuð vel að velja þá leið sem hv. þm. hér er að lýsa. Smækka hlutina, dreifa því hugsanlega til fleiri aðila þannig að fleiri geta komið að. Hins vegar ef áhuginn er mikill og þessi aðferð er notuð smækka hlutirnir sjálfkrafa vegna þess að það skerðist allt saman ofan frá.

Til að koma í veg fyrir að þessi dreifða sala safnist síðan á fárra manna hendur eða strax í þrengra eignarhaldi en salan gefur tilefni til er eitt af því það sem hv. þm. spyr um hvort hægt sé að banna þennan framvirka eftirmarkað. Ég tel að það sé mjög erfitt og ég held að reynslan af þessu sýni að menn muni kannski ekki reyna þetta aftur. Þetta mistókst svoleiðis gjörsamlega hjá þeim sem gengu lengst í þessu.

Hins vegar hef ég viljað og lýst því yfir að ég tel rétt að skoða ýmsa möguleika um það hvernig við getum tryggt til lengri tíma hið dreifða eignarhald. En það er eitt vandamál í því sem menn verða að gera sér grein fyrir strax í upphafi. Það er það að ef við förum að setja skorður á sölu hlutafjár í þessum fyrirtækjum hefur það ákveðin áhrif bæði á verðið og líka inn á Verðbréfaþingið vegna þess að þingið starfar eftir ákveðnum reglum. Ég vonast til að enginn sé að tala um það að taka þessi fyrirtæki út af Verðbréfaþinginu og verða með þau einhvers staðar sér. Styrkurinn er sá að vera með þessi fyrirtæki inni á Verðbréfaþinginu, vegna þess að ef við erum með fyrirtækin þar veitir Verðbréfaþingið svo mikið aðhald í rekstri þessara fyrirtækja. Við megum ekki stíga nein þau skref í þessu sem geri það að verkum að Verðbréfaþingið banni að fyrirtækin séu þar starfandi. Það er það fyrsta sem við verðum að hafa að leiðarljósi.

Þess vegna verða menn að kanna mjög gaumgæfilega hvaða leiðir eru færar í þessum efnum til að tryggja til langframa dreift eignarhald.