Fjárfestingarbanki atvinnulífsins

Fimmtudaginn 17. desember 1998, kl. 20:16:06 (2560)

1998-12-17 20:16:06# 123. lþ. 44.17 fundur 229. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# (sala hlutafjár) frv. 167/1998, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 123. lþ.

[20:16]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Heldur var þetta þunnur þrettándi hjá hæstv. ráðherra. Hann skautaði ansi léttilega yfir spurningar mínar. Ég verð að segja, herra forseti, að svörin um það af hverju svona mikið liggur á, en svarið er ,,af því að þetta er hluti af tekjum ríkissjóðs á næsta ári``, eru engin svör við því að ekki megi fresta málinu fram í janúar. Ekki nokkur svör og ekki þinginu bjóðandi. Við getum bundist sammælum um að afgreiða þetta sem fyrsta mál í kringum miðjan janúar, eða 20. janúar. Þá höfum við miklu betri mynd af málinu en við höfum tækifæri til núna.

Að bankaeftirlitið sé sjálfstæð stofnun? Gott og vel, en tilmæli frá ráðherra um það, af því að verið sé að afgreiða þetta mál út úr þinginu, sé ég ekki að hafi nokkurn skapaðan hlut að gera með það að þetta sé sjálfstæð stofnun. Ef sjálfstæðið er svona mikið að það verður að bíða eftir því að bankaeftirlitið skili sjálft af sér, herra forseti, finnst mér að við ættum að bíða með málið fram í janúar til þess að gefa bankaeftirlitinu færi á að svara.

Mér finnst að hluthafaskráin þurfi að liggja fyrir. Getur ráðherrann svarað því núna hvort það séu einhverjir aðilar, og þá hversu margir, sem eiga t.d. yfir 2%, yfir 3%, yfir 4% eða yfir 5%? Ég er ekki að biðja um nöfn. En ég verð t.d. að biðja um það að ráðherrann svari slíkri spurningu fyrir efh.- og viðskn. Allt það sem ráðherrann hefur sagt hér, um bankaeftirlitið, um hluthafaskrána, um hvað liggur á, rök hans fyrir því að ekki þurfi að setja á hámarksaðild eða eignarhaldstíma inn í frv., er léttvægt fundið í svörum ráðherrans. Allt það sem hann hefur sagt styður það að við eigum að fresta málinu, herra forseti.

Ég mun þurfa, og það skulu verða lokaorð mín nema ráðherra gefi tilefni til annars, að ræða þetta mál mjög ítarlega og kalla eftir þeim upplýsingum og þar með flýta fyrir 3. umr. ef ráðherrann beitir sér fyrir því að þær upplýsingar sem ég hef beðið um liggi fyrir við þá umræðu.