Fjárfestingarbanki atvinnulífsins

Fimmtudaginn 17. desember 1998, kl. 20:19:38 (2562)

1998-12-17 20:19:38# 123. lþ. 44.17 fundur 229. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# (sala hlutafjár) frv. 167/1998, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 123. lþ.

[20:19]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Það var ágætt að hæstv. ráðherra minnti á að stjórnlist ríkisstjórnarinnar við það að ná ríkissjóði hallalausum felst nefnilega að verulegu leyti í því að selja eignir ríkisins. (Gripið fram í.) Og selja þær á undirverði. Ég hef sagt að ráðherrann og ríkisstjórnin hefðu, ef öðruvísi hefði verið staðið að málum, hugsanlega fengið nokkur hundruð milljónum meira inn í ríkissjóð, ef rétt hefði verið að málum staðið. Það sýnir líka að það er lítil stjórnkænska hjá ríkisstjórninni að ætla sér að leysa vanda ríkissjóðs með því að selja eigurnar. Við erum að tala um heimild, herra forseti, og ég hygg að það hafi oft verið staðið þannig að málum að heimildir hafi verið afgreiddar þannig að menn nái samkomulagi um að afgreiða einhver mál í janúarmánuði sem snerta ríkissjóð. Svo lengi hef ég verið á þingi að ég held að það liggi fyrir að það hafi oft verið gert. Rök ráðherrans eru því engin í þessu máli. Ég tel það vera tímasóun að eyða dýrmætum dögum sem við höfum fyrir jólin í að ræða áfram þetta mál, herra forseti, og engu máli skipta varðandi það sem ríkið ætlar að nota þessa fjármuni til á næstu árum.