Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 18. desember 1998, kl. 11:51:06 (2571)

1998-12-18 11:51:06# 123. lþ. 45.3 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, 344. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (grásleppuveiðar) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 123. lþ.

[11:51]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Nú hefur hv. 5. þm. Suðurl., sá leiðtogi samfylkingarinnar sem mest trausts nýtur, talað í 20 mínútur. Hún fjallaði nokkuð og óljóst um framtíðarhugmyndir um stjórn fiskveiða og vissulega allt öðruvísi en hv. 4. þm. Vestf. Það vekur þó athygli að eftir þessa ræðu hefur leiðtogi samfylkingarinnar ekki minnst einu orði á hvernig bregðast eigi við dómi Hæstaréttar hér og nú um hið brýna úrlausnarefni, þ.e. veiðar krókabátanna.

Fyrir liggur að með dómi Hæstaréttar hefur takmörkun á fjölda þeirra sem eiga að fá veiðileyfi verið afnumin. Ef ekkert verður að gert streyma nýir bátar inn í þann flota. Hver og einn bátur sem bætist við dregur úr veiðirétti þeirra sem fyrir eru. Á endanum hefur enginn nóg til að lifa af. Ég veit að hv. þm. skilur þetta og ég veit að hv. þm. er fullljóst að takast þarf á við þennan vanda.

Við höfum ekki séð aðra leið til að verja atvinnuréttindi þessara manna en að einstaklingsbinda réttinn. Við teljum ekki mikið réttlæti í að setja þann rétt á uppboð og gera trillukörlum að fara í samkeppni við stórlaxana um þessar aflaheimildir. Þetta er það verkefni sem við stöndum frammi fyrir í dag. Við verðum að bregðast við óvissunni hér og nú. Það er ekki hægt að bíða til óljósrar framtíðar með það.

Ég spyr enn og aftur: Hvaða tillögur hefur samfylkingin fram að færa um ráðstafanir hér og nú sem viðbrögð við dómi Hæstaréttar vegna atvinnuhagsmuna trillukarlanna?