Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 18. desember 1998, kl. 12:42:00 (2578)

1998-12-18 12:42:00# 123. lþ. 45.3 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, 344. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (grásleppuveiðar) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 123. lþ.

[12:42]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Mér er að sjálfsögðu ljóst að ekki er á ferðinni tillaga að einhverri heildarendurskoðun á fiskveiðistjórnarlögunum. Vandinn er hins vegar sá að ekki er hægt að taka þetta neitt út úr því samhengi málsins sem það er í, þ.e. þeirrar óánægju og þeirra ágalla á löggjöfinni sem eru mönnum mestur þyrnir í augum. Og Hæstiréttur gerir það. Hæstiréttur fer á bólakaf í umfjöllun um sjálft fiskveiðistjórnarkerfið og grundvallar mál þess, þó að hann felli síðan dóm sinn um eitt tiltekið, afmarkað atriði, þ.e. felli þessa synjun ráðuneytisins úr gildi.

Ég vil nú helst, herra forseti, að mér sé sem minnst blandað inn í málflutning samfylkingarinnar (Sjútvrh.: Það var einmitt að skilja á þingmanninum... ) og biðst nú eiginlega undan því að verið sé lesa út úr orðum mínum eitthvert sérstakt samhengi eða ekki samhengi við hana. Það er best að hver tali fyrir sig held ég í þessum efnum, og sumir eru nú að gera það í nýjum stellingum eins og kunnugt er.

Hins vegar er rétt hjá sjútvrh. og ég ætla ekki að hlaupast frá því nema síður sé: Ég tel óhjákvæmilegt að horfa líka til þess réttar sem starfsfólk í sjávarútvegi, sjómenn, fiskverkafólk og íbúar sjávarútvegsbyggðarlaganna hljóta að hafa í þessu máli. Ég tók mér ekki í munn orðin ,,lögvarin atvinnuréttindi``, það gerði hæstv. sjútvrh. En ég segi: Þarna hlýtur líka að vera réttur og þarna eru a.m.k. hagsmunir sem verður líka að hafa í huga. Það hlýtur að vera þannig í því verkaskipta þjóðfélagi sem við höfum búið í og miðað við landfræðilega dreifingu atvinnugreinanna að við verðum einnig að horfa til þess þáttar, hvað sem líður mikilvægum grundvallarreglum í réttarkerfinu, jafnræðisreglum og öðru slíku.