Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 18. desember 1998, kl. 13:10:37 (2583)

1998-12-18 13:10:37# 123. lþ. 45.3 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, 344. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (grásleppuveiðar) frv., GGuðbj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 123. lþ.

[13:10]

Guðný Guðbjörnsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Spurt er hvort það sé óeðlileg hagsmunagæsla að breyta kerfi smábátamanna. Smábátasjómenn búa núna við mjög ófullnægjandi aðstæður. Margir þeirra hafa örfáa veiðidaga eða mjög lítinn kvóta og kerfið er algjörlega sprungið fyrir löngu. Með þessum ráðstöfunum á enn að þrengja að þeim til þess að koma í veg fyrir að þau nýju veiðileyfi sem hugsanlega verða gefin út þrengi ekki enn að þeim, það er rétt.

En ég segi: Þetta kerfi er löngu sprungið hvort sem er. Það er ófullnægjandi fyrir þessa veiðimenn. Við þurfum að stokka það allt upp. Hugsanlega verðum við að gefa veiðar frjálsari innan ákveðinna takmarka á grunnslóð. Þess vegna er óþarfi að ögra smábátamönnum núna með svona hótunum sem ekki eiga að ganga í gildi strax. Þau eiga ekki að taka gildi fyrr en eftir kosningar. Leyfum þeim og leyfum stjórnmálaflokkunum að móta almennilega stefnu sem er í sátt við smábátakarla sem aðra sjómenn.