Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 18. desember 1998, kl. 13:25:49 (2593)

1998-12-18 13:25:49# 123. lþ. 45.3 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, 344. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (grásleppuveiðar) frv., GGuðbj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 123. lþ.

[13:25]

Guðný Guðbjörnsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg óumdeilt held ég að sérhagsmunahóparnir eru þeir sem voru svo heppnir að fá úthlutað ókeypis kvóta í byrjun. Það voru stærstu mistökin sem við höfum gert í þessu kerfi og langumdeildasta aðgerðin. Hvernig var það skilgreint hverjir fengu kvótann í byrjun? Það var lögfest til eins, tveggja ára í senn og síðan er þetta orðið varanlegt ástand að því er virðist. Reyndar með þeim skýru fyrirmælum að löggjafinn geti breytt þessu hvenær sem er. (KHG: Hvernig átti ...?)

Sérhagsmunahóparnir núna eru ekki endilega allir þeir sem hafa kvóta því margir hafa þurft að kaupa hann mjög dýrum dómum af hinum sem fengu hann gefins. Óréttlætið felst í því að það sitja ekki allir við sama borð. Að mínu mati eiga allir að sitja þarna við sama borð og fá þá kvótann á sambærilegu gjaldi eða hvaða form sem yrði haft á því, hvort það yrði úthlutað fyrir ákveðið gjald og síðan leyft að selja áfram eða hvað. Þetta er bara útfærsluatriði sem ég er alveg sannfærð um að hægt er að ná þannig að það stangist ekki á við stjórnarskrá. Það er bara enginn vilji fyrir því af því að þessir sérhagsmunahópar, þeir sem fá þetta frítt, halda í það kerfi fram í rauðan dauðann, og hæstv. sjútvrh. og LÍÚ verja það.