Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 18. desember 1998, kl. 14:53:07 (2595)

1998-12-18 14:53:07# 123. lþ. 45.3 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, 344. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (grásleppuveiðar) frv., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 123. lþ.

[14:53]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Við ræðum hér um tvö frv. frá hæstv. ríkisstjórn, annað til breytinga á lögunum um stjórn fiskveiða og hitt til breytinga á lögunum um veiðar í íslenskri landhelgi.

Aðdragandi þess að frv. eru lögð fram er annar en við eigum að venjast hér. Það er ekki svo að ríkisstjórnin hafi fundið sig knúna til að leggja fram breytingar á lögunum um stjórn fiskveiða eða annað sem lýtur að fiskveiðum. Frv. er sett fram til þess að svara hæstaréttardómi. Það er viðbrögð framkvæmdarvaldsins gagnvart dómi Hæstaréttar í svokölluðu kvótamáli.

Þær deilur sem fram hafa farið um raunverulegt eðli þess dóms hafa komið nokkuð skýrt fram hér í dag. Dómurinn er skýr í augum flestra annarra en þeirra sem leitast hafa við að sniðganga hann með einhverjum hætti. Herra forseti, það er hlægilegt að bera á borð að fimm reyndir hæstaréttardómarar hafi allir í senn og saman misskilið lögin um stjórn fiskveiða og þau lykilhugtök sem þar eru á ferðinni, hugtökin veiðileyfi og veiðiheimildir. Ég held að það sé einna sérkennilegast við málflutninginn í umræðunni um þennan dóm.

Nei, herra forseti, í dóminum er talað um veiðiheimildir þannig að allir skilja sem vilja skilja. 7. gr. var hins vegar ekki úrlausnarefni réttarins og því er ekki tekið beint á henni. Í dóminum eru hins vegar ummæli um þau ákvæði sem lúta að úthlutun veiðiheimilda, ummæli sem hefðu verið óþörf ef eingöngu hefði átt að hrófla við 5. gr. Felstir viðurkenna að orðalagið gefi vísbendingu um hvers sé að vænta ef frekar verði látið á það reyna hvort lögin, svo breytt, standist jafnræðisákvæði stjórnarskrárinnar. Jafnframt segja menn að líklega hafi Hæstiréttur gengið eins langt og unnt var í að senda skilaboð til Alþingis.

Í umfjöllun um þennan dóm hefur verið bent á að hann væri í raun sömu ættar og dómar frá t.d. þýska stjórnlagadómstólnum og mannréttindadómstóli Evrópu, þar sem því er lýst yfir að tiltekið fyrirkomulag löggjafar standist ekki stjórnarskrá eða aðrar grunnreglur. Ragnar Aðalsteinsson bregst við dómi Hæstaréttar laugardaginn 5. des. í Morgunblaðinu. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður sagði að með dómi Hæstaréttar hefði verið stigið merkt skref í stjórnskipunarsögu Íslands og stórt skref í átt til þess sem kallað hefði verið stjórnarskrárríkið, sem mikið hefði verið til umræðu á undanförnum árum um heim allan meðal lögfræðinga, stjórnmálafræðinga, heimspekinga og fleiri.

,,Ég tel að dómurinn hafi aukið gildi stjórnarskrárinnar fyrir allan almenning í landinu. Þrískipting valdsins verður gleggri með þessum hætti og aukið jafnvægi milli valdaþáttanna og ég tel að þarna birtist áhrif þróunar sem hefur verið í alþjóðlegri og evrópskri umræðu á undanförnum árum og áratugum um mannréttindi, lýðræði og réttarríkið. Ég tel að Hæstiréttur sé á réttri leið,`` sagði Ragnar.``

Ragnar heldur áfram og segir að þessi þróun komi ekki á óvart og það hefði verið tímaspursmál hvenær svona dómur gengi í Hæstarétti. Og hann heldur áfram:

,,Þetta gerir auðvitað auknar kröfur til stjórnmálamanna, einkum þeirra sem sitja á Alþingi, um að virða þær takmarkanir sem löggjafarvaldinu eru settar með stjórnarskránni, eins og hún er túlkuð með framsæknum hætti.``

Löggjafanum, herra forseti, er samkvæmt þessari hugsun gefinn frestur til að bregðast við. Hann hefur frelsi um hvaða leið skuli fara en markmiðin um jafnræði og atvinnufrelsi verða að nást auk ákvæðanna um hagkvæmni og sameign þjóðarinnar á fiskimiðunum.

Mín skoðun og okkar jafnaðarmanna hefur verið sú, eins og margoft hefur komið fram síðan þessi dómur féll, að endurskoða eigi alla löggjöfina um stjórn fiskveiða í ljósi dóms Hæstaréttar. Ríkisstjórnin ákvað hins vegar að túlka dóminn þröngt og líta fram hjá þeim skilaboðum sem í orðalagi dómsins felast. Frv. sem við fjöllum nú um fela í meginatriðum í sér þá breytingu að rýmka skilyrði fyrir því að menn geti fengið veiðileyfi.

Hv. þm. Árni Ragnar Árnason talaði hér áðan og gat sér þess til að nú mundi skipum með veiðleyfi fjölga við þessa breytingu. Það hlýtur að vera mikið álitaefni hvort svo verður. Það er vissulega mikil áhætta ef menn þurfa að taka lán til þess að fjárfesta þannig. Auðvitað er spurning hver muni lána fyrir skipakaupum þar sem óöryggi rekstursins er svo mikið sem raun ber vitni, miðað við það frv. sem hér liggur frammi. Hins vegar þekkjum við það úr íslenskum sjávarútvegi að menn grípa gjarnan gæsina þá hún gefst og hafa reynslu fyrir því að slíkt geti komið sér vel. Menn búa sér einfaldlega til réttindi með því að vera djarfir til ákvarðana og fjárfestinga á ákveðnum tímum. Auðvitað getur það gerst að skipum fjölgi mikið. Ég er ekki viss um að svo verði en finnst verðugt að íhuga hvort svo muni verða.

[15:00]

Það er alveg ljóst að þeir sem munu kaupa sér skip munu þurfa að kaupa eða leigja veiðiheimildir af þeim sem þegar eru á fleti fyrir til þess að komast í auðlindina til þess að geta veitt. Þeir þurfa sem sagt að greiða þeim veiðileyfagjald, ,,sem leiða rétt sinn til veiðiheimilda til eignarhalds á skipum á tilteknum tíma``, eins og það er orðað í dómi Hæstaréttar. Og ójafnræðið verður áfram fyrir hendi, herra forseti, því ekki verður séð að með þessum frumvörpum sé því mætt sem segir í dómi Hæstaréttar, en þar segir, með leyfi forseta:

,,Eins og áður getur taldi löggjafinn brýnt að grípa til sérstakra úrræða á árinu 1983 vegna þverrandi fiskstofna við Ísland. Var skipting hámarksafla þá felld í þann farveg, sem hún hefur síðan verið í, að úthlutun veiðiheimilda yrði bundin við skip. Er óhjákvæmilegt að líta svo á að þessi tilhögun feli í sér mismunun milli þeirra, sem leiða rétt sinn til veiðiheimilda til eignarhalds á skipum á tilteknum tíma, og hinna, sem hafa ekki átt og eiga þess ekki kost að komast í slíka aðstöðu. Þótt tímabundnar aðgerðir af þessu tagi til varnar hruni fiskstofna kunni að hafa verið réttlætanlegar, en um það er ekki dæmt í málinu, verður ekki séð að rökbundin nauðsyn hnígi til þess að lögbinda um ókomna tíð þá mismunun sem leiðir af reglu 5. gr. laga nr. 38/1990, um úthlutun veiðiheimilda. Stefndi hefur ekki sýnt fram á að aðrar leiðir séu ekki færar til að ná því lögmæta markmiði að vernda fiskstofna við Ísland. Með þessu lagaákvæði er lögð fyrirfarandi tálmun við því að drjúgur hluti landsmanna geti að öðrum skilyrðum uppfylltum, notið sama atvinnuréttar í sjávarútvegi eða sambærilegrar hlutdeildar í þeirri sameign, sem nytjastofnar á Íslandsmiðum eru, og þeir tiltölulega fáu einstaklingar eða lögaðilar, sem höfðu yfir að ráða skipum við veiðar í upphafi umræddra takmarkana á fiskveiðum.``

Herra forseti. Ég held að nauðsynlegt sé að við stöldrum við það orðalag sem hér er í dómi Hæstaréttar ,,notið sama atvinnuréttar í sjávarútvegi eða sambærilegrar hlutdeildar í þeirri sameign, sem nytjastofnar á Íslandsmiðum eru``. Ég held að þetta hljóti að verða eitt af því sem hv. sjútvn. skoðar þegar hún fer að fjalla um þessi frumvörp, einfaldlega vegna þess að þó að hún fjalli fyrst og fremst um það frv. sem fyrir liggur þá heyrðist mér á formanni nefndarinnar áðan að hann teldi fulla þörf á því að farið yrði yfir alla löggjöfina og viðraði hann ýmis sjónarmið sín eða e.t.v. ríkisstjórnarinnar í því sambandi og var þar margt athyglisvert sem við hljótum að þurfa að skoða.

Það er ekki bara svo, herra forseti, að mér og ýmsum lagsbræðrum mínum og félögum þyki að hægt sé að túlka dóm Hæstaréttar með tilteknum hætti, það eru ekki bara jafnaðarmenn sem hafa séð annað út úr þessum dómi en hv. hæstv. ríkisstjórn vegna þess að Davíð Þór Björgvinsson, lagaprófessor við Háskóla Íslands, sem mikið hefur verið vitnað í úr þessum stóli á undanförnum dögum, reyndar í tengslum við annað mál þá og af nokkurri velþóknun af hálfu ríkisstjórnarinnar af því að mat hans féll þá að skoðun hennar en Davíð Þór Björgvinsson segir í viðtali við dagblaðið Dag 5. des. sl., með leyfi forseta:

,,Davíð segir ekki liggja alveg í augum uppi hvaða ályktanir eigi að draga af dómnum en þó sé ljóst að hann kalli á ,,að löggjafinn endurskoði lögin að verulegu leyti, ekki aðeins reglur um úthlutun veiðileyfanna sem slíkra, heldur einnig forsendur fyrir úthlutun veiðiheimildanna, þ.e. kvótans. Reglur um veitingu veiðileyfa eru taldar fara gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og atvinnufrelsisákvæði hennar. Að svo miklu leyti sem forsendur fyrir úthlutun kvótans eru þær sömu eða sambærilegar og veiðileyfa verður að skoða þær forsendur einnig. Löggjafinn verður því að endurskoða að verulegu leyti grundvöll þessa kerfis og tryggja það að jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og atvinnufrelsis\-ákvæðinu sé betur fullnægt bæði að því er varðar úthlutun veiðileyfa og veiðiheimilda.````

Hér segir áfram, með leyfi hæstv. forseta:

,,Það er rétt að í málinu var eingöngu deilt um veitingu veiðileyfisins sem slíks. Það virðist þó vera rökrétt ályktun af forsendum dómsins að gera ráð fyrir því að þau sjónarmið sem Hæstiréttur leggur til grundvallar eigi ekki bara við um útgáfu á veiðileyfi heldur eigi sambærileg sjónarmið við um úthlutun á aflaheimildunum sjálfum. Þau gætu komið til sjálfstæðrar skoðunar ef sá sem hefur fengið veiðileyfi óskar í framhaldi af því eftir heimildum til að veiða tegundir sem bundnar eru við kvóta. Úthlutun aflaheimilda er reist á því að skip hafi áður fengið veiðileyfi og ef það er ekki hægt að mismuna mönnum við útgáfu veiðileyfisins á þeim forsendum sem gert var er nærtæk sú ályktun að sambærileg sjónarmið eigi við um úthlutun veiðiheimilda.``

Ég er sammála þessu mati eins og fram hefur komið, herra forseti, og svo er um marga fleiri. Mér finnst furðulegt þegar hæstv. sjútvrh. kemur hér --- og það er reyndar ekki bara úr þessum stóli sem hann eða aðrir fulltrúar ráðandi afla senda þá skoðun sína út --- mér finnst það furðulegt að menn skuli draga þá ályktun að þeir sem hugsa á þennan veg séu að sækjast eftir, beinlínis að leggja til alvarlega kreppu eða alvarlega byggðaröskun. Að þeir menn sem leyfa sér að túlka dóm Hæstaréttar með þessum hætti, lesa hann með þeim hætti sem ég hef hér vitnað til, séu beinlínis andsnúnir þeim grundvallarhagsmunum sem ég hélt að við bærum flest fyrir brjósti. Mér finnst satt að segja ómerkilegur útúrsnúningur og ekki sæmandi fyrir hæstv. ráðherra í umræðu, sem ætti miklu frekar að endurspegla alvöru þess máls sem við fjöllum um.

En ég er á þeirri skoðun, herra forseti, að Alþingi eigi að endurskoða lögin um stjórn fiskveiða í ljósi stjórnarskrárinnar og gera það heildstætt en ekki að hrekjast undan dómum með löggjöfina því að það er nokkuð ljóst að enginn friður verður um þá breytingu sem hér er lagt til að verði gerð og þar með verður starfsumhverfi sjávarútvegsins afar ótryggt og ótryggara en jafnan áður, a.m.k. á næstu missirum sem er bagalegt fyrir þær þúsundir manna sem starfa í greininni og eiga allt sitt undir ákvörðunum dómstóla og síðan Alþingis í þessum efnum. Það er bagalegt fyrir þjóðfélagið allt því að sjávarútvegurinn er helsta undirstaða efnahagslífsins í landinu og þess vegna mikilvægt að menn bregðist við af fullri ábyrgð. Mér finnast þau viðbrögð sem ég lýsti áðan, viðbrögð framkvæmdarvaldsins ekki einkennast af slíkri ábyrgð, þar sem öllum má vera ljóst að það mun ganga á með dómsmálum á næstu mánuðum og missirum og að starfsumhverfið verður ótryggt þannig að menn munu hika við að taka ákvarðanir og framvinda mála og þróun munu líða fyrir það. Versta tillagan, herra forseti, er þó sú að tala um breytingar á sjálfri stjórnarskránni. Ég er þó viss um það, herra forseti, að markviss viðbrögð Alþingis, sem tæki forustu gagnvart því eðlilega hlutverki sínu að fara yfir löggjöfina í ljósi dóms Hæstaréttar og breyta henni í samræmi við þann dóm, mundu mjög stytta þann óvissutíma sem menn eru hér að tala um.

Ég ætla ekki, herra forseti, að fara í einstakar greinar frv., ég mun hafa tækifæri til að gera það í hv. nefnd. En hv. þm. Árni Ragnar Árnason spurði áðan: Af hverju er talað í salnum í dag mest um suma? Það er af því þeir hafa hæst. Þetta er ekki rétt, herra forseti. Ef menn eru að fjalla um þessi frumvörp hljóta menn að tala um þá sem frumvörpin taka beint til og það er einmitt sá hópur hefur haft lifibrauð sitt af smábátaveiðum. Ég ætla að segja það, herra forseti, þó ég ætli ekki að fjalla um einstakar greinar frv., að því verður ekki trúað að meiri hlutinn á Alþingi muni keyra smábátagreinarnar í gegn án breytinga. Eða hvað réttlætir þá mismunun gagnvart smábátasjómönnum sem er að finna í þeim tillögum sem liggja fyrir frá ríkisstjórninni? Hvað réttlætir það að mati hæstv. ráðherra að dagabátarnir skuli allir settir undir einn hatt, fái allir jafna úthlutun án tillits til reynslu og án tillits til þess hvort um er að ræða alvörumenn í greininni, þ.e. atvinnumenn eða þá sem vilja eiga trillu og komast á færi á vorin sér til andlegrar eða líkamlegrar upplyftingar?

Ef það er talið réttlætanlegt, herra forseti, að þorskaflahámarksbátarnir fái hlutdeild í ýsu, ufsa og steinbíti í hlutfalli við veiðar undangenginna ára af hverju er þá dagabátunum úthlutað jafnt án tillits til aðstæðna og þar með reynslu? Sú skýring ráðuneytisins sem fram kemur í frv., sú skýring að þeir veiði úr kerfi sem ráðuneytið kallar félagslegt nægir ekki til að litið sé fram hjá mismunandi hagsmunum þeirra sem eru í dagakerfinu. Ég endurtek það, herra forseti, að ég trúi því ekki að á þessu verði ekki tekið a.m.k. og að til þess verði ekki vilji hjá meiri hlutanum á Alþingi. Þá er ég ekki að leggja mat á, herra forseti, það sem ráðherrann kallar einstaklingsbundinn veiðirétt. Það er ekki hann sem ég er að hnýta í heldur það hvernig menn ætla að koma þessum málum fyrir.

Svo finnst mér líka ástæða til þess að nefna 7. gr., herra forseti. Það hafa fleiri gert en það verður að segjast eins og er að hún virkar hálfmunaðarlaus í lögunum um stjórn fiskveiða þessa dagana. Ekki bara það, eins og hér hefur verið nefnt, að einhverjir kunni að vilja gera að henni atlögu á næstu mánuðum, heldur kannski miklu frekar vegna hins að það hlýtur að vera spurning hvernig eigi að túlka hana, hver skírskotun hennar er eins og hún stendur í dag, eftir að búið verður að hreinsa út 6. gr. og 5. gr.

Herra forseti. Tími minn er að verða búinn, en ég ætla aðeins að koma að því sem hér hefur fjallað um aflaheimildir án endurgjalds, svokallaðan gjafakvóta. Ríkisstjórnin ver enn þá hagsmuni þeirra sem fengu aflaheimildir án endurgjalds og þetta er kallaður gjafakvóti, herra forseti, vegna þess að það er alveg ljóst að þegar réttur er búinn til, einkaréttur einhverra, skapar það verðmæti í sjálfu sér. Það gerir það. Það er þekkt. Þó að hv. þm. Árni R. Árnason teldi sig áðan vera að hrekja þessi sannindi var hann í rauninni að undirstrika þau vegna þess að hann sagði okkur það að um leið og ákveðin takmörkun var gerð, sóknardagar voru það þá, þá rauk upp verðið á þeim skipum sem höfðu veiðileyfi. Einkaréttur öðlast alltaf sjálfstætt verðmæti og þessi réttur öðlaðist sérstakt verðmæti þegar hægt var að skilja hann frá skipinu.