Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 18. desember 1998, kl. 15:18:37 (2599)

1998-12-18 15:18:37# 123. lþ. 45.3 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, 344. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (grásleppuveiðar) frv., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 123. lþ.

[15:18]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er erfitt að eiga orðastað við hæstv. sjútvrh. þegar málflutningur hans felst aðallega í því að snúa út úr. Það er svo erfitt að svara slíku vegna þess að ósanngirnin --- mér liggur við að segja fíflagangurinn --- er svo yfirgengilegur. Við erum að ræða frumvörp sem hæstv. ráðherra lagði fram. Þess vegna hljótum við að vera að ræða fyrst og fremst hugmyndir ráðherrans.

Þingmenn jafnaðarmanna og þingflokkur jafnaðarmanna hefur á Alþingi lagt fram fjölda mála þar sem stefna okkar hefur komið fram og við höfum talað fyrir henni hér, bæði sótt og varið. Þær tillögur liggja allar fyrir. (Gripið fram í: Ekki um stjórn fiskveiða.) En spurningin er sú hvort þessi umræða var nákvæmlega til þess að ræða þær tillögur. Ef svo var hef ég misskilið dagskrá þessa fundar. Af því að einhver kallaði fram í: ,,ekki stjórn fiskveiða``, er það nú samt svo að ég geri ráð fyrir að jafnaðarmenn hafi a.m.k. lagt fram fjórar tillögur til breytinga á lögunum um stjórn fiskveiða bara á síðasta þingi og það væri lítill vandi að finna þær ef menn hafa áhuga á því.

Hins vegar er það þannig, herra forseti, að þegar verið er að ræða tiltekið dagskrármál er heldur erfitt ef klögur ganga frá hæstv. ráðherra yfir því að menn skuli ekki einlægt vera að tala um eitthvað allt annað. Ef það var viljinn hefðum við þurft að fara öðruvísi í umræðuna frá upphafi en gert var. Hér hafa menn reynt að taka á dagskrármálinu af ákveðinni alvöru en það var greinilega aldrei vilji hæstv. ráðherra og e.t.v. ekki annarra þeirra sem standa með honum í þeim málatilbúnaði sem hér er lagður fram.