Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 18. desember 1998, kl. 15:54:25 (2602)

1998-12-18 15:54:25# 123. lþ. 45.3 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, 344. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (grásleppuveiðar) frv., GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 123. lþ.

[15:54]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Dómur Hæstaréttar í kvótamálinu svokallaða hefur valdið miklum titringi að undanförnu og þá ekki síst vegna þess að menn hafa lesið niðurstöður þessa dóms með mjög misjöfnum hætti. Það hefur satt að segja verið mjög fróðlegt og íhugunarefni fyrir okkur sem ekki erum löglærð að fylgjast með hvernig færustu lögmenn þjóðarinnar hafa túlkað þennan dóm mjög misjafnlega. Það hefur satt að segja verið himinn og haf milli þess hvernig einstakir lögmenn hafa túlkað niðurstöður dómsins. Það er íhugunarefni að dómur Hæstaréttar í svo mikilsverðu máli, og reyndar hvaða máli sem er, skuli ekki vera settur fram á þann hátt, þ.e. dómurinn og greinargerðin með honum, að lögmenn geti lesið rétt út úr honum hvað hann þýðir en á því virðist vera mikill misbrestur, því miður.

Ríkisstjórnin fól nokkrum valinkunnum lögmönnum að gefa álit sitt á þessum dómi og þau frumvörp sem hér eru til umræðu byggjast á túlkun þessara lögmanna á dómnum. Ég er sammála ríkisstjórninni og hæstv. sjútvrh. í því að bregðast við með þessum hætti, en vil að vísu sjá nokkrar breytingar á frv. sem ég mun gera nánari grein fyrir í máli mínu.

Ég vil fyrst segja það að auðvitað þarf að stjórna veiðunum og allir sammála um það, held ég. Ótakmarkaðar veiðar úr fiskstofnunum ganga ekki og kvótakerfið hefur að sumu leyti reynst ágætlega, og fiskstofnarnir við landið hafa verið að styrkjast á undanförnum árum. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að kvótakerfinu sé nú kannski þakkað fullmikið í þeim efnum. Margir tala á þeim nótum að það sé allt þessari stjórn fiskveiðanna að þakka, en ég held að oft gleymist í þeirri umræðu að ástandið í hafinu, lífríki hafsins, skiptir auðvitað mjög miklu máli og við sem höfum fylgst með fiskveiðum í áratugi vitum það og munum að fyrir daga kvótakerfisins voru aflabrögð mjög misjöfn milli ára. Ég tek sem dæmi að aflahæstu bátar á vetrarvertíð við Faxaflóa voru kannski með 1.100--1.200 tonn tvær, þrjár vertíðir í röð. Síðan kom allt í einu ár þar sem hæstu bátar voru með 700 tonn þrátt fyrir sömu sókn og sömu veiðarfæri. Þá hafði eitthvað gerst í lífríki hafsins sem olli því að fiskigöngur voru með öðrum hætti en áður. Þetta finnst mér oft gleymast í umræðunni og menn þakki kvótakerfinu allt sem vel hefur tekist varðandi styrkingu fiskstofnanna.

Ég tel að á þessu kerfi, sem er að mörgu leyti ágætt, séu nokkrir stórir vankantar, t.d. sá að það er viðurkennt af flestum að miklu er hent af fiski. Og kannski eru krókabátarnir á dagatakmörkunum eini flotinn sem ekki hefur ávinning af því að henda fiski og kemur með allt að landi. En höfuðókost þessa fiskveiðistjórnarkerfis tel ég vera þetta takmarkalausa frjálsa framsal aflaheimilda. Þetta var ekki í lögunum þegar þau voru sett upphaflega, kom inn í lögin í kringum 1990 og var þá fyrst og fremst hugsað til hagræðingar. Þingmenn sem hér sátu á þeim árum hafa sagt mér að það hafi ekkert verið í umræðunni að aflaheimildirnar yrðu verslunarvara. Fyrst og fremst var þetta hugsað til þess að hagræða, þ.e. að skipta á fisktegundum, færa á milli báta í sömu útgerð og annað slíkt, en ekki til þess að kvótinn yrði verslunarvara. Ég held að það verði aldrei þjóðarsátt um kvótakerfið meðan þetta óhefta frjálsa framsal er eins og það er í dag. Þetta framsal hefur m.a. leitt til þriggja allsherjarverkfalla sjómanna sem öllum eru í fersku minni og ég held að taka verði á framsalsmálunum og breyta þeim til betri vegar. Flestir útgerðarmenn vinna reyndar eðlilega í þessu kerfi og eru ekkert að braska með kvótann en það eru dæmi sem angra fólk og gera það að verkum að menn sætta sig ekki við kerfið. Það er t.d. þegar útgerðarmaður fellur frá og erfingjarnir hafa ekki áhuga á útgerð en vilja fá peninginn sinn fyrir kvótann, þá er skipið og kvótinn selt og erfingjarnir skipta ágóðanum á milli sín, og eftir situr kannski byggðarlag sem hefur misst stóran hluta af aflaheimildum sínum. Sama gerist þegar hjón skilja og selja verður útgerðina og kvótann til að gera upp bú þeirra, og ekki síst þegar útgerðarmenn hætta og selja kvóta sinn fyrir tugi og jafnvel hundruð milljóna. Þetta eru stóru vankantarnir á kerfinu að mínu áliti sem skapa andúð almennings á fiskveiðistjórnarkerfinu og miklu meiri andúð en hvort einhverjir trillukarlar veiða nokkrum tonnum meira en þeim hefur verið ætlað.

Við, hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson og sá sem hér stendur, lögðum fram frv. á Alþingi, bæði á síðasta þingi og því næstsíðasta um breytingu á fiskveiðistjórnarlögunum í þá veru að verslun með aflaheimildir verði ekki leyfð og að framsalið verði eingöngu til hagræðingar, þ.e. jöfn skipti á tegundum og þess háttar. Það frv. var því miður ekki afgreitt frá sjútvn. Alþingis. Nefndin sendi það hins vegar til fjölmargra aðila til umsagnar og fékk nánast undantekningarlaust mjög jákvæðar umsagnir, m.a. frá samtökum sjómanna. Ég held ég muni það rétt að allar umsagnir um þetta frv. voru jákvæðar nema frá Landssambandi ísl. útvegsmanna, sem telur hag sinna félagsmanna best borgið með því kerfi sem ríkir í dag, þ.e. framsalinu sem skapar þessa miklu óánægju almennings með kerfið.

[16:00]

Þetta frv. fékk sem sagt ekki brautargengi á Alþingi en á síðasta vori var skipuð hér svokölluð auðlindanefnd sem er m.a. að fjalla um hvernig eigi að haga stjórn fiskveiðanna. Ég hef bundið miklar vonir við að sú nefnd komi með skynsamlegar tillögur í þessum málum. Það er alveg rétt sem hæstv. sjútvrh. sagði í ræðu sinni í morgun að mikill ágreiningur hefur verið um sjávarútvegsmálin á undanförnum árum og ég tel að það sé mjög mikilvægt að ná þjóðarsátt um stjórn fiskveiðanna. Það er ekki hægt að standa í endalausu stríði um þennan höfuðatvinnuveg okkar.

En frv. sem hér er til umræðu lýtur ekki að heildarendurskoðun á stjórn fiskveiðanna. Það er lagt fram til að eyða þeirri ósvissu sem hefur skapast í framhaldi af dómi Hæstaréttar og gengur út á það að setja allan fisk í kvóta sem er, því miður vil ég segja, óhjákvæmilegt. Það er ekki hægt að hleypa öllum takmarkalaust í veiðarnar. Það mundi enda með skelfingu og þess vegna verður að loka öllum opnum pottum sem verið hafa í kerfinu. Ég verð að segja fyrir mig að ég sé mjög mikið eftir þessu dagakerfi krókabátanna. Ég hef alltaf verið mikill talsmaður þessara krókaleyfa. Þau eru í raun síðasti vottur frjálsra fiskveiða hér við landið og afleitt að þurfa að afleggja krókakerfið. En hjá því verður sennilega því miður ekki komist í framhaldi af þessum dómi.

Formenn Alþfl. og Alþb. gagnrýndu mjög viðbrögð hæstv. sjútvrh. við dómi Hæstaréttar í ræðum sínum fyrr í dag. Því miður fannst mér vanta í mál þeirra hvaða tillögur þau hefðu fram að færa og hvernig þau hefðu viljað bregðast við dóminum í þeirri stöðu sem er í dag. Það er ekki nóg bara að gagnrýna, menn verða líka að segja hvað þeir hefðu gert nákvæmlega í þessari stöðu.

Ég tel sem sagt að það þurfi að gera nokkrar breytingar á frv. í meðferð sjútvn. milli 1. og 2. umr. og ætla að nefna hér lítillega það helsta sem ég tel að þurfi að breyta.

Það er í fyrsta lagi að frv. gerir ráð fyrir að á yfirstandandi fiskveiðiári megi þorskafli hvers báts í sóknardagakerfi vera að hámarki 30 lestir miðað við óslægðan fisk og að sóknardagar megi vera 26 hjá þeim bátum sem nota línu og handfæri en 32 hjá þeim bátum sem nota handfæri eingöngu.

Mér finnst óþarfi að vera með þessar dagatakmarkanir fyrst hámark er á aflanum og það er sjálfsagt að leyfa mönnum að sækja þennan afla á sem hagkvæmastan hátt hvenær sem er á fiskveiðiárinu. Ég sé ekki að bein ástæða sé til að setja einhverjar dagatakmarkanir þegar komið er þak á hvað má veiða.

Í öðru lagi segir í ákvæði til bráðabirgða I, með leyfi forseta:

,,Heimilt er að flytja veiðileyfi frá krókabáti sem leyfi hefur til að veiða samkvæmt þessu ákvæði til annars jafnstórs krókabáts miðað við rúmtölu. Óheimilt er að flytja veiðileyfi til krókabáts sem er stærri en sá krókabátur sem veiðileyfi lætur nema jafnframt sé flutt veiðileyfi af öðrum krókabáti sem er þrefalt stærri að rúmtölu en sem stækkuninni nemur. Slíkur bátur má þó ekki verða stærri en 6 brúttótonn. Óheimilt er að flytja veiðileyfi frá báti sem stundar veiðar með þorskaflahámarki til báts sem stundar veiðar með tilteknum fjölda sóknardaga.

Óheimilt er að stækka krókabát nema flutt sé veiðileyfi af öðrum báti sem er þrefalt stærri að rúmtölu en sem stækkuninni nemur.``

Mér finnst þetta ákvæði óþarft þegar hámark er á því sem hver bátur má veiða. Ég fæ ekki séð að það skipti máli hvort menn sækja þennan afla á tveggja, þriggja, fjögurra eða fimm tonna bátum, og mér finnst það bara einkamál hvers og eins sem hefur heimild til þessara veiða og stjórnvöldum óviðkomandi.

Í þriðja lagi segir í þessu sama bráðabirgðaákvæði I, með leyfi forseta:

,,... getur ráðherra ákveðið að afli teljist ekki til þorskaflahámarks og veiðidagar ekki til sóknardaga í tilteknum fjölda opinberra sjóstangaveiðimóta á fiskveiðiárinu 1998/1999.``

Ég tel að þetta eigi ekki bara að gilda um yfirstandandi fiskveiðiár heldur vera ótímasett. Afli á sjóstangaveiðum mun aldrei ógna fiskstofnum okkar og þess vegna finnst mér sjálfsagt að breyta þessu og miða ekki bara við yfirstandandi fiskveiðiár.

Í fjórða lagi er gert ráð fyrir að heildarþorskaflaviðmiðun báta sem stunda veiðar með dagatakmörkunum verði samkvæmt þessu frv. 1,11%, sem þýðir að á næsta fiskveiðiári fá þessir bátar að veiða 9 tonn af þorski hver bátur.

Mér finnst þetta útilokað. Þetta þýðir náttúrlega ekkert annað en hrun þessa útgerðarflokks og gjaldþrot fjölmargra einstaklinga sem hafa fjárfest í dýrum bátum til þessara veiða og skuldsett sig vegna þess. Þessi þorskaflaviðmiðun, 1,11%, er reynsla samkvæmt gildandi lögum, sem þýðir að þessir bátar ættu að veiða 2.770 tonn á yfirstandandi fiskveiðiári. En þessir bátar hafa einfaldlega veitt miklu meira á undanförnum árum, t.d. á síðasta fiskveiðiári þegar þeir veiddu 12.524 tonn eða 38 tonn að meðaltali á bát. Ég held að hjá því verði ekki komist að miða við þennan afla þegar úthlutað verður fyrir næsta fiskveiðiár, eða eitthvað í þá veru. Þessum heimildum mætti svo kannski skipta að einhverju leyti miðað við aflareynslu hvers báts. Með því er ekki verið að taka neitt frá öðrum útgerðarflokkum og allir halda sínu. Ég legg hins vegar áherslu á að þessi kvóti verður að vera óframseljanlegur.

Best fyndist mér ef hægt væri að ná samkomulagi við Landssamband smábátaeigenda á þessum nótum. Níu tonna úthlutun á bát er fráleit. Það má þá alveg eins hafa pottinn opinn og leyfa öllum að sækja í þessi 3.000 tonn sem dagabátunum væri ætlað og loka pottinum þegar sá afli hefði náðst. Ég held að við verðum að taka tillit til þessarar útgerðar og þess að dómur Hæstaréttar bitnar nánast eingöngu á þessum útgerðarflokki.

Í fimmta lagi vil ég vekja athygli á því að í bráðabirgðaákvæði III er fjallað um skiptingu á 5.000 lesta aflaheimildum af þorski til jöfnunar. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Skal úthlutun til hvers skips vera meðaltal þess sem kom í hlut þess skips, eða skips sem í þess stað kom, á fiskveiðiárunum 1997/1998 og 1998/1999.``

Þegar þessi 5.000 tonna jöfnunarpottur varð til í upphafi kjörtímabils þá var hann fyrst og fremst hugsaður til að bæta stöðu litlu aflamarksbátanna. Þeir höfðu farið verst allra út úr kvótaskerðingu undanfarinna ára en, því miður vil ég segja, var þetta látið ná til allra aflamarksskipa nema fullvinnsluskipa, sem var hreinn óþarfi. Margir þessara litlu báta nýttu þennan kvóta sinn og allan sinn kvóta að verulegum hluta til línuveiða, en þegar línutvöföldunin var afnumin urðu þeir fyrir talsverðum missi, fengu reyndar 60% tvöldunaraukningarinnar bætt en ekki það sem upp á vantaði.

Landssamband smábátaeigenda hefur ítrekað samþykkt að þegar hætt verður að úthluta úr þessum 5.000 tonna potti þá verði honum skipt á aflamarksbáta undir 100 rúmlestum, og mér finnst full ástæða til að skoða þann möguleika. En hér er einungis gert ráð fyrir að framlengja um eitt ár þessari jöfnunarúthlutun.

Hér er einnig á ferðinni frv. varðandi grásleppuveiðarnar sem ekki eru kvótasettar. Í samræmi við dóm Hæstaréttar er fellt úr gildi það ákvæði 7. gr. að þeir bátar einir eigi kost á leyfi til grásleppuveiða sem áttu rétt til leyfis á grásleppuveiðar til 1997. Ég hef orðið var við nokkrar áhyggjur grásleppuveiðimanna út af þessu sem ég held að vísu að séu óþarfar. Það er dýrt að hefja grásleppuútgerð og veiðin er það gloppótt frá ári til árs að ég hef ekki trú á að það verði margir sem hefja þessar veiðar til viðbótar við þá sem fyrir eru.

Hæstv. sjútvrh. nefndi í framsöguræðu sinni að til greina kæmi að úthluta grásleppuveiðileyfum miðað við veiðireynslu. Ég held að það geti orðið mjög vandmeðfarið vegna þess hvað veiðin er misjöfn eftir svæðum frá ári til árs og þurfi að íhuga það mjög gaumgæfilega.

Ég hef orðið var við nokkrar áhyggjur eigenda báta undir 6 tonnum sem eru á aflamarki. Þetta eru um 255 bátar, ef ég man rétt, með aflaheimildir frá einu kílói og upp í 365 þorskígildistonn, og að meðaltali eru heimildir þeirra upp á 31 tonn af þorski og 38 þorskígildistonn. En nú verða þessir bátar settir á bekk með krókaleyfisbátum og þar með minnkar verðmæti aflaheimilda þeirra verulega, aflaheimilda sem að hluta eru keyptar dýrum dómum og að hluta eru veð fyrir lánum þessara útgerðarmanna. Þetta held ég að sjútvn. þurfi að skoða vel þegar hún fær frv. til meðferðar.

Herra forseti. Ég hef nefnt nokkur atriði sem ég tel að þurfi að lagfæra og vona að þessi atriði verði skoðuð þegar sjútvn. þingsins fær málið til meðferðar milli 1. og 2. umr. Ég tel mjög mikilvægt að reyna að ná samkomulagi við Landssamband smábátaeigenda um framvindu málsins því að þær breytingar sem þetta frv. gerir ráð fyrir snúa allar að smábátaeigendum.