Útboð á rekstri hjúkrunarheimilis fyrir aldraða

Föstudaginn 18. desember 1998, kl. 16:30:27 (2608)

1998-12-18 16:30:27# 123. lþ. 45.92 fundur 180#B útboð á rekstri hjúkrunarheimilis fyrir aldraða# (umræður utan dagskrár), GÁ
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 123. lþ.

[16:30]

Guðni Ágústsson:

Hæstv. forseti. Málflutningur stjórnarandstöðunnar er stundum aumkunarverður og færður í búning útúrsnúninganna. Stundum finnst mér grófur málflutningur, ekki síst Alþb. sáluga, kalla á áfallahjálp. Alútboð á öldruðum, sagði málsflytjandi. Einkavæðing, sagði hv. þm. hinnar grænu hreyfingar, Steingrímur J. Sigfússon.

Hæstv. forseti. Einkarekstur í hjúkrun er jafngamall mannkyninu, svo einfalt er málið. Þeir sem þiggja öldrunarþjónustu hjá Hrafnistu, DAS, Ási, Kumbaravogi, Blesastöðum eða í Skógarbæ hjá Rauða krossinum fá góða umönnun og þjónustu. Slíkur einkarekstur hefur verið hér á landi í 75 ár. Það er engin ný einkavæðing heldur þjónusta sem mannúðarsamtök og einstaklingar hafa sóst eftir og rekið af miklum myndarskap. Full ástæða er til að því verði haldið áfram til samræmis við það sem ríki og sveitarfélög gera einnig með góðum árangri. Þess vegna á ekki að slá á þessa útréttu hönd. Hún sparar peninga og er öllum til góðs. Hitt er svo mikilvægt að hver sem rekur slík heimili geri það samkvæmt lögum, reglum og stöðlum, sé undir eftirliti landlæknis og vistunarmat eigi sér stað. Heilbrrn. þarf að fylgja því eftir að gæði þjónustunnar séu í lagi. Það er hið mikilvæga í málinu og því er fylgt fast eftir. Ég er t.d. sannfærður um að við eigum í sjúkrahúsmálunum að hlusta á Ólaf Ólafsson, fyrrverandi landlækni. Hann vill að hluti þjónustunnar verði færður inn á hótel, sjúklingunum til bóta og ríkinu til sparnaðar.

Ég vil segja það hér að lokum, hæstv. forseti, að roðinn í austri er þegar orðinn fölbleikur.