Útboð á rekstri hjúkrunarheimilis fyrir aldraða

Föstudaginn 18. desember 1998, kl. 16:37:49 (2611)

1998-12-18 16:37:49# 123. lþ. 45.92 fundur 180#B útboð á rekstri hjúkrunarheimilis fyrir aldraða# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 123. lþ.

[16:37]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Svavari Gestssyni fyrir að vekja athygli á þessari fyrirhuguðu ráðagerð ríkisstjórnarinnar.

Enn eina ferðina virðist hinn vinsæli Framsfl. ætla að láta hinn vinsæla Sjálfstfl. teyma sig inn á braut einkavæðingar sem nú heitir einkaframkvæmd. Það er þýðing á enska heitinu private finance initiative. Þetta hefur verið reynt í Bretlandi með mjög slæmum afleiðingum og hv. þm. Guðna Ágústssyni til upplýsingar hefur fyrrverandi landlæknir varað mjög eindregið við þessari ráðagerð.

Hugmyndin er sú að fela einkafyrirtæki fjármögnun og rekstur opinberra stofnana og hafa verið gerðar skuldbindingar um mörg ár, jafnvel marga áratugi fram í tímann. Hið opinbera, ríki eða sveitarfélög, skuldbindur sig til að sjá fyrirtækjunum fyrir viðskiptavinum hvort sem það eru sjúklingar á sjúkrahúsum eða heilsugæslustöðvum, fangar í fangelsum, skólanemar í skólum eða aldrað fólk á elliheimilum. Þetta er allt önnur hugmynd og ekki sambærileg við stofnanir eða rekstur á vegum líknarfélaga sem sprottin eru upp úr hagsmunasamtökum og við höfum þekkt hér um áratugi. Þetta er allt önnur hugsun og ekki sambærileg við það. Hér á að fara í fyrirtækjarekstur sem lýtur lögmálum markaðarins.

Þetta er freisting fyrir stjórnmálamenn. Þeir geta haldið áfram að opna alla nýju skólana, nýju sjúkrahúsin og elliheimilin, án þess að fram komi í reikningum verri skuldastaða einfaldlega vegna þess að það er fyrirtækið sem tekur lánið en ekki ríki og sveitarfélög. Að endingu er það hins vegar hið opinbera, þ.e. skattborgarinn sem borgar reikninginn. Það sem meira er og verra: Reikningurinn er hærri en hann hefði orðið hefði framkvæmdin öll verið á vegum hins opinbera. Lánin hefðu ekki verið eins dýr og að sjálfsögðu ráðast fyrirtæki í framkvæmdina til að hafa af henni arð og arðurinn er einnig greiddur af skattborgaranum. Þetta hefur verið reyndin í Bretlandi.

Við höfum reynsluna af þessu fyrirkomulagi, hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir. Hvers vegna ekki horfa til þeirra sem hafa reynslu af þessu fyrirkomulagi? Þetta er dýrara, þetta er óhagkvæmara, verra fyrir skattborgarann og fyrir notandann. Ég vil vekja athygli á því að í bæklingum ríkisstjórnarinnar um einkaframtak er sérstaklega vikið að sjúklingasköttum, notendagjöldum. Það er ávísun á mismunun. (Forseti hringir.) Það er hryggilegt til að vita að Framsfl. sé orðinn einn einarðasti talsmaður frjálshyggjunnar í landinu. Það eru skilaboð til kjósenda í næstu kosningum.