Útboð á rekstri hjúkrunarheimilis fyrir aldraða

Föstudaginn 18. desember 1998, kl. 16:47:15 (2615)

1998-12-18 16:47:15# 123. lþ. 45.92 fundur 180#B útboð á rekstri hjúkrunarheimilis fyrir aldraða# (umræður utan dagskrár), Flm. SvG
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 123. lþ.

[16:47]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir þessa umræðu, hæstv. heilbrrh. fyrir svörin og sérstaklega hv. þm. Pétri Blöndal fyrir þá ræðu sem hann flutti áðan sem staðfesti að ástæða er til að hafa áhyggjur af málinu. Það hefur verið þannig á þessu kjörtímabili að þegar Framsfl. og Pétur Blöndal sameinast er eðlilegt að fólk og þjóðin leggi við hlustir og velti málunum aðeins fyrir sér því að hv. þm. Pétur Blöndal afhjúpaði málið algjörlega. Ég óska hv. þm. Guðna Ágústssyni líka til hamingju með þennan samferðamann vegna þess að hv. þm. Pétur Blöndal sýndi fram á það til hvers verið er að setja þessa stofnun á laggirnar með þessum hætti. Tilgangurinn er bersýnilega sá að koma velferðarkerfinu inn í markaðskerfið, að rífa velferðarkerfið út úr hinu félagslega kerfi og setja það á grundvöll markaðskerfisins.

,,Ég hef áhyggjur af því, ég verð að segja það``, sagði fyrrv. formaður Framsfl. oft. Ég leyfi mér að viðhafa þau orð hér. Ég hef áhyggjur af þessu. Ég vona að þingmenn Framsfl. sem hér hafa talað digurbarkalega, eins og hv. þm. Guðni Ágústsson, hafi líka áhyggjur af þessu. Ég vona það. Ég vona að hann hafi þroska til þess þrátt fyrir digurbarkaræðu sína áðan.

Það á að fara varlega. Gallinn er sá að ekki hefur verið farið varlega. Það kemur fram í þessum umræðum og svörum hæstv. heilbrrh. að ekki hefur verið leitað eftir faglegri greinargerð frá landlæknisembættinu. Hún liggur ekki fyrir. Landlæknir hefur ekki sagt sitt orð um þetta mál. Það liggur líka fyrir að Landssamband aldraðra hefur ekki verið beðið um álit á þessu máli. Vanræksla á þessum tveimur punktum sýnir að ekki er farið nógu varlega. Þess vegna segi ég, herra forseti, í lok umræðunnar: Ég skora á hæstv. heilbrrh., sem ég veit að er í þessu máli af góðum hug, að hægja á málinu, fresta útboðinu og skoða málin betur. (Forseti hringir.) Ég bendi á að lokum að hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson, sem þekkir gjörla til þessara mála, fullyrti áðan að það mætti gera þessa hluti miklu ódýrari með öðrum hætti. Það er mjög merkilegt ef hæstv. ráðherra hlustar ekki á hann, með reynslu í rekstri í þjónustu við aldraðra þó að ráðherrann hlusti kannski lítið á okkur hin.