Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 18. desember 1998, kl. 16:59:17 (2618)

1998-12-18 16:59:17# 123. lþ. 45.3 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, 344. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (grásleppuveiðar) frv., LB
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 123. lþ.

[16:59]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Sú umræða sem fram hefur farið í dag hefur að mínu viti um margt verið mjög málefnaleg og augljóst að menn taka þeim dómi af mikilli alvöru sem Hæstiréttur kvað upp fyrir nokkrum dögum og hæstv. ríkisstjórn er að bregðast við með þeim frumvörpum sem við ræðum hér.

[17:00]

Virðulegi forseti. Það hefur vakið sérstaka athygli mína í þessari umræðu að alveg síðan ég kom á þing hef ég aldrei nokkurn tíma heyrt auglýst jafnmikið eftir viðhorfum stjórnarandstöðunnar í nokkru máli. Það er augljóst að þetta er ekki gert nema menn hafi slæma samvisku gagnvart því sem þeir eru að gera.

Nýverið afgreiddum við gagnagrunnsfrumvarp þar sem menn lögðu fram nýjar hugmyndir í stóru máli, lögðu fram annað frumvarp sem ekki mátti ræða, en hér hefur hver stjórnarliðinn á fætur öðrum auglýst eftir viðhorfum minni hlutans. Ég fagna því alveg sérstaklega, virðulegi forseti, að áhugi hæstv. sjútvrh. og stjórnarliða skuli vera svona mikill á því að fá fram viðhorf minni hlutans í þessu máli. Ég vil fagna sérstaklega þeim áhuga sem meiri hlutinn hefur sýnt þessu.

Í öðru lagi, virðulegi forseti, hefur mér ætíð þótt heldur miður og miður fyrir greinina í heild það ósætti sem hefur verið um fiskveiðistjórnina. Það kann ekki góðri lukku að stýra til lengdar að jafnmikið ósætti hefur verið um stjórn okkar stærsta og kannski merkasta atvinnuvegar í jafnlangan tíma og raun ber vitni. Og það getur ekki orðið til góðs.

Í sjálfu sér er ekkert óeðlilegt að ósátt hafi ríkt því að Hæstiréttur hefur nú kveðið upp dóm þar sem hann heldur því fram að sú útfærsla á kvótakerfinu sem sá hæstv. sjútvrh. sem nú situr hefur rekið hvað harðast undanfarin sjö ár eða svo, standist ekki grundvallarreglur okkar stjórnarskrár. Það í sjálfu sér segir miklu meira um það ósætti sem hlýtur að vera þegar hluti fiskveiðistjórnarkerfisins stenst ekki grundvallarreglur okkar. Það er gríðarlegur áfellisdómur yfir þeim þáttum sem Hæstiréttur tók þar til skoðunar.

Sá er hér stendur hefur ætíð bæði í ræðu og riti reynt að halda því fram að algerlega nauðsynlegt sé að reyna að ná sáttum í þessu máli. Það getur ekki gengið til lengdar að nánast ríki skotgrafahernaður án þess menn reyni nokkuð að lenda því máli skynsamlega.

Nýverið tók til starfa auðlindanefnd sem samþykkt var á síðasta vorþingi og sá er hér stendur á sæti í henni. Ég hef heyrt það í þeirri umræðu sem fram hefur farið að mjög margir vonast til þess að hún geti orðið einhvers konar sáttaleið í því máli. Ég held að vinnan þar a.m.k. fram til dagsins í dag hafi farið vel fram og full ástæða er til að vonast til þess að eitthvað geti komið út úr þeirri nefnd, svo framarlega sem vinnubrögðin þar verði hin sömu og hingað til.

Virðulegi forseti. Ástæða þess að frv. eru lögð fram hefur verið rakin hér í mörgum ræðum. Hún er umræddur hæstaréttardómur frá 3. des. sl. þar sem tiltekin grundvallaratriði í lögum um stjórn fiskveiða eru ekki talin standast stjórnarskrána, ekki standast jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og ekki standast atvinnufrelsisákvæði þeirrar sömu skrár. Þar er um að ræða, eins og margoft hefur verið rakið hér, mál Valdimars Jóhannessonar gegn íslenska ríkinu. Hann sótti um almennt veiðileyfi og sérstakt veiðileyfi en sjútvrh. hafnaði því að veita honum slík leyfi. Það mál gekk til héraðsdóms og þaðan til Hæstaréttar, sem síðan komst að þeirri niðurstöðu að neitun á grundvelli þeirra raka sem sjútvrn. bar fyrir sig stæðist ekki ákvæði stjórnarskrárinnar.

Virðulegi forseti. Hæstv. sjútvrh. og stjórnarliðar almennt í þessari umræðu hafa haldið því fram að þau frv. sem við ræðum hér hafi verið lögð fram til þess að koma í veg fyrir frekari óvissu, þ.e. til að reyna að eyða þeirri óvissu sem dómurinn hefur skapað. Ég tel að þessi frv. geri það ekki. Það byggi ég á því að ég tel að dómurinn hafi í raun og veru ekki aðeins fjallað um 5. gr. heldur líka 7. gr. Ég held að þessar tvær greinar verði ekki skildar að. Það er mín skoðun. Í fyrsta lagi vegna þess að bæði 5. gr. sem fjallar um veiðileyfi og 7. gr. sem fjallar um veiðiheimildir byggja á sömu forsendu, þ.e. þær byggja báðar á einhverri sögulegri reynslu. Annars vegar byggja veiðiheimildirnar á veiðireynslu áranna 1981--1983 og hins vegar vitna veiðileyfin til þeirra sem höfðu veiðileyfi 1988. Að byggja til frambúðar á einhverju í fortíðinni sem gerir það að verkum að aðrir geti ekki komist inn í greinina, það stenst ekki atvinnufrelsisákvæði stjórnarskrárinnar og jafnræðisákvæði. Það er mín skoðun, alveg kristaltær, að Hæstiréttur hafi tekið á þessum málsástæðum og í raun og veru um leið fellt 7. gr. úr gildi. Það er mín skoðun í þessu máli og ég ætla að leyfa mér í þessari ræðu að fara aðeins betur yfir það viðhorf.

Í fyrsta lagi, virðulegur forseti, kemur fram að í umsókn Valdimars er sótt um almennt veiðileyfi samkvæmt 5. gr. og síðan er sótt um sérstakt veiðileyfi. Ég á kannski ekkert gott með að skýra hvað í þessu felst, þ.e. sérstöku veiðileyfi, en þegar menn lesa þetta frekar þá er sótt um 500 tonn af þorski, talsvert af ýsu, ufsa o.s.frv. og allt eru það tegundir sem eru í kvóta, allar saman. Með þessu sérstaka veiðileyfi sem verið er að sækja um er því í raun og veru verið að sækja um veiðiheimildir. Það er ekki hægt að skýra þetta öðruvísi. Það er ekki bara verið að sækja um almennt veiðileyfi heldur er verið að sækja um veiðiheimildir.

Ég leyfi mér að lesa upp úr dómi Hæstaréttar. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Með hliðsjón af framansögðu verður ekki talið, að sjávarútvegsráðuneytinu hafi verið rétt að hafna umsókn áfrýjanda um almennt og sérstakt veiðileyfi á þeim forsendum, sem lagðar voru til grundvallar í bréfi þess 10. desember 1996.``

Virðulegi forseti. Með þessu er ég að halda því fram að Valdimar hafi á sínum tíma sótt um veiðiheimildir og að Hæstiréttur hafi komist að því í þessari niðurstöðu að það hafi verið óheimilt að neita honum um veiðiheimildir á þeim forsendum sem sjútvrn. gerir.

Í öðru lagi tel ég að öll röksemdafærsla Hæstaréttar í þessu máli bendi til að Hæstiréttur hafi í raun og veru verið að fjalla um 7. gr. Það má gagnrýna það og spyrja hvers vegna ekki sé sérstaklega talað um 7. gr. í niðurstöðu dómsins, og það er vissulega atriði sem er umhugsunarvert. En í allri þeirri röksemdafærslu sem fylgir með dómnum er alveg augljóst að Hæstiréttur telur að ekki sé hægt að skilja að 5. og 7. gr. þessara laga. Öll röksemdafærslan í dómnum bendir til þess að þær verði ekki skildar að og að þessar greinar séu ávöxtur af sama meiði.

Á þessum forsendum tel ég að þau frumvörp sem hér hafa verið lögð fram og ætlun hæstv. ríkisstjórnar er að lögfesta muni ekki eyða þeirri óvissu sem margir hafa talið að dómur Hæstaréttar hafi skapað. Þess vegna held ég að hér sé ekki nægjanlega að gert og að það sé algerlega nauðsynlegt að taka á þessum þætti í dómi Hæstaréttar líka, vilji menn eyða þessari óvissu. Það er algerlega nauðsynlegt að mínu mati.

Ég tel, virðulegi forseti, að full ástæða hefði verið til að gefa sér meiri tíma. Það hefði verið full ástæða til þess að fara betur yfir þetta, gefa sér meiri tíma og reyna að leita leiða til þess að breyta kerfinu þannig að það fái staðist helstu ákvæði í stjórnarskránni. Það getur aldrei orðið sátt um nokkurt kerfi sem stenst ekki þær sanngirnis- og jafnræðisreglur sem finna má í stjórnarskránni. Það getur aldrei orðið sátt um slíkt, virðulegi forseti.

Ýmis fleiri atriði sem fram koma í þessum dómi hefur mér heldur ekki fundist fá nægjanlega umræðu. Ég vil benda sérstaklega á það sem segir hér í dómi Hæstaréttar, með leyfi forseta.

,,Löggjafanum er rétt að takmarka fiskveiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, ef uggvænt þykir að fiskstofnar séu í hættu.``

Ég held að í þessu ljósi sé vert að skoða stjórn á ýmsum veiðum og bendi til að mynda á loðnuveiðar. Við höfum núna í 15 ár aldrei náð kvótanum í loðnu, aldrei nokkurn tíma. Við komumst næst því í hittiðfyrra þegar það munaði u.þ.b. 20 þús. tonnum eða svo. Ef Hæstiréttur er að segja að okkur sé aðeins heimilt að takmarka veiðarnar ef uggvænt þykir um að fiskstofnar séu í hættu, þá er spurning hvort hann sé að segja í þessu tilviki að okkur sé ekki heimilt, miðað við reynslu undanfarinna ára, að takmarka veiðar í loðnu. Er verið að gefa loðnuveiðarnar frjálsar með þessu? Ég held að vel sé þess virði að velta þessu fyrir sér, virðulegi forseti, því að við höfum aldrei náð þeim kvóta sem gefinn hefur verið út í loðnuveiðinni. Og Hæstiréttur virðist vera að segja í þessum dómi að okkur sé ekki heimilt að takmarka fiskveiðar nema í þeim tilvikum þegar fiskstofnarnir eru í hættu.

Ég held að það sé vel þess virði að hugleiða þetta þó að kannski sé fulllangt seilst að halda því fram að Hæstiréttur sé að opna á þessa hluti, en a.m.k. er hann hér með þessum hætti að takmarka valdsvið löggjafans. Og þegar reynslurökin sýna okkur að okkur hefur ekki tekist að veiða þann kvóta sem hefur verið gefinn út í tiltekinni tegund þá hljótum við að velta því fyrir okkur hvort þessi fiskstofn sé raunverulega í þeirri hættu að nauðsynlegt sé að kvótabinda hann. Ég held það sé vert, virðulegi forseti, að skilja þessa spurningu og kasta henni inn í þá umræðu sem hér fer fram.

Hæstv. sjútvrh. varð mjög tíðrætt um atvinnuréttinn í ræðu sinni. Ég held að það sé alveg rétt að atvinnuréttur þeirra sem hafa unnið í greininni, hvort heldur í fiskveiðunum, fiskvinnslunni eða fólksins sem býr á landsbyggðinni o.s.frv., er til staðar. Fólk á ákveðinn rétt til þess að nýta þessa auðlind okkar. Sá réttur er til staðar og þann rétt ber að virða.

Árið 1983 var sú ákvörðun tekin að þessi atvinnuréttur skyldi fylgja útgerðarmanninum, þ.e. útgerðarmaðurinn fékk þennan atvinnurétt þegar þurfti að takmarka aðgang að auðlindinni. Það má vel velta því fyrir sér hvort rétt hafi verið að gera það á þeim tíma, hvort það sé hugsanlega uppspretta þeirrar óánægju sem hefur verið með kvótakerfið frá upphafi að einungis útgerðarmaðurinn hélt þessum atvinnurétti. Það má halda því fram með miklum rökum að þessi atvinnuréttur hafi allt eins getað verið hjá sjómönnum, allt eins getað verið hjá því fiskvinnslufólki sem vann það sem úr sjónum kom. Ég held að þetta sé eitt af því sem við eigum að hugleiða enn og aftur núna þegar við stöndum frammi fyrir því að þetta fiskveiðistjórnarkerfi sem við höfum rekið um langt skeið einfaldlega gengur ekki upp, því miður, í þeirri útfærslu sem það er í dag.

[17:15]

Hæstiréttur er að senda okkur þessi skýru skilaboð. Við eigum ekki að taka við boltanum eins og til að mynda forustumenn ríkisstjórnarinnar hafa gert í þessu máli. Einn hv. þm. leyfði sér í dag að segja að sjómenn eða þeir sem eru ósáttir við dóminn eigi ekki að tala við stjórnmálamenn, þeir eigi að tala við Hæstarétt. Það er ekki hægt að setja fram viðhorf af þessum toga og ekki réttlætanlegt í jafnalvarlegri umræðu og þegar við ræðum um stjórn fiskveiða. Það bara getur ekki gengið og má ekki ganga.

Í mínum huga fagna ég því sérstaklega að Hæstiréttur skuli koma inn í samfélagsumræðuna eins og hann gerir. Kannski er löngu orðið tímabært að hann taki þátt í samfélagsumræðunni af meiri þunga en hann hefur gert. (Gripið fram í: Er þetta almennt álit í lögfræðistétt?) Virðulegi forseti. Ég tala aðeins fyrir mig. Ég fagna því sérstaklega að Hæstiréttur skuli koma inn í umræðuna með þeim hætti sem hann gerir og vildi að hann gerði það í miklu fleiri málum en bara í þessu.

Virðulegi forseti. Náttúrlega hafa mýmörg atriði verið dregin upp í þeirri umræðu sem hér hefur farið fram en það er dálítið merkilegt að hlusta á hæstv. sjútvrh. þegar hann segir að allt muni hrynja, efnahagskerfið, landsbyggðin og ég veit ekki hvað og hvað ef við breytum stjórninni á fiskveiðum. Við höfum veitt fisk í hundruð ára, ekki alltaf með kvótakerfinu. Jafnvel þó að hæstv. sjútvrh. hafi keyrt í gegn veðsetningu á óveiddum afla er ekki þar með sagt að byggðir um land allt muni hrynja ef við breytum fiskveiðistjórnarkerfinu. Það er ekki boðlegt, virðulegi forseti, að vera að bera inn í jafnalvarlega umræðu og hér fer fram rök af þessum toga. Það er bara ekki boðlegt. Eins og þegar hæstv. sjútvrh. lagði lykkju á leið sína þegar hann var að flytja rök sín fyrir þeim frumvörpum sem við ræðum hér, til þess að sparka í jafnaðarmenn sérstaklega, vegna þess að þeir hefðu það eitt markmið að reyna að koma byggðum kringum landið helst á höfuðið. Það er náttúrlega alveg með ólíkindum að menn skuli tala svona og ætlast til þess að þeir séu teknir alvarlega.

Ég tek undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, sem sagði fyrr í dag að það er ekki boðlegt að koma inn í umræðuna svona og menn mega ekki leyfa sér það að vera með þann stráksskap að tala eins og hæstv. sjútvrh. gerði að hluta til og því miður formaður sjútvn. leyfði sér líka. (Gripið fram í: Hver?) Hv. formaður sjútvn.

Að lokum vil ég segja það, þar sem tími minn er nú að verða búinn, að það er kannski annað atriði sem við þurfum sérstaklega að taka á þegar við tökum þetta upp að nýju og það er náttúrlega sá gróði sem menn fara með út úr greininni þegar þeir hætta. Það er atriði sem við verðum að taka sérstaklega á og er sérstakt verkefni löggjafans að finna leið til þess að koma í veg fyrir að menn labbi út úr þessu með þann gróða sem gerist þegar menn eru að selja aflaheimildir og fara út úr greininni. Það er eitt af þeim stóru atriðum sem skapa þá ósátt sem er um kvótakerfið í dag og á því verðum við að taka.

Virðulegi forseti. Tími minn er búinn en ég vil sérstaklega ítreka það að í jafnalvarlegu máli og þessu sem við ræðum er algerlega nauðsynlegt að við leitum leiða til þess að ná sátt um þau sjónarmið sem helst hafa verið uppi í umræðunni um fiskveiðistjórnina.