Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 18. desember 1998, kl. 17:52:37 (2631)

1998-12-18 17:52:37# 123. lþ. 45.3 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, 344. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (grásleppuveiðar) frv., EKG
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 123. lþ.

[17:52]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Jafnframt hinni almennu sjávarútvegsumræðu sem hér hefur staðið í dag hefur líka staðið yfir árangurslaus leit að stefnu jafnaðarmanna og stjórnarandstæðinga í þessu máli. Ég vil fyrir mína parta lýsa því yfir að ég tel mál til komið að leit verði hætt og viðurkennt að stjórnarandstaðan og jafnaðarmenn hafi fundið svo góðan felustað fyrir stefnu sína, sé hún þá til, að við munum ekki finna hana. Þessi sólarhringur mun ekki endast okkur til þess og við verðum að fara í jólahlé án þess að vita um stefnu jafnaðarmanna. Þá liggur það bara einfaldlega fyrir og við ræðum þá málin út frá öðrum forsendum.

Frv. sem við ræðum hér er auðvitað mjög stórt og mikið mál. Efni þess snýr þó einkanlega að sjálfu smábátakerfinu í ljósi þeirrar gjörbreytingar sem varð á starfsumhverfi þeirra með dómi Hæstaréttar fyrr í þessum mánuði. Við verðum að átta okkur á því að dómur Hæstaréttar hefur gjörbreytt stöðu málsins og út frá því verðum við að sjálfsögðu að vinna. Dómurinn er hin endanlega niðurstaða sem við virðum að sjálfsögðu og út frá henni vinnum við.

Í þessu sambandi vil ég rifja það upp að í sjálfu sér hafði okkur í öllum meginatriðum tekist að búa til mjög gott fiskveiðistjórnarkerfi fyrir smábáta. Við áttum að vísu eftir að ljúka vinnu við þetta kerfi, þannig að það næðist að skapa varanlegri og betri rekstrargrundvöll fyrir svokallaða dagabáta. Að því máli var hins vegar unnið og ég hafði vænst þess að á þessu hausti tækist okkur að finna skynsamlega og góða lausn, fyrir þennan þýðingarmikla útgerðarflokk, sem nýst gæti til framtíðar.

Hér áður og fyrr stóðum við frammi fyrir því að vandinn í smábátakerfinu var m.a. sá að bátunum hafði fjölgað gríðarlega mikið. Þeir voru á árinu 1994 orðnir tæplega 1.100 en eru núna 825. Það segir okkur að í fyrsta lagi hafi þessi fjölgun sem árlega átti sér stað í kerfinu verið stöðvuð og sóknargeta flota betur aðlöguð að veruleikanum. Enda var það svo að á mörgum sviðum var að skapast prýðilegur rekstrargrundvöllur í þessari atvinnugrein. Atvinnugreinin var líka orðin máttarstólpi í byggðarlögunum víða í kringum landið, ekki síst á Vestfjörðum. Þess vegna var mjög mikilvægt að búa þessari grein sem best rekstrarumhverfi.

Við munum að fyrir nokkrum árum fóru fram óskaplega harðar umræður um þetta fiskveiðistjórnarkerfi, þegar breytingarnar voru leiddar í lög að ég hygg á árinu 1996. Þá urðu óskaplega hörð átök um þetta mál. Landssamband ísl. útvegsmanna og forustumenn þess fóru bókstaflega hamförum í því máli. Formaður LÍÚ lýsti því m.a. yfir, ef ég man rétt, að þetta kerfi væri svo mikil brigð við fiskveiðistjórnarkerfið sem hér hefði þróast, aflahlutdeildar- og aflamarkskerfi, að það gæfi sér tilefni til að íhuga það að hverfa frá stuðningi við aflamarkskerfið. Hann taldi þetta þvílíkt stílbrot að áætla bátum, smábátum 14% af þorksaflanum, sem reru undir allt öðru fyrirkomulagi, að tilefni væri til að endurskoða afstöðu Landssambands ísl. útvegsmanna til aflamarkskerfisins.

Því miður varð það nú ekki svo að Landssamband ísl. útvegsmanna hyrfi frá stuðningi sínum við aflamarkskerfið. Þeir eru nú enn staðfastari í þeirri trú sinni en áður, en engu að síður þá sást á þessari afstöðu landssambandsins hvað þeim var mikil alvara í þessu máli. Þeir töldu að hér væri verið að skapa mikið svigrúm fyrir flota sem ekki starfaði innan þeirra vébanda og þeir höfðu ýmsar athugasemdir við það.

Við heyrðum líka á sínum tíma að menn höfðu uppi alls konar heimsendaspádóma. Á árinu 1995 var því m.a. haldið mjög stíft að okkur að afkoma smábátanna væri lök, sem sannarlega var rétt, og menn gætu hvorki lifað né dáið í þessu kerfi. Nú heyrum við fremur gagnrýni á þá lund að trillukarlar séu orðnir allt of ríkir, eigi allt of miklar eignir og allt of mikla peninga. Ég verð að játa að það finnst mér miklu ánægjulegri gagnrýni á þetta kerfi, að rekstrarafkoma smábátanna sé það góð að menn telji sérstaka ástæðu til þess að hafa orð á því.

Það sem blasir við okkur í þessu máli er að núna snýst baráttan fyrst og fremst um að verja núverandi kerfi. Þeir sem hafa áhyggjur núna vegna stöðunnar, sem breyttist við kvótadóminn svokallaða í byrjun desember, eru allir að tala í þeim anda að verja sem óbreyttast kerfi. Reynsla okkar af þessu kerfi er góð. Það hefur fært byggðunum miklar tekjur og þessar byggðir, sem stóðu kannski veikast fyrir, nutu nálægðarinnar og uppskáru mikla aflaaukningu í þessu kerfi.

Fiskistofa tók að minni beiðni saman upplýsingar um landaðan afla krókabáta, þ.e. bæði dagabáta og báta sem fiskuðu í þorskaflahámarkskerfi frá fiskveiðiárinu 1995 og fram á þennan dag á Vestfjörðum. Þar kemur í ljós, ef við tökum bara þorskinn, að þessir bátar veiddu á kvótaárinu 1995--1996 8.400 tonn og 13.400 tonn árið eftir. Á síðasta fiskveiðiári var aflinn á Vestfjörðum um 16.000 tonn í þorski hjá þessum bátum. Við sjáum því að þetta skiptir óskaplega miklu máli fyrir þessar byggðir. Nákvæmlega sömu sögu er að segja með ýsuna. Hún hefur þrefaldast úr 600 tonnum rúmum í rúm 1.600 tonn. Af þessu sjáum við að byggðir sem hafa staðið veikt eiga mjög mikið undir því að okkur takist að verja rekstrargrundvöll þessara báta.

Það er líka ástæða til að vekja athygli á því að þetta kerfi hefur opnað ungum mönnum og fleiri einstaklingum leið inn í fiskveiðarnar. Ég held að það skipti ekki síst máli. Það er auðvitað mjög mikilvægt fyrir okkur að þannig sé um hnútana búið í fiskveiðistjórnarkerfi okkar, í grundvallaratvinnuvegi okkar, að menn eigi sem greiðasta leið inn í greinina. Við vitum að það hefur alltaf verið ákveðnum erfiðleikum háð að komast inn í þessa grein, það er auðvitað ekkert nýtt að menn hafi þurft að leggja fram verulegt fjármagn til þess. Þetta er hins vegar miklu hærri þröskuldur núna í aflamarkskerfinu en nokkurn tíma áður. Þess vegna held ég að þetta sé mjög mikilvægt fyrir okkur, að verja þessa þýðingarmiklu atvinnugrein, auðvelda mönnum aðganginn að henni, þannig að sem flestir geti orðið kapítalistar, starfað í þessu landi og nýtt sér mátt sinn, megin, dugnað og útsjónarsemi til að láta gott af sér leiða og efla atvinnulífið vítt og breitt um landið.

[18:00]

Hæstaréttardómurinn í byrjun desember breytti landslaginu algjörlega. Auðvitað hefur dómurinn verið túlkaður á ýmsa vegu. Í þeirri umræðu sem fram hefur farið í dag hafa menn túlkað m.a. þennan dóm með ýmsum hætti. Ég hef ekki orðið var við annað en að menn telji að lágmarksbreyting sem dómurinn hefur í för með sér sé sú sem þetta frv. felur í sér, þ.e. að veiðileyfum verði að vera hægt að úthluta til allra þeirra sem eiga báta, haffæra báta og uppfylla að öðru leyti skilyrði til þess að vera þátttakendur í íslenskri útgerð. Með öðrum orðum er a.m.k. ljóst að menn gagnrýna ekki þessa túlkun hæstv. ríkisstjórnar og þetta frv. sem hér er, út frá því að hún sé of rúm, hún sé að opna þetta of mikið. Menn gagnrýna hana ekki út frá því að það sé t.d. tæk staða að takmarka útgáfu veiðileyfa þrengra en þetta frv. gerir ráð fyrir. Mér hefur þvert á móti heyrst að menn hafi tilhneigingu til þess, sem hafa önnur sjónarmið en ríkisstjórnin, að gagnrýna þetta á þveröfugum forsendum, sem sagt á þeim forsendum að dómurinn ætti að þýða það að menn ættu að ganga enn þá lengra í þeim efnum að breyta þessu stjórnkerfi.

Við getum þá a.m.k. gefið okkur að lágmarki að menn séu sammála um að það verði að gefa út veiðileyfi með allt öðrum hætti, ekki sé hægt að takmarka það við þessi tilteknu skip sem gildandi lög gera. Og að menn séu líka allir sammála um það t.d. að hugtakið ,,úreldingarreglur`` sé horfið. Þegar við föllumst á þetta er auðvitað orðin gerbreytt vígstaða. Ég hef í höndunum bréf frá Landssambandi smábátaeigenda þar sem einmitt er vakin athygli á þessu. Þeir segja hér, með leyfi virðulegs forseta:

,,Þau sjónarmið eru einnig uppi að atvinnuréttur þeirra [þ.e. smábátaeigenda] verði ekki varinn nema með einstaklingsbundinni kvótasetningu. Skýrasta dæmið um þann vanda sem félagið stendur frammi fyrir í þessu sambandi eru grásleppuveiðarnar. Þær eru ekki bundnar kvótum, en hafa verið háðar takmörkuðum fjölda sérveiðileyfa. Á árinu 1998 gengu grásleppuveiðimenn í gegnum eina erfiðustu vertíð frá upphafi þessara veiða. Verði það niðurstaða löggjafarsamkomunnar að sérveiðileyfi til grásleppuveiða séu úr gildi fallin er ljóst að veiðarnar standa öllum opnar.``

Ég get virkilega skilið þessa athugasemd í bréfi Landssambands smábátaeigenda:

,,Sú kaldhæðni kann því að blasa við að Landsamband smábátaeigenda, sem alla tíð hefur ekki tekið í mál að þessar veiðar verði kvótasettar, biðji að fyrra bragði um slíkt fyrirkomulag.``

Þannig má kannski segja að ég og Landssamband smábátaeigenda séum komin í þá stöðu sem lýst hefur verið með eftirfarandi orðum:

  • ,,Þetta sem helst nú varast vann
  • varð þó að koma yfir hann.``
  • Við stöndum frammi fyrir þessum blákalda veruleika.

    Það eru með öðrum orðum gríðarleg áhrif af þeirri breytingu að veiðileyfið sé ekki hægt að takmarka með þessum hætti. Ég gæti ímyndað mér á síðustu fjórum, fimm árum hafi menn verið að kaupa veiðileyfi og úreldingarrétt fyrir einhverja milljarða. Maður þekkir dæmi um að einstakar útgerðir hafi verið að kaupa í þessu sambandi úreldingarrétt og veiðileyfi fyrir a.m.k. á annað hundrað milljónir. Í Morgunblaðinu um daginn var viðtal við Guðna Einarsson, útgerðarmann á Súgandafirði, sem hafði keypt einmitt veiðileyfi og úreldingarrétt fyrir 11 millj. kr. til þess að geta hafið veiðar á þorskaflahámarkstrillunni sinni. Við sjáum því að hér er um að ræða gífurlega miklar upphæðir og ekki ólíklegt að menn muni láta reyna á rétt sinn í þessum efnum.

    Það er líka augljóst mál að þetta nýja umhverfi hefur mikil áhrif á það sem við höfum kallað kvótalitla báta eða kvótalausa báta, sem menn hafa verið að kaupa vegna þess að það er þeirra leið til þess að komast inn í kerfið, hafa síðan farið út á leigumarkaðinn og reynt að vinna eftir því. Kvótaþingið setti mönnum auðvitað miklar skorður en þetta hefur mikil áhrif á stöðu þessara báta. Ég held að það sé mjög mikilvægt að þegar menn fara að reyna að vinna að einhverjum lausnum á þessum efnum, sem verður auðvitað verkefni hæstv. sjútvn., að menn hafi líka stöðu þessara báta í huga. Báta með litla sem enga kvóta sem eru auðvitað í miklum vanda einmitt út af þessu vegna þess að núna geta menn keypt auðveldlega kvótalausa báta, fengið á þá veiðileyfi og hafið þennan bardaga, með miklu minni skuldir, ef að líkum lætur, en þeir sem hafa verið að kaupa þessa báta fram undir þetta.

    Í þessu sambandi hlýtur maður að vekja athygli á því að til staðar er þessi svokallaði jöfnunarpottur upp á 5.000 tonn og hann hlýtur m.a. að koma til skoðunar í þessu sambandi gagnvart þessum bátum jafnframt öðrum.

    Í þessu frv. kemur fram mikill jöfnunarhugsunarháttur sem er ekki góður að mínu mati, ekki góður í þessari útgerð. Í frv. kemur fram þessi hugsun að það eigi að taka þau 2.700 tonn sem liggja til grundvallar reynslu þeirra rúmlega 300 báta sem starfa innan sóknardagakerfisins á færum eða línu og deila þessu jafnt á milli þeirra. Þetta er auðvitað ekki góð latína. Þetta þýðir að verið er að refsa afreksmönnunum. Við vitum að í þessum 300 báta hópi er fullt af bátum sem hafa nánast ekki róið og auðvitað er fráleitt að þeir fái í sinn hlut ígildi 9 tonna, sama magn og þeir bátar sem hafa kannski verið að fiska, eins og dæmi eru um frá Aðalsteini Bjarnasyni í Bolungarvík, sem fiskaði þrjú og hálft tonn að meðaltali á dag á síðasta fiskveiðiári. Við sjáum að við verðum að horfa á þetta með einhverjum öðrum hætti.

    Í þessu sambandi hlýt ég að segja að ég tel að það sé alls ekki rétt niðurstaða í þessu frv. að eina leiðin til þess að verja rétt þessara manna sé að úthluta þessu sem einstaklingsbundnum kvótum. Það er líka hægt, eins og hæstv. sjútvrh. raunar vakti athygli á og viðurkenndi í athyglisverðri blaðagrein á dögunum, að það er út af fyrir sig hægt líka að breyta þessu í sóknareiningar. Þó menn leggi til grundvallar einhvers konar veiði er auðvelt mál að breyta þessu í sóknareiningar þannig að menn hafi þá sóknareiningar til þess að moða úr í staðinn fyrir aflakvóta. Þarna held ég líka að menn ættu að skoða til hlítar hvernig hægt sé að útfæra þetta sóknareiningakerfi, a.m.k. þannig að menn eigi þá valið í þessum efnum. Því að við sjáum að það að úthluta hverjum einasta báti bara 9 tonnum hefur mikil áhrif á einstök byggðarlög.

    Ef ég tek sem dæmi, Vestfirði, sýnist mér þar hafa verið á síðasta fiskveiðiári 63 bátar í þessu dagakerfi. Ef maður margfaldar það með 9 mundu þeir fá að fiska 567 tonn. Þeir fiskuðu hins vegar á síðasta fiskveiðiári rúm 3.000 tonn. Þó menn hafi kannski ekki reiknað með því að geta fiskað jafnmikið á yfirstandandi fiskveiðiári og því síðasta þá sjáum við hins vegar að minnkun þarna yfir 2.000 tonn á afla þessara báta yrði mikið áfall fyrir þessar veiku byggðir. Þess vegna hljótum við að reyna að byggja inn í þetta kerfi einhvern mekanisma sem auðveldar þeim mönnum sem standa sig best að starfa innan þessa kerfis. Þannig hljótum við að vinna, sjávarútvegurinn er einu sinni atvinnugrein þar sem menn verða að fá að hafa ákveðið svigrúm til þess að nýta hugkvæmni sína, dugnað, áræðni og þor.

    Ég held þess vegna, virðulegi forseti, að stóra verkefnið fram undan í sjútvn. sé að skoða þessi mál og sérstaklega að fara ofan í og skilgreina atvinnuréttindin eins og hér hefur margoft komið fram í dag. Það er auðvitað þarna sem stóra verkefnið okkar er falið en er hins vegar býsna erfitt viðfangsefni. Ef það gæti orðið niðurstaðan að hægt sé að skilgreina þessi einstaklingsbundnu atvinnuréttindi er staðan auðvitað orðin allt önnur. Þess vegna, virðulegi forseti, held ég að þetta sé hlutur sem hv. sjútvn. verður að gefa alveg sérstakan gaum hvernig menn geti skilgreint þessi einstaklingsbundnu atvinnuréttindi og varið hagsmuni þessa mikilvæga útgerðarflokks sem stendur bókstaflega undir atvinnulífinu í heilu byggðunum og heilu héruðunum í landinu, ekki síst á Vestfjörðum, eins og ég hef komið inn á.

    Til viðbótar við þetta vil ég segja að öllum er ljóst að með kvótadóminum svokallaða verður breyting á. Hver sem sú breyting annars verður þá verður örugglega á breyting á stjórnkerfi smábátanna. Ég tel ekki óeðlilegt að menn fái góðan aðlögunartíma að þessari breytingu. Hver sem niðurstaðan verður, hvernig svo sem niðurstaðan verður um þetta stjórnkerfi er alveg ljóst á grundvelli þessa kvótadóms að hægt er að gefa mönnum tiltekið, ákveðið svigrúm til þess að bregðast við eða fara inn í breyttan veruleika. Það er t.d. ekkert óeðlilegt að smábátarnir fái til að mynda tveggja ára svigrúm í þessum efnum og geti búið við óbreytt kerfi án einstaklingsbundins hámarks í dagakerfinu, gætu til að mynda róið í rúmlega 30 daga án einstaklingsbundins hámarks á næstu tveimur fiskveiðiárum til að undirbúa sig að þeim breytta veruleika sem allir viðurkenna og vita að mun blasa við okkur með einhverjum hætti. Nákvæmlega sama tel ég að gæti átt við um þorskaflahámarksbátana, að þeir fengju tveggja ára svigrúm, fengju að róa með sama hætti næstu tvö árin, án þess að þetta hvort tveggja skapaði neina nýja viðmiðunarreynslu, heldur eingöngu að menn fengju þetta svigrúm, þennan tíma til að undirbúa sig fyrir þær breyttu forsendur sem kvótadómurinn frá því í byrjun desember skapaði.

    Virðulegi forseti. Við skulum ekki gera lítið úr því að við stöndum frammi fyrir mjög erfiðu viðfangsefni. Það eru ekki til auðveldar lausnir á þessu verkefni. Við sem höfum verið að velta þessu fyrir okkur, sérstaklega með hagsmuni þessa útgerðarflokks í huga vegna mikilvægis hans fyrir einstök héruð, gerum okkur grein fyrir því að við stöndum frammi fyrir mjög erfiðu viðfangsefni. Hins vegar er óumflýjanlegt að við tökum á þessu og reynum að gera það þannig að það valdi sem allra minnstri röskun. Það er forsendan sem hæstv. ríkisstjórn gaf út þegar gripið var til úrræða vegna kvótadómsins að menn vildu reyna að gera það þannig að það skapaði sem minnsta röskun. Það er ljóst að þetta frv. mundi hins vegar valda mikilli röskun á högum eins útgerðarflokks, þ.e. smábátaútgerðarflokksins, og þess vegna er stóra verkefnið að finna ásættanlegri lausn sem tryggir betur stöðu þessa útgerðarflokks til lengri tíma, byggðunum til heilla og landi og þjóð til framdráttar.