Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 18. desember 1998, kl. 18:43:30 (2638)

1998-12-18 18:43:30# 123. lþ. 45.3 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, 344. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (grásleppuveiðar) frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 123. lþ.

[18:43]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Það er mikill misskilningur hjá hæstv. sjútvrh. að telja að sjávarútvegsmál á Íslandi hafi verið í einhverri sátt. Það væri hægt að segja: Ekki veit ég hvar blessaður maðurinn hefur haldið sig. Auk þess að hafa algjörlega rangt fyrir sér, og ég veit að fólkið í landinu veit það, þá er hann hins vegar að gera tilraun. Hann er að segja: Auðlindanefndin sem sett var á laggirnar er aðferðin til að reyna að ná þessari pólitísku sátt og sátt í samfélaginu um sjávarútvegsmál.

Þannig hefur það ekki verið. Auðlindanefndin er fyrst og fremst að skoða mjög marga þætti sem tengjast auðlindanýtingu hér á landi. Við eigum fulltrúa í henni en við jafnaðarmenn stóðum ekki að þeirri tillögu á sínum tíma. Nefndin hefur hins vegar ekkert með það að gera að hinir pólitísku flokkar dragi skýrt fram áherslumál sín í sjávarútvegi.

Hins vegar held ég að auðlindanefnd sé að vinna mjög gott starf og hún er að draga saman mjög mikið af upplýsingum sem munu nýtast í pólitískum umræðum um ágreiningsefni sem eru alveg augljós. Við erum ekki að segja upp neinni sátt í samfélaginu. Varðandi fiskveiðistjórnarkerfið hefur ósættið fyrst og fremst verið um úthlutunarkerfið, gjafakvótakerfið sem hæstv. sjútvrh. ver fram í rauðan dauðann. Almenningi hefur sárnað það mest í málinu. Hæstv. ráðherra veit það.

Ég hef með réttu nefnt möguleika og ég fagna því ef sjútvrh. vill henda þessu frv. og leita að leiðum til að finna nýtt úthlutunarkerfi. Ég get ekki skilið hæstv. ráðherra öðruvísi. Úr því að hæstv. ráðherra spyr: Hvaða leiðir? Ég dró hérna upp fimm, sex möguleika á nýju úthlutunarkerfi og gæti nefnt fleiri. Er hann að segja: Ja, nú þarf ég ráð þín, hv. þm., til að leysa þann vanda sem dómur Hæstaréttar olli. Er hæstv. ráðherra er að leita eftir því? Hvers vegna er hann að leita eftir nýju úthlutunarkerfi?