Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 18. desember 1998, kl. 18:48:19 (2640)

1998-12-18 18:48:19# 123. lþ. 45.3 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, 344. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (grásleppuveiðar) frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 123. lþ.

[18:48]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra sagðist ekki beint vera að leita ráða hjá mér um þetta efni. Það er miður. Ég held að hann hefði haft gott af að gera það. Hann vill misskilja það sem verið er að vinna að og misskilja hlutina í samfylkingarhópnum.

Það er ljóst hvaða niðurstöðu og að hverju við erum að vinna í sambandi við sjávarútvegsmál í þeim efnum. Það er samkomulag um að við munum útfæra gjaldtöku á sameiginlegar auðlindir þannig að fólkið í landinu muni njóta þess arðs sem auðlindin gefi af sér. Það liggur fyrir. Það liggur líka fyrir að við ætlum að endurskoða núverandi fiskveiðistjórnarkerfi. Við höfum sagt þetta og það er þetta sem við ætlum að vinna að og erum að vinna að. Við erum ekki í neinu samstarfi við hæstv. ráðherra eða samstarfsflokk hans um þetta efni.

Ég reyndi að draga skýrt fram, og mér fannst ráðherra fallast á það, að ágreiningurinn á milli okkar stendur um hvar vandinn sé. Ráðherrann heldur sig við að þetta snúist einungis um úthlutun veiðileyfa. Hins vegar vill hann fá að vita hvaða leið við mundum vilja fara ef, eins og ég segi, vandinn væri nú stærri, þ.e. úthlutun veiðiheimilda. Ég er búinn að nefna nokkuð margar leiðir sem allar geta komið til greina um hvernig maður úthlutar að nýju aflakvótum. En öll framsetning á þeim hugmyndum er gagnlaus nema það ríki pólitískur vilji, meirihlutavilji á hinu háa Alþingi, fyrir því að taka þetta úthlutunarkerfi til endurskoðunar. Sá pólitíski vilji liggur ekki fyrir.

Það er hugsanlegt og mjög líklegt að Hæstiréttur muni dæma Alþingi til að fjalla um þessa spurningu. En því miður kemur sá dómur ekki fyrr en eftir næstu kosningar.

Þetta er ágreiningsefnið milli okkar og ríkisstjórnarflokkanna. Þeir ætla sér að lögfesta þetta mál vitandi að það verða málaferli, en telja sig sleppa með það fram yfir 8. maí. Þannig komast þeir hjá því að þurfa að taka á þessu vandamáli sem ég hef gert hér að umtalsefni.