Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 18. desember 1998, kl. 20:31:20 (2646)

1998-12-18 20:31:20# 123. lþ. 45.3 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, 344. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (grásleppuveiðar) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 123. lþ.

[20:31]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við ræðum hérna um dóm Hæstaréttar sem hv. alþingismönnum hefur orðið mjög tíðrætt um enda er hann forsenda þess að frv. sem við ræðum var lagt fram.

Dómsorð Hæstaréttar hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

,,Með hliðsjón af framansögðu verður ekki talið að sjávarútvegsráðuneytinu hafi verið rétt að hafna umsókn áfrýjanda um almennt og sérstakt veiðileyfi á þeim forsendum, sem lagðar voru til grundvallar í bréfi þess 10. desember 1996. Verður synjun ráðuneytisins því felld úr gildi. Hins vegar er ekki í þessu dómsmáli tekin afstaða til þess hvort ráðuneytinu hafi að svo búnu borið að verða við umsókn áfrýjanda, en málið er einungis höfðað til ógildingar á ákvörðun ráðuneytisins en ekki til viðurkenningar á rétti áfrýjanda til að fá tilteknar veiðiheimildir í sinn hlut.``

Svo mörg voru þau orð, herra forseti. Fólk hefur rýnt í þennan dóm enda erfitt að átta sig á hvað hann segir. Í rauninni segir hann ekkert annað en að ákvörðun sjútvrn. er felld úr gildi. Í dómnum eru auk þess alls konar forsendur taldar fram sem gera mat á honum flóknari. Það er nánast þannig að hver sem um fjallar finni lausn við sitt hæfi. Sumir segja að þetta breyti í rauninni engu. Að mínu mati væri vægasta lausnin á þessum vanda að setja sólarlagsákvæði í 5. gr., þ.e. að 5. gr. renni út eftir t.d. eitt ár eða í lok næsta árs. Hæstiréttur segir að ekki hafi verið heimilt að gera þetta framsal varanlegt í 5. gr., eins og hún var sett 1990, en þar var hún sett án sólarlagsákvæða. Það var ekki heimilt að leysa vandamálið þannig til framtíðar heldur eingöngu í skamman tíma í senn. Vægasta lausnin væri því sú að setja sólarlagsákvæði í 5. gr. En það er ýmislegt fleira sem vekur til umhugsunar.

Herra forseti. Það er munur á því hvort menn bregðast við svona dómi með því að gera eins lítið og hægt er eða með því að gera það sem þeir vilja gera. Það er jú einu sinni hlutverk Alþingis að setja þjóðfélaginu lög og ramma um mál sem skipta þjóðina miklu. Spurningin er: Hvernig vilja menn sjá framtíð þessa kerfis til 20, 30, 50 ára? Það eiga hv. alþingismenn alltaf að hafa í huga. Þeir eru að setja þjóðfélaginu ramma og ákvarða framtíð þess til margra ára, áratuga. Í samræmi við það finnst mér að sú leit manna að lausn á þessum vanda sé ekki flokkspólitísk í sjálfu sér. Menn eru jú bara að leita að góðri lausn og það er hafið yfir alla flokkspólitík. Þó finnst mér umræðan í dag hafa verið nokkuð mikið á flokkspólitískum grunni.

Hæstiréttur segir, með leyfi hæstv. forseta: ,,Stefndi`` --- þ.e. ríkið eða sjútvrn. --- ,,hefur ekki sýnt fram á að aðrar leiðir séu ekki færar til að ná því lögmæta markmiði að vernda fiskstofna við Ísland.`` Þarna auglýsir Hæstiréttur eftir leiðum til lausnar. Í dag hafa hv. þingmenn og hæstv. sjútvrh. verið að spyrja hver annan um leiðir til lausnar á þessum vanda. Það vantar sem sagt leiðir, það vantar lausnir. Hvaða lausnir og hvaða leiðir eru færar? Til þess að finna þær þarf að skoða dóminn í heild.

Áður en ég kem að því hvaða leiðir eru færar vil ég gjarnan koma að öðru atriði. Menn tala mjög oft um það í umræðu um sjávarútvegsmál að fiskstofnar við Ísland séu auðlind þjóðarinnar. (Gripið fram í: Það stendur í lögunum.) Það stendur reyndar ekki í lögunum, ekki að þeir séu auðlind þjóðarinnar. Og það veltir upp spurningunum: Hvað er auðlind og hvað er þjóð?

Auðlind er einhver lind sem auður streymir úr, er uppspretta auðs. Og þjóð er að mínu mati ekki þeir sem hafa íslenskan ríkisborgararétt heldur það fólk sem býr á Íslandi. Í mínum huga er þjóðin fleiri en þeir sem hafa ríkisborgararétt. Ef við ætlum að hafa þetta sem auðlind þjóðar ætti þetta verði lind sem úr streymir auður til handa því fólki sem býr á Íslandi.

Herra forseti. Umræðan um kvótann, og þá tala ég um kvótann í víðustu merkingu, hefur verið mjög villandi vegna þess að menn hafa ekki áttað sig á þeim rökfræðilegu þáttum sem kvótinn í víðasta skilningi samanstendur af. Í fyrsta lagi er það fiskifræðin. Það sem fiskifræðingar segja. Þeir segja að það megi veiða svo og svo mikið og það er ágreiningur um hvaða aðferðum skuli beitt við fiskifræðina. Í öðru lagi er fiskveiðistjórnarkerfið, hvort notað er aflamark eða sóknarmark. Sumir tala um að frekar eigi að vera sóknarmark en aðrir aflamark. Einnig er rætt um hvort það eigi að vera framsal eða ekki. Ég bendi á að í bæði aflamarki og sóknarmarki þarf að hafa skömmtun. Í báðum kerfum þarf að hafa framsal ef kerfið á að vera hagkvæmt. Í þriðja lagi er talað um eign, skömmtunin myndar eign. Um leið og byrjað er að skammta þá myndast eign. Þá kemur að þriðja atriðinu, sem er eignarhaldið á þeim verðmætum sem verða til við skömmtunina.

Sumir tala um allt þetta í belg og biðu, alla þessa þætti. Mér finnst mjög mikilvægt að menn haldi þessu vel aðgreindu í umræðunni. Í mínum huga er ekki svo mikill ágreiningur um fiskifræðina þó hann sé reyndar dálítill, en miklu minni ágreiningur er um stjórnunarkerfið. Ég er sannfærður um að það sé mjög gott. Líklega eru flestir sannfærðir um það. Eignarhaldið er það sem menn greinir á um.

Herra forseti. Spurning: Getur auðlind þjóðar verið í einkaeigu? Það er spurning. Ég tel að svo sé ekki. Um leið og auðlind er komin í einkaeign þá er hún uppspretta auðs fyrir þá einstaklinga sem eiga hana en ekki fyrir aðra sem búa á sama svæði, þ.e. þjóðina. Einstaklingar geta jú flutt, farið eitthvert annað og þar með tekið með sér auðlindina eða arðinn af henni. Þetta hef ég séð þegar kvóti fór frá Ísafirði til Akureyrar. Með sama hætti mun kvótinn fara til útlanda, til New York eða eitthvert annað. Þó að einstaklingarnir séu Íslendingar og fullnægi öllum kvöðum laganna þá er hugur þeirra og arðsmiðja hugsanlega komin til New York áður en við vitum um. Þessi rök segja mér og vega miklu þyngra en nokkur önnur rök sem menn hafa fært fram hvort sem það eru réttlætisrök, hagfræðirök eða annað, að ef auðlindin er í einkaeign þá getur hún og mun hún hugsanlega fara til útlanda. Ísland yrði þá verstöð og þetta yrði ekki lengur auðlind þjóðarinnar. (Gripið fram í: Auðlind Evrópu.) Auðlind Evrópu eða heimsins, nákvæmlega.

Hvernig getum við tryggt að fiskstofnarnir verði auðlind þjóðarinnar? Ef við getum ekki tryggt það þá finnst mér að við eigum að gleyma því að þetta sé auðlind þjóðarinnar. Við ættum ekki alltaf vera að halda í þá illúsjón eða hugsjón að svo sé.

Herra forseti. Margir hv. þingmenn og hæstv. ráðherra hafa í umræðunni saknað tillagna að leiðum. Menn hafa spurt hver annan: Hefur þú leið? Ef þú þekkir ekki leið þá hefurðu ekkert í umræðuna að gera. Nú vill svo til að ég hef leið. Það er sú eina leið sem bent hefur verið á og hún er m.a.s. útfærð. (Gripið fram í.) Það er hárrétt hv. þingmaður.

Ég flutti á síðasta þingi þáltill. um að dreifa árlegri veiðiheimild á alla íbúa landsins. Það er ákveðin leið. Ég hygg að þessi leið gæti verið sú leið sem Hæstiréttur er að biðja um og það sem hv. þingmenn hafa verið að biðja um.

Að sjálfsögðu mætti þetta ekki gerast allt í einu. Það dettur ekki nokkrum einasta manni í hug, nema hæstv. ráðherra. Í tillögu minni var gert ráð fyrir að þetta gerðist á 20 árum. Kvótaeignin yrði með lengri eignum sem fyrirtækin ættu. Þau mundu afskrifa hana um 5% á ári, svona svipað og fasteignir. Skip afskrifast á miklu skemmri tíma, bílar líka og allar aðrar eignir.

Ég vil að þessi leið verði skoðuð og ekki bara afgreidd með upphrópunum, eins og hrun atvinnugreinarinnar, kommúnismi eða því um líkt. Ég tel að hér sé ekki um kommúnisma að ræða heldur akkúrat öfugt. Kommúnismi felst í því að fjármunir eru teknir af öllum almenningi og færðir til ríkisins. Hér væri verið að færa... (Gripið fram í.) Hér er verið að færa eignir til einstaklinga. Þetta er einstaklingshyggja, þetta er kapítalismi. Einstaklingurinn þarf að selja þessa eign sína, það er markaðsvæðing, það er markaðsvæðing a la Thatcher. Hér erum við að tala um eitthvað sem minn flokkur gæti heils hugar staðið á bak við.

Sumir munu eflaust kalla þetta brask. Í mínum huga fer það orð bráðum að verða fallegt, eins og menn sáu með Búnaðarbankann. Búnaðarbankinn er einmitt dæmi um það að íslenskt þjóðfélag er tilbúið til að taka við því að selja árlega veiðiheimildir á markaði. Það yrði virkilega skemmtilegt. Nákvæmlega eins og með húsbréf þá gætu menn keypt kvóta á hverjum einasta degi og selt hann. Gengið mundi fara eftir framboði og eftirspurn. Einmitt eins og markaðsmenn vilja. Þannig er það með markaðsmenn. (LB: Er ráðherrann ekki markaðsmaður?) Ég veit ekki betur.

Fyrir fyrirtækin getur tillaga mín verið betri leið en núverandi leið. Vesalings sjávarútvegsfyrirtækin á Íslandi lenda í hremmingum með reglulegu millibili. Nú kemur hæstaréttardómur, þar áður komu vinstri menn með auðlindaskatt, skattleggja allt saman. Þetta eru endalausar hremmingar. Það yrði miklu betra að vita að menn hefðu eignina í 20 ár. Miklu betra. Fyrir þjóðina eru 20 ár stuttur tími. Fyrir fyrirtæki og einstaklinga er það langur tími. Ég get sem fulltrúi þjóðarinnar vel beðið í 20 ár eftir að eignast þennan kvóta.

Markaðsvæðing mundi valda því að verðlækkun yrði á kvóta. Nú er árlegur kvóti seldur á 80 kr. kílóið. Ég hef aldrei skilið hvernig hægt er að kaupa þorskkíló á 80 kr., þ.e. leyfið til að fá að veiða þorsk og selja síðan á 100 kr. á markaði. Ég hef aldrei skilið það hvernig menn geta þetta. Ég geri ráð fyrir því að ef allur kvóti yrði seldur á markaði þá mundi hann lækka niður í 60 eða 40 kr. Sem dæmi má taka að Grandi var með hagnað úr rekstri. Ef maður deilir þeim hagnaði á þorskígildistonn Granda þá var það um 50 kr. á kíló. Grandi getur ekki borgað nema í hæsta lagi svona 20 kr. á kíló --- nema hann ætli að fyrirgera öllum sínum hagnaði. Þannig mundi hann aldrei borga meira. Fyrirtækið mundi að meðaltali ekki borga meira en það sem gefur þeim hagnað. Það er þekkt úr öllum viðskiptum. Annað gengi aðeins í mjög stuttan tíma.

Afleiðingin er sú að kvótinn mundi lækka í verði við þessa miklu markaðsvæðingu. Hann mundi jafnvel byrja á að fara niður í 60 og svo í 40 kr. Þá mundi nokkuð merkilegt gerast vestur á fjörðum. Trillukarlarnir gætu allt í einu keypt eins mikinn kvóta og þeir vildu, á kannski 40 eða 30 kr. kílóið. Ég hygg að þeir gætu vel gert út þá. Mér segir nefnilega svo hugur að trilluútgerð sé ein sú hagkvæmasta útgerð sem til er. Fjárfestingin á bak við hvern sjómann er ekki nema 7 milljónir í trillu en 40 milljónir í skuttogara. Rekstrarkostnaðurinn er líka miklu minni. Þetta leysir kannski líka vanda trillukarla sem menn hafa nú ekki lítið talað um.

[20:45]

Gagnvart landsbyggðinni, herra forseti, getur tillaga mín virkað þannig að byggðarlög sem hafa þurft að sjá á bak kvótanum, þegar skuttogarinn sigldi burt, geta allt í einu farið að gera út. Vegna þess að verðið á árlegri veiðiheimild snarlækkar. Auk þess gerði ég ráð fyrir því í tillögu minni að heimilt yrði að veita tímabundinn byggðakvóta til þess að bjarga því við sem búið er að skemma úti á landi með núverandi kvótakerfi.

Herra forseti. Ég hef lagt fram tillögu hér á Alþingi um flatt skattkerfi, flatan skatt, 20% á alla landsmenn, upp úr og niður úr, enginn persónufrádráttur, enginn sjómannaafsláttur og engar vaxtabætur. Það er að sjálfsögðu ófélagslegt, vegna þess að fólk sem er með lágar tekjur mundi fara að borga skatt sem það borgar ekki í dag. En á móti kæmi, ef þessi hugmynd um markaðsvæðingu kvótans yrði tekin upp, að allir fengju kvóta, börn, gamalmenni og öryrkjar. Allir fengju kvóta til að selja sem mundi virka á móti því ófélagslega sem hinn flati tekjuskattur mundi hafa í för með sér. Til samans mundu þessi tvö kerfi því virka mjög vel. Fyrir utan þetta eru margir aðrir kostir sem ég ætla ekki að fara að rekja núna enda yrði það framsaga fyrir því máli sem ég flutti þáltill. um. En þessi tillaga mín er ígildi skattafsláttar eða persónuafsláttar.

Herra forseti. Fyrirliggjandi frv. gerir lítið annað en að taka 5. gr. úr sambandi. Síðan eru ákveðin vandkvæði við trillukarla sem eru leyst á dálítið sársaukafullan hátt fyrir þá. Það er svo sem mjög slæmt og það þarf hv. sjútvn. að leysa. En ég bendi á að það eru búnir til nýir kvótakóngar með þessari tillögu.

Herra forseti. Hæstiréttur segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

,,Eins og áður getur taldi löggjafinn brýnt að grípa til sérstakra úrræða á árinu 1983 vegna þverrandi fiskstofna við Ísland. Var skipting hámarksafla þá felld í þann farveg sem hún hefur síðan verið í, að úthlutun veiðiheimilda yrði bundin við skip. Er óhjákvæmilegt að líta svo á að þessi tilhögun feli í sér mismunun milli þeirra, sem leiða rétt sinn til veiðiheimilda til eignarhalds á skipum á tilteknum tíma, og hinna, sem hafa ekki átt og eiga þess ekki kost að komast í slíka aðstöðu. Þótt tímabundnar aðgerðir af þessu tagi til varnar hruni fiskstofna kunni að hafa verið réttlætanlegar,`` o.s.frv.

Þetta segir Hæstiréttur. Hvað er hægt að lesa úr þessu? Hæstiréttur er í rauninni að segja að núverandi skipting hámarksafla megi ekki vera varanleg. Það eigi að beita nákvæmlega sömu rökum við hann eins og við 5. gr. með veiðileyfin. Ég sé ekki annað en að sú lausn sem hæstv. ríkisstjórn ætlar að fara í muni leiða til nýrra dóma, nýrra málaferla. Það má kannski segja að það sé alveg sama hvaða leið er farin, það muni alltaf leiða til þess að Hæstiréttur þurfi að taka á málinu. Mér segir svo hugur að ef þetta verður samþykkt, sem hér er stefnt að, þá komi nýr dómur sem segi að það eigi líka að dreifa veiðiheimildunum á alla einstaklingana. Og þá er spurningin, herra forseti, er einhver önnur leið til heldur en sú sem ég hef lagt til og hef verið að lýsa? Er einhver önnur leið til?

Ef einhver hv. þm. eða hæstv. ríkisstjórn getur bent á einhverja aðra leið þá endilega geri þeir svo. Ég auglýsi eftir fleiri leiðum til skoðunar til hliðar við þá leið sem ég hef lagt til.