Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 18. desember 1998, kl. 20:51:41 (2648)

1998-12-18 20:51:41# 123. lþ. 45.3 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, 344. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (grásleppuveiðar) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 123. lþ.

[20:51]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það er svo skemmtilegt með markaðinn að það þarf ekkert að reikna út. Vegna þess að markaðurinn býr til sitt verð sjálfur. Það er enginn sem sest niður og reiknar út hvað olíuverð eigi að vera í heiminum. Olíuverðið myndast. Útgerðin á Íslandi mun borga það verð fyrir kvótann sem að meðaltali gefur henni hagnað. Það er einmitt það sem markaðslögmálin segja og ekkert annað.

Þannig munu vel rekin fyrirtæki og fyrirtæki sem búa við góðar aðstæður, nálægt miðum, á Vestfjörðum og víðar, geta borgað hærra verð. Illa rekin fyrirtæki munu ekki geta borgað það verð sem markaðurinn krefst og þau fara þá bara á hausinn. Og það eiga þau að gera.

Ég þarf ekkert að reikna út hvað tillagan kosti sjávarútveginn, af því að hann ákveður það sjálfur hvað hann vill borga. Það er einmitt það indæla og dásamlega við markaðshagkerfið að það ákveður sjálft hvað það vill borga. Það myndast verð. Það þarf enginn að stýra því ofan frá.

Hins vegar hef ég slegið á hvað þetta muni færa hverjum eintaklingi á Íslandi og það fer náttúrlega mikið eftir því hvað útgerðin er tilbúin til að borga, og fer m.a. eftir verðlagi erlendis, alveg eins og allur markaður virkar. En ég hef slegið á að þetta mundi kannski gefa hverjum einstaklingi 50 þúsund kr., eitthvað svoleiðis. Og svo getur maður reiknað út hvað það þýðir fyrir alla þjóðina.

En menn sem trúa á markaðinn velta svona vandamálum yfir á markaðinn. Þeir eru ekkert að leysa þau sjálfir við græn skrifborð.