Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 18. desember 1998, kl. 20:57:02 (2651)

1998-12-18 20:57:02# 123. lþ. 45.3 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, 344. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (grásleppuveiðar) frv., MS
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 123. lþ.

[20:57]

Magnús Stefánsson:

Hæstv. forseti. Þau frv. sem hér eru til umræðu eru fyrst og fremst komin til vegna umrædds dóms Hæstaréttar, eins og fram hefur komið margoft í umræðunni. Þessi dómur sem vitnað er til er mjög umdeildur í þjóðfélaginu og ljóst er að menn eru alls ekkert sammála um hvað hann þýðir og hvernig ber að túlka hann. En túlkun hæstv. sjútvrh. og hæstv. ríkisstjórnar kemur fram í því frv. sem hér liggur fyrir og gengur út á það að Hæstiréttur telji að 5. gr. laganna um stjórn fiskveiða standist ekki ákvæði stjórnarskrár, en í þeirri grein er fjallað um veitingu veiðileyfa.

En aðrir, og þá fyrst og fremst þeir sem eru yfir höfuð andvígir því að stjórn fiskveiða eigi að vera með þeim hætti sem nú er og hefur verið, þeir túlka dóminn á annan hátt og telja að umbylta eigi lögum um stjórn fiskveiða og að 7. gr. þeirra laga varðandi úthlutun veiðiheimilda standist jafnframt ekki ákvæði stjórnarskrár.

Þeir sem eru ekki á sama máli og hæstv. ríkisstjórn halda því fram að dómurinn sé mjög skýr og að draga eigi mun víðtækari ályktanir af honum en kemur fram í frv. En það hefur vakið athygli mína að mjög margir lögfræðingar túlka dóminn út og suður. Ef dómurinn væri eins skýr og menn vilja meina þá væru varla svo miklar deilur milli lögmanna og fræðimanna um hvað hann þýðir.

Ég hef lýst því að ég er sammála þeirri túlkun sem fram kemur í þessu frv. hæstv. sjútvrh., að dómur Hæstaréttar fjalli fyrst og fremst og eingöngu um 5. gr. laganna.

Svo ég vitni eins og fleiri hv. þingmenn í dómsorð Hæstaréttar þá kemur þar m.a. fram að áfrýjandinn ber ekki brigður á að sjútvrn. hafi farið að lögum þegar það synjaði honum um hið umrædda leyfi, og hann telji á hinn bóginn að ákvæði 5. gr. laganna brjóti í bága við 65. og 75. gr. stjórnarskrárinnar. Þarna er sem sagt vitnað í það að áfrýjandinn er að fjalla um 5. gr. laganna.

Einnig kemur fram í niðurlagi dómsorðs Hæstaréttar, þar sem búið er að rekja forsendur dómsins, með leyfi forseta:

,,Með hliðsjón af framansögðu verður ekki talið, að sjávarútvegsráðuneytinu hafi verið rétt að hafna umsókn áfrýjanda um almennt og sérstakt veiðileyfi á þeim forsendum, sem lagðar voru til grundvallar í bréfi þess 10. desember 1996. Verður synjun ráðuneytisins því felld úr gildi. Hins vegar er ekki í þessu dómsmáli tekin afstaða til þess hvort ráðuneytinu hafi að svo búnu borið að verða við umsókn áfrýjanda, en málið er einungis höfðað til ógildingar á ákvörðun ráðuneytisins en ekki til viðurkenningar á rétti áfrýjanda til að fá tilteknar veiðiheimildir í sinn hlut.``

Um veiðiheimildir er fjallað í 7. gr. laganna um stjórn fiskveiða.

[21:00]

Sú túlkun á dómi Hæstaréttar, sem kemur fram í frv. sem hér liggur fyrir og gerir ráð fyrir að allir eigi rétt á að fá útgefið veiðileyfi að uppfylltum almennum skilyrðum, hlýtur að hafa áhrif á öðrum sviðum en í sjávarútvegi. Í umræðum um þessi mál hefur komið fram að menn hafa vitnað til leyfis til leigubílareksturs, til sérleyfis í fólksflutningum og einnig hefur verið nefnt til sögunnar námsréttur nema við háskólann, t.d. í læknadeild. Ég tel að dómur Hæstaréttar vísi mönnum til þess að um þessi atriði þurfi einnig að fjalla og út frá því efni, hvað varðar túlkun á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

Herra forseti. Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með umræðu um þessi mál að undanförnu. Mér hefur oft í gegnum tíðina fundist umræðan um sjávarútvegsmálin fara út um víðan völl, út og suður, en sjaldan hefur mér fundist það eins og nú eftir að dómur Hæstaréttar féll. En þeir sem af pólitískum ástæðum telja að dómurinn hafi þau áhrif að rústa skuli fiskveiðistjórnarkerfinu túlka dóminn á þann hátt, þ.e. varðandi 7. gr.

Það hefur m.a. verið athyglisvert að fylgjast með aðilum sem teljast hámenntaðir og starfa t.d. við Háskóla Íslands, hvernig þeir fjalla um þessi mál. Ég vil leyfa mér að segja að sumir þeirra aðila virðast svo blindaðir af pólitískum hvötum að þeir missa sjónar á faglegum forsendum, faglegum sjónarmiðum og það hefur borið við að menn hafa horft fram hjá staðreyndum og hafa rangfært hlutina og byggja málflutning sinn þannig á mjög óvönduðum forsendum.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fjalla sérstaklega um 7. gr., eins og ég hef hér nefnt. Ég tel hins vegar að það sé í góðu lagi ef Hæstiréttur mun fjalla um fleiri atriði er tengjast þessum lögum því að ég tel að það þurfi að fá úrskurð í ýmsum atriðum sem málið varða. Gera má ráð fyrir því að á næstunni muni verða ýmis mál fyrir Hæstarétti til að fjalla um þessi lög og út af fyrir sig er að mínu viti ekkert að því.

Ef sú staða kemur hins vegar upp, sem ég vona að verði ekki, að við stöndum hugsanlega frammi fyrir því að 7. gr. þessara laga standist ekki og gera þurfi á henni breytingar þá held ég að ljóst sé að þjóðin í heild sinni sé í miklum vanda og þá munu stjórnmálamenn vera í miklum vanda hvar í flokki sem þeir standa. Í huga mínum er staðreyndin sú að það gengur ekki upp fyrir þjóðarbúið, fyrir byggðina í landinu og fyrir þá sem stunda útgerð og sjómennsku, og ekki hvað síst fyrir þá sem eru í fiskiðnaði og í sölustarfsemi á íslenskum sjávarafurðum erlendis ef gerbylta þarf stjórn fiskveiða hér á landi. Hvað þá ef menn ætla að fara að bjóða upp veiðiheimildir á frjálsum markaði eins og hefur komið fram í málflutningi alþýðuflokksmanna að undanförnu. Við slíkar breytingar mundi margt breytast til verri vegar ef litið er til heildarhagsmuna.

Ef taka þyrfti upp sóknarkerfi, sem nefnt er, eða uppboð á veiðiheimildum tel ég ljóst að byggð í sjávarbyggðum víða um landið sé í enn meiri hættu en nú er og ekki er á bætandi. Það mundi þýða mikið óöryggi í greininni og ljóst er að neytendamarkaðir okkar erlendis mundu taka því illa. Arðsemi þjóðarinnar af þessari undirstöðuatvinnugrein mundi minnka til muna og það er hlutur sem við verðum að forðast.

Herra forseti. Við þekkjum þá umræðu sem verið hefur um sjávarútvegsmál að undanförnu. Við þekkjum þá ólgu sem hefur verið um ýmis mál er snerta sjávarútveginn. Ég tel að grunnurinn að þeim skiptu skoðunum og þeirri óánægju sem hefur komið fram hjá ýmsum varðandi þetta fiskveiðistjórnarkerfi sé runnin af rótum þess að einstakir aðilar hafa tekið sér fé út úr þessari grein þegar þeir eru að selja frá sér veiðiheimildir og hætta í útgerð. Það er mjög skiljanlegt að almenningi í landinu mislíki slíkt. En ég tel að þessum málum verði að mæta á skattalegum forsendum, þ.e. að á slíkri fjármunamyndun verði að taka með skattalegum aðgerðum. Ég tel hins vegar að þessi mál eigi ekki að valda því að við þurfum að taka þetta fiskveiðistjórnarkerfi og kollvarpa því.

Þjóðin lifir öðru fremur af sjávarútvegi, eins og við öll vitum, og afkoma greinarinnar ræður mestu um það hvernig þjóðin hefur það á hverjum tíma, og almennt góð staða í þjóðfélagi okkar endurspeglar góðan árangur í sjávarútvegi. Í því liggja hagsmunir heildarinnar, fjöldans. Menn verða að hugsa sinn gang mjög vel og vandlega áður en þeir leggja til í fúlustu alvöru að kollavarpa því stjórnkerfi sem við höfum í dag.

Herra forseti. Auðvitað má margt segja um þessi mál og við höfum rætt sjávarútvegsmál alloft í þinginu og það eru þau mál sem eru hvað mest rædd úti í þjóðfélaginu. En í huga mínum er ljóst að langflestir þeirra sem úti í þjóðfélaginu kalla hæst á uppstokkun á þessu fiskveiðistjórnarkerfi eru að hugsa um eigin hag og telja sér og öðrum trú um að fólk geti hagnast fjárhagslega á því að kollsteypa kerfinu og að veiðiheimildum verði úthlutað á annan hátt en nú hefur verið. Ég tel að fjölmargir þessara aðila séu ekki að hugsa um að fá í hendurnar veiðiheimildir til þess að róa til sjálfir fiskjar heldur séu þeir að gera sér vonir um að fá aura í vasann fyrir ekki neitt. Umræðan snýst því ekki nema að mjög takmörkuðu leyti um hagsmuni heildarinnar heldur um hagsmuni þeirra sem um tala.

Hvaða hugmyndir sem menn hafa um umbyltingu á fiskveiðistjórnarkerfinu verða menn að hafa í huga þann atvinnurétt sem þeir hafa öðlast sem hafa starfað í sjávarútvegi. Þau atvinnuréttindi eru meira að segja stjórnarskrárvarin að mínu viti. Það má benda á það að sá sem hefur starfað í útgerð og stundað sjómennsku árum saman hlýtur að hafa meiri rétt til nýtingar fiskstofnanna en sá sem hefur aldrei komið nálægt sjávarútvegi heldur starfað sem kennari í háskólanum eða sjoppueigandi í Vesturbænum, svo dæmi séu tekin. (Gripið fram í: Eða sem þingmaður?) Eða sem þingmaður, já, sem hefur aldrei migið í saltan sjó eins og þeir segja á bryggjunni. Í huga mínum er enginn vafi á þessu.

Það sem skiptir höfuðmáli í þessu er að auðlindin, sem eru fiskstofnarnir í hafinu, er takmörkuð auðlind, sem þýðir að við verðum að stjórna veiðum, við getum ekki talað um það að hér sé hægt að stunda óheftar veiðar ef við viljum vernda langtímahagsmuni okkar og halda áfram að lifa af sjávarútvegi og halda áfram að lifa á Íslandi. Þannig verðum við að stjórna fiskveiðum með takmörkunum og byggja fiskstofnana upp og nýta þá sjálfbært.

Hér eru auðvitað gífurlegir hagsmunir í húfi fyrir okkur öll og ekki síst fyrir afkomendur okkar. Ég hef aldrei haldið því fram að aflahlutdeildarkerfið, sem við höfum búið við, sé gallalaust og það hefur auðvitað komið fram í umræðunni að það er ekki eina leiðin sem menn þekkja. Auðvitað eru til fleiri leiðir. Hins vegar hafa verið færð mörg veigamikil rök fyrir því að þetta fiskveiðistjórnarkerfi hefur skilað þjóðinni miklum efnahagslegum ávinningi og þannig má segja að heildarhagsmunir fjöldans séu í húfi en ekki eiginhagsmunir fárra eins og áróðursfrasar kratanna hafa fjallað um.

Herra forseti. Mikilvægt er fyrir alla að eyða þeirri óvissu sem fyrst sem uppi er nú varðandi starfsumhverfi sjávarútvegsins. Hagsæld greinarinnar og þar með þjóðarinnar byggist að miklu leyti á öruggu starfsumhverfi sjávarútvegsins og að þeir sem í þeirri grein starfa geti vitað eitthvað fram í tímann hvernig eigi að skipuleggja starfsemi fyrirtækjanna í sjávarútveginum.

Það er einnig mjög mikilvægt fyrir þjóðfélag okkar að ná fram sem mestri sátt um starfsumhverfi sjávarútvegsins. Í því efni verða stjórnmálamenn að gæta þess í umræðunni að þyrla ekki upp moldviðri með frasakenndu tali þar sem m.a. er lögð áhersla á ómálefnaleg og óskilgreind hugtök eins og gjafakvóta, sægreifa og annað sem ég vil ekki nefna. Ég tel að stjórnmálaflokkarnir eigi að taka sig saman um það, og tek undir m.a. með hv. formanni sjútvn., Kristni H. Gunnarssyni, að mynda starfshóp til að fjalla um þessi mál á víðum grunni og móta tillögur um endurskoðun þessarar löggjafar. Ég held að það sé nauðsynlegt. Ég tel að við höfum þá fyrirmynd í þessu sem er m.a. sú auðlindanefnd sem var sett á laggirnar á síðasta þingi. Þar með væri fjallað um þessi mál á breiðum, pólitískum grunni og ég geri ráð fyrir því að á þann hátt mætti ná fram tiltölulegri sátt um leiðir framtíðarinnar í þessum efnum.

Herra forseti. Í umræðum í þingflokki framsóknarmanna um það frv. sem hér er til umræðu gerði ég nokkra fyrirvara við efni þess áður en það var lagt fram í þinginu. Þeir fyrirvarar sem ég bar upp snúa fyrst og fremst að starfsumhverfi smábáta. Ég hef eins og fleiri áhyggjur af því að ákvæði frv. eins og þau liggja fyrir geti valdið vanda í þeim útgerðarflokki og ekki síður í sjávarbyggðunum sem hafa byggt tilveru sína meira eða minna á útgerð smábáta. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að dómur Hæstaréttar kalli á að starfsumhverfi smábáta verði endurskipulagt vegna þess að ef gefin verða út leyfi út og suður, veiðileyfi á smábáta sem kunna að bætast við, og það liggja þegar fyrir á annað þúsund umsóknir um veiðileyfi, er það alveg sýnt að atvinnuréttur þeirra sem stunda smábátaútgerð á sóknardögum mun verða að engu ef ekki verður gripið í taumana.

Einnig tel ég að þær viðræður sem hæstv. sjútvrh. hafði átt við Landssamband smábátaeigenda í haust hafi farið í uppnám eftir að þessi dómur Hæstaréttar lá fyrir. Ég legg því áherslu á það, herra forseti, að í umfjöllun hv. sjútvn. um þetta frv. verði sérstaklega hugað að þessum atriðum og hugað verði að því hvort aðrar leiðir séu færar til þess að tryggja tilverurétt smábátaútgerðarinnar en komu fram í þessu frv. þar sem m.a. er gert ráð fyrir því að eftir að því fiskveiðiári lýkur sem nú stendur yfir fái sóknardagabátar flata úthlutun á 9 tonnum af þorski sem ég tel svona almennt séð að sé óviðunandi niðurstaða.

En að sjálfsögðu þarf að huga að mismunandi veiði krókabáta á sóknardögum í þessum efnum ef skoða á aðrar leiðir og einnig þarf að taka mið af þeim heimildum sem aflahámarkssmábátar hafa haft þannig að ekki skapist þar mismunun.

En ég vil líka leggja áherslu á það, herra forseti, að einn útgerðarflokkur hefur ekki verið mikið til umræðu en það eru minnstu aflamarksbátarnir sem ég tel að hafi farið illa út úr þróun mála síðustu árin og ég vil beina því til hv. sjútvn. að mál þeirra verði skoðuð sérstaklega í þeirri umræðu sem fer fram um þessi mál á næstunni.

Herra forseti. Í dag hefur verið fjallað um þetta frv. og fjölmargir hv. þingmenn hafa tekið til máls og lýst skoðunum sínum. Það hefur vakið athygli mína í þessari umræðu að fulltrúar jafnaðarmanna, þó fyrst og fremst Alþfl. --- ég veit ekki hvort ég á að kalla hann ,,sáluga``, hann er víst til enn þá --- hafa komið fram hver af öðrum og gagnrýnt málflutning hv. þingmanna stjórnarflokkanna og ríkisstjórnarinnar, gagnrýnt túlkun manna á dómi Hæstaréttar. En ég hef ekki orðið var við það að í umræðunni hafi komið fram tillögur um það ... (Gripið fram í: Þú hefur ekki hlustað nógu vel.) Ég hef hlustað á þessa umræðu í dag og ég hef ekki orðið var við að það hafi komið fram tillögur frá hv. þingmönnum jafnaðarmanna um hvernig á annan hátt á að mæta þessum dómi. Ég vænti þess hins vegar að tillögur komi fram síðar í umræðunni því að ég veit að hv. þingmenn jafnaðarmanna eiga eftir að tala meira við umræðuna og ég held að þingheimur bíði spenntur að heyra þær tillögur sem hv. þm. munu koma með til þess að mæta þeim aðstæðum sem uppi eru.

Fyrr í dag tók til máls hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir. Það vakti sérstaka athygli mína hvaða lausn hv. þm. hafði á þessum málum. Hún taldi að taka ætti löggjöfina um stjórn fiskveiða til gagngerrar endurskoðunar, til breytinga. En það sem var hvað athyglisverðast í máli hennar var það að hún taldi að það ætti alls ekki að hleypa stjórnmálamönnum að þeirri vinnu heldur ætti að fela Rannsóknarráði að koma með nýjar tillögur.

Mér finnst, herra forseti, mjög athyglisvert að heyra þingmann segja svona í umræðu. Mér finnst þetta mjög sérkennilegt. Ég held hins vegar að hv. þm. hafi kannski ekki endilega átt við að Rannsóknarráð ætti að koma með tillögurnar. Ég er nokkuð viss um að á bak við þetta lá það að Háskóli Íslands ætti að koma með tillögur að breyttu fiskveiðistjórnarkerfi. En svona er umræðan út og suður og ég vildi nefna þetta vegna þess að mér fannst þetta athyglisvert og hreint með ólíkindum að heyra þingmann á hv. Alþingi tala á þennan hátt.

Herra forseti. Hér er mikið mál á ferðinni, hér er mjög alvarlegt mál á ferðinni, sem við hv. þingmenn og löggjafinn verðum að fjalla vel og ítarlega um. Það er mjög mikilvægt að okkur takist vel til að ljúka umfjöllun og lögfestingu þess frv. sem liggur fyrir, hvort sem það mun verða nákvæmlega eins og það liggur fyrir í dag eða með einhverjum breytingum. Sú staða sem hefur komið upp eftir að Hæstiréttur felldi dóm sinn er að mínu viti grafalvarleg og það ríður mjög á að löggjafanum takist vel til við að leysa úr þeim málum.