Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 18. desember 1998, kl. 22:55:09 (2671)

1998-12-18 22:55:09# 123. lþ. 45.3 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, 344. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (grásleppuveiðar) frv., SighB (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 123. lþ.

[22:55]

Sighvatur Björgvinsson (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Fyrir síðustu helgi var rætt um mjög hliðstætt mál. Þá skýrði forseti frá því, hv. þm. Ólafur G. Einarsson sem sat í forsetastól, að öllum þingmönnum væri kunnugt um að vilji forseta væri sá að ekki væru haldnir nefndarfundir á sama tíma og þingfundir færu fram nema um það væri full sátt. Ég bið virðulegan forseta að láta fletta upp í umræðum frá þessum degi til þess að ganga úr skugga um að ég fer með rétt mál.

Ég spyr: Hefur hæstv. forseti breytt þessari afstöðu sinni? Hefur hann breytt þeirri venju sem verið hefur á Alþingi um margra ára skeið, að samkomulag sé um að ekki séu haldnir nefndarfundir á sama tíma og þingfundir standa yfir nema í fullri sátt við þá þingmenn sem verða þá að velja á milli þess hvort þeir sitja á nefndarfundum eða taka þátt í störfum Alþingis?

Herra forseti. Ég vil líka spyrja hvað valdi því að okkur þingmönnum var tjáð það fyrir miðjan dag í gær að samkomulag væri um fundarhaldið. Okkur var tjáð að samkomulag væri um að afgreiða þau mál sem ríkisstjórnin telur nauðsynlegt að afgreiða fyrir jól og koma síðan saman aftur þann 19. jan. til að takast á við afgreiðslu þess frv. sem nú er í umræðu. Hvað veldur því og hver réð því að þessu samkomulagi var hnekkt?

Ég spyr hæstv. forseta þar sem hér er til umræðu mjög afdrifaríkt mál og alvarlegt, sem nauðsynlegt er að sjútvn. hafi tíma til þess að skoða: Hvernig halda menn að afgreiðslan verði hjá nefndinni ef hún á að ljúka umfjöllun sinni og tillögugerð fyrir 2. umr. þann 5. jan. nk., þegar ekki verður séð að nefndin hafi nema í mesta lagi tvo til þrjá daga til þess að vinna í málinu, jafnvel þó að hún vinni í hléinu á milli jóla og nýárs?

Virðulegi forseti. Ég ítreka þessar spurningar mínar:

1. Hefur forseti breytt þeirri afstöðu sem kom fram hjá forseta í umræðum um þessi mál fyrir helgi?

2. Hver er ástæðan fyrir því að samkomulaginu sem vart var búið að gera og lá fyrir fyrir miðjan dag í gær var hnekkt? Hver réð því?

3. Finnst hæstv. forseta eðlilegt að þetta yfirgripsmikla mál sem nú er verið að ræða fái þá umfjöllun sem gert er ráð fyrir núna?