Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 18. desember 1998, kl. 22:59:33 (2673)

1998-12-18 22:59:33# 123. lþ. 45.3 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, 344. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (grásleppuveiðar) frv., HG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 123. lþ.

[22:59]

Hjörleifur Guttormsson (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Mér sýnist horfa heldur óvænlega með framhald þinghaldsins. Ég hélt að skapast hefði í gær sæmilegt samkomulag um það hvernig menn héldu hér á málum. Nú virðist það allt vera upp í loft og það er ekki farsælt, virðulegur forseti. Hitt er annað mál að ætli menn að halda áfram þinginu hér og þinga fram yfir áramót þá verða þingmenn að taka því, sé það er meining meiri hluta á Alþingi og meining forseta.

Varðandi boðun á nefndarfund, þá hef ég heyrt að til stæði að halda fund í umhvn. þingsins nú kl. 11. Ég óska eftir því, virðulegur forseti, að ekki verði af því fundarhaldi á meðan umræður standa hér yfir í þingsal. Eins og hæstv. forseti hefur nýlega rifjað upp liggur það fyrir af minni hálfu að ég hafna því að haldnir séu nefndarfundir. Ég lýsi því yfir að ég er ósamþykkur því sem nefndarmaður í umhvn. þingsins að settur verði á nefndarfundur meðan umræða stendur yfir hér.

Ég vil líka, virðulegur forseti, að fram komi að ég hefði haft áhuga á því að ræða um málið sem hér er á dagskrá. Ég hef hins vegar ekki skráð mig á mælendaskrá, m.a. vegna þess að ég hélt að ætlun manna væri að ná saman um þinghaldið til að ljúka því. Mér þykir mjög miður hvernig hér er haldið á málum. Ég held að allir átti sig á því, líka þeir sem skipa nú meiri hluta og hafa verið í minni hluta hér í þinginu fyrir ekki mjög löngu síðan, hversu óviturlegt er að standa að málum eins og hér er gert. Ég vænti þess að hæstv. forseti og forsn. þingsins nái áttum í sambandi við þessi mál og taki upp betri vinnubrögð. Mér hefur fundist ágætis viðleitni hér á undanförnum árum til að eiga gott samstarf við formenn þingflokka og ná sem breiðustu samkomulagi. Ég tek hins vegar eftir því að farið er að fenna yfir þessi góðu áform nú á þessu þingi. Mér þykir mjög miður ef núverandi hæstv. forsn., og sérstaklega aðalforseti þingsins, sem lagt hafði sig fram um það á liðnum þingum að hér skapaðist góður friður um þinghaldið, reynir ekki að gæta að sóma sínum í sambandi við framhaldið. Þeir ættu a.m.k. að halda svo á málum að ekki komi niður á þinginu og störfum þess, virðulegur forseti.