Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 18. desember 1998, kl. 23:49:00 (2677)

1998-12-18 23:49:00# 123. lþ. 45.3 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, 344. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (grásleppuveiðar) frv., SighB
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 123. lþ.

[23:49]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Umræður um þetta dagskrármál eru orðnar nokkuð langar en langt í frá er að nokkuð óeðlilegt sé við það því að þetta er mikið mál sem hefur verið til umfjöllunar og deilur hafa staðið um það í mörg ár. Hæstiréttur hefur úrskurðað um mörg þau deiluefni sem tekist hefur verið á um og það er nú ekki hægt að segja að sá úrskurður hafi fallið hæstv. sjútvrh. eða fyrirrennara hans, hæstv. núv. utanrrh., í vil nema síður sé.

Hæstv. sjútvrh. hefur m.a. sagt í ræðum hér og annars staðar að ef svo færi að einhverjar breytingar yrðu gerðar á því kerfi sem hann hefur verið ábyrgur fyrir, kerfi sem kennt var upphaflega við hæstv. utanrrh. Halldór Ásgrímsson en er nú orðið barn þeirra tveggja hæstv. ráðherra, ef einhverju yrði breytt í því kerfi þá væri um að ræða fjárhagslegt áfall fyrir byggðir landsins.

Hæstv. ráðherra talaði eins og hann geri sér ekki grein fyrir því að það kerfi sem við höfum búið við núna um margra ára skeið hefur leitt til alvarlegs fjárhagslegs áfalls fyrir fjölda einstaklinga og fjölda byggðarlaga. Hann talar eins og slíkt hafi ekki gerst, eins og núverandi stjórnkerfi eða öllu heldur framkvæmd þess hafi ekki skaðað nokkurn mann heldur bara valdið því að útgerðin hafi gengið betur, sjómennirnir fengið hærri hlut og þjóðarbúið rétt úr kútnum.

En það er ekki aldeilis svo að núverandi kerfi hafi ekki skaðað neinn. Þegar ég var að alast upp vestur á Patreksfirði fyrir nokkuð löngu síðan, löngu áður en til kom sú nýja tækni í fiskveiðum og fiskvinnslu sem nú er allsráðandi á Íslandi, þá voru menn að vinna þar í tveimur frystihúsum á staðnum, 12--13 þús. tonn á hverju einasta ári.

Sá kvóti sem eftir er á öllu suðursvæði Vestfjarða í dag er innan við 3 þús. tonn, ekki bara á þessum eina stað heldur öllum nálægum byggðarlögum frá Arnarfirði til Patreksfjarðar. Þetta er afleiðing af því stjórnkerfi sem við höfum búið við. Og láta menn sér til hugar koma að enginn hafi beðið fjárhagslegan skaða af þessu? Láta menn það sér til hugar koma að það sjáist ekki á afkomu sveitarfélaganna á þessu svæði? Láta menn það sér til hugar koma að það sjáist ekki á afkomu fólksins sem þarna býr, fólks sem verður að sæta því hlutskipti að sitja uppi því sem nær eignalaust vegna þess að húseignir þess sem það byggði upp á þeim árum þegar sjávarútvegur var stundaður þaðan með góðum árangri eru nú því sem næst verðlausar því enginn vill kaupa? Ætlar hæstv. sjútvrh. að halda því fram við þetta fólk að núverandi kerfi hafi engan skaðað fjárhagslega?

Hæstv. sjútvrh. hefur sagt að engar tillögur hafi komið frá stjórnarandstæðingum eða öðrum um breytingar á þessu kerfi. Það er rangt og hæstv. ráðherra veit það sjálfur. Hann veit að fyrir Alþingi liggja og hafa legið á undanförnum árum fjölmargar tillögur til breytinga, ekki á aflamarkskerfinu út af fyrir sig, heldur á framkvæmd þess, og það er einmitt framkvæmd aflamarkskerfisins en ekki kerfið sjálft sem Hæstiréttur hefur dæmt að ekki gangi saman við stjórnarskrá. Fjölmargar tillögur hafa legið hér fyrir um breytingu á þessari framkvæmd.

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson lagði fram slíkar tillögur á meðan hann var í Alþb. og áður en hann gekk kaupum og sölum yfir til Framsfl., við kristnitökuna hina nýju. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur lagt fram ýmsar brtt. við lög um stjórn fiskveiða. Við höfum gert það jafnaðarmenn. Meira að segja flokksmenn hæstv. sjútvrh., þeir hv. þm. Guðjón Guðmundsson og Guðmundur Hallvarðsson, hafa lagt fram á Alþingi breytingartillögur við mjög þýðingarmikla grein í fiskveiðistjórnarlögunum sem ganga út á að aflaheimildir verði ekki framseljanlegar fyrir peninga. Þannig að halda því fram, eins og hæstv. sjútvrh. hefur gert, að engar brtt. á þessu kerfi eða á framkvæmd þessa kerfis liggi fyrir á Alþingi er út í hött. Hann veit miklu betur.

Það vill auk þess svo til, herra forseti, að í gær var lögð fram á vegum Bandaríkjaþings mjög ítarleg úttekt um reynslu á kvótakerfum í sjávarútvegi þar sem fjölmargir fræðimenn sem hafa verið að vinna að því máli á undanförnum árum komu með úttektir og tillögur um hvernig framkvæmd á kvótakerfi gæti t.d. samrýmst þeim niðurstöðum um jafnræði þegnanna, jafnrétti og jafnan rétt til atvinnu, sem Hæstiréttur hefur nú notað sem forsendur fyrir úrskurði sínum. Og það vill svo til að í þessari nefnd sem starfaði á vegum Bandaríkjaþings, sérfræðinganefnd á vegum þingsins, eru tveir Íslendingar. Það eru því hæg heimatökin hjá okkur, sjútvrh. og öðrum, að skoða þessa ítarlegu umfjöllun þegar menn eru að reyna að átta sig á því hvaða breytingar sé eðlilegt og sanngjarnt að gera á framkvæmd aflamarkskerfisins eftir dóm Hæstaréttar.

Bandaríkjaþing fól Rannsóknarráði Bandaríkjanna að vinna ítarlega skýrslu um reynsluna af kvótakerfum. Í þessari nefnd voru skipaðir 15 einstaklingar úr ólíkum greinum og með ólík sjónarmið og hafa frá því haustið 1997 unnið að ítarlegri úttekt á reynslunni af kvótakerfum í sjávarútvegi. Nefndarmennirnir eru að vísu einkum bandarískir fræðimenn úr ýmsum greinum, hagfræðingar, lögfræðingar, stjórnmálafræðingar, mannfræðingar, líffræðingar og framkvæmdastjóri stórfyrirtækis. En þrír erlendir fræðimenn voru valdir til setu í nefndinni vegna sérþekkingar sinnar og þar af voru tveir Íslendingar, dr. Gylfi Pálsson, prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands, og Rögnvaldur Hannesson, prófessor í hagfræði við norska viðskiptaháskólann í Bergen.

Þessir aðilar hafa skilað skýrslu sem er á sjöunda hundrað bls. Og í viðtali við dr. Gísla Pálsson í Morgunblaðinu í dag skýrir hann frá ýmsum helstu niðurstöðum af þessari úttekt.

Í dómi Hæstaréttar segir m.a., herra forseti, orðrétt:

,,Eins og áður getur taldi löggjafinn brýnt að grípa til sérstakra úrræða á árinu 1983 vegna þverrandi fiskstofna við Ísland. Var skipting hámarksafla þá felld í þann farveg, sem hún hefur síðan verið í, að úthlutun veiðiheimilda yrði bundin við skip. Er óhjákvæmilegt að líta svo á, að þessi tilhögun feli í sér mismunun milli þeirra, sem leiða rétt sinn til veiðiheimilda til eignarhalds á skipum á tilteknum tíma, og hinna, sem hafa ekki átt og eiga þess ekki kost að komast í slíka aðstöðu. Þótt tímabundnar aðgerðir af þessu tagi til varnar hruni fiskstofna kunni að hafa verið réttlætanlegar, ... verður ekki séð, að rökbundin nauðsyn hnígi til þess að lögbinda um ókomna tíð þá mismunun, sem leiðir af reglu 5. gr. laga nr. 38/1990, um úthlutun veiðiheimilda.``

Með öðrum orðum segir Hæstiréttur í forsendum að dómi sínum að það sé í fyllsta máta óeðlilegt og brot á tveimur greinum stjórnarskrár og 1. mgr. 1. gr. laga um stjórn fiskveiða um sameign landsmanna á þessari auðlind, að festa til frambúðar það kerfi að aðeins geti notið aflaheimilda þeir útgerðarmenn sem áttu skip sem veiðar stunduðu fyrir 18 árum. Það sé óheimilt og óeðlilegt.

Þegar umræðan fór fram árið 1983, þegar kvótakerfið var upphaflega sett á, voru þessi mál einmitt til umræðu. Þá var til umræðu hvort rétt væri að gera ráð fyrir því að veiðreynsla hafi aðeins skapast fyrir tilverknað eigenda skipa. Hvað um sjómennina sem voru um borð í skipunum? Áttu þeir ekki sinn hlut í því að skapa veiðireynslu þessara ára, jafnvel umfram þá sem aldrei stigu inn fyrir borðstokk skipanna, þó þeir ættu þau? Og hvað um fiskverkafólkið, virðulegi forseti, sem margt á þeim tíma vann bæði nætur og daga, helgar jafnt sem virka daga ... (Forseti hringir.) Er tíminn búinn? ... helgar jafnt sem virka daga til þess að skapa veiðireynslu en kvótanum var síðan úthlutað á grundvelli hennar.

Ég er með bréf frá einum af þessum sjómönnum sem hefur stundað sjómennsku og skipstjórn síðan hann var 17 ára gamall. Nú 30 árum síðar hefur hann nánast engan veiðirétt, þarf að kaupa allar sínar aflaheimildir dýrum dómum af þeim einstaklingum sem fengu þessar aflaheimildir fyrir ekki neitt, og getur nú varla rekið sitt skip eðlilega.

Í skýrslu þeirri sem dr. Gísli Pálsson greinir frá í Morgunblaðinu er einmitt fjallað um þessi atriði, (Forseti hringir.) virðulegi forseti, og sagt að full ástæða sé til --- og það er niðurstaða skýrslunnar --- að úthlutun aflaheimilda sem byggist á veiðireynslu taki mið af hagsmunum sjómannanna sem veiðireynsluna sköpuðu ekkert síður en útgerðarmannanna sem eiga í skipum. Skyldi það ekki skipta máli, virðulegi forseti? Öflugasta sjávarútvegsfyrirtæki á Íslandi í dag varð þannig til að skipstjórnarmanni var úthlutað kvóta, úthlutað veiðireynslu sem hann hefur síðan byggt á. (Forseti hringir.) Það eru því margar tillögur til um það hvernig hægt er að bregðast við dómi Hæstaréttar með þeim sanngjarna hætti að auðlind fjöldans skuli ekki skipt upp á milli örfárra einstaklinga.