Almannatryggingar

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 10:38:43 (2704)

1998-12-19 10:38:43# 123. lþ. 46.13 fundur 365. mál: #A almannatryggingar# frv. 149/1998, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 123. lþ.

[10:38]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég tek alveg undir það með hæstv. ráðherra að hér er verið að stíga skref í rétta átt. Engu að síður er verið að óska eftir því að þingið staðfesti mannréttindabrot með þessari lagasetningu. Til að milda það og koma í veg fyrir það er hægt að setja ákvæði til bráðabirgða í lög um að þessi skerðing verði að fullu felld niður eftir ár.

Ég held að það megi tína margt til ef aldrei má binda hendur komandi ríkisstjórna. Hægt er að tína til ýmis lög og ákvæði sem þessi ríkisstjórn hefur staðið fyrir sem binda hendur næstu ríkisstjórna. Og ef ekki er hægt að gera það í málefnum öryrkja, þá hvað?

Þess vegna ítreka ég, herra forseti, að það væri mjög til sátta í þessu máli ef hæstv. ráðherra væri tilbúin að skoða þessa leið. Það er útgjaldalaust fyrir fjárlögin á næsta ári að setja inn slíkt ákvæði en væri til sátta í málinu. Því ítreka ég það, herra forseti, til þess að greiða fyrir málinu, að hæstv. ráðherra gefi þessa yfirlýsingu úr þessum ræðustól.