Almannatryggingar

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 10:40:29 (2706)

1998-12-19 10:40:29# 123. lþ. 46.13 fundur 365. mál: #A almannatryggingar# frv. 149/1998, BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 123. lþ.

[10:40]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að mótmæla því að hér sé verið að stíga eitt mesta framfaraspor á sviði almannatrygginga í 60 ár. Ég tel ansi djúpt í árinni tekið með þessari fullyrðingu, herra forseti, og vil benda á það að t.d. var það fyrsta verk vinstri stjórnarinnar árið 1971 að taka upp tekjutryggingu og hækka lágmarkið úr 4.900 kr. á mánuði í 7.900 kr. Þetta var gert í tíð Magnúsar Kjartanssonar og ég tel að það hafi ótvírætt verið stærra framfaraspor en það sem hér er verið að stíga.

Hæstv. ráðherra telur skerðingu bóta vegna tekna maka standast en telur hins vegar að nauðsynlegt sé að festa þetta í sessi í lögum. Ég vil mótmæla því og taka undir athugasemdir sem hér hafa komið fram um þetta. Þó að umboðsmaður Alþingis segi að nauðsynlegt sé að skýra lagastoðina, þá held ég að algjör óþarfi sé að gera það á þann hátt sem hér er gert, þ.e. að festa misréttið algjörlega í lögum. Og ég spyr hæstv. ráðherra: Var nauðsynlegt að ganga svo langt að gera þetta svona? Var ekki fært að fara aðrar leiðir, festa lagastoðina öðruvísi en að taka almennar kerfisbreytingar beint inn í lagatextann?