Fjáraukalög 1998

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 11:37:36 (2718)

1998-12-19 11:37:36# 123. lþ. 46.14 fundur 173. mál: #A fjáraukalög 1998# frv. 162/1998, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 123. lþ.

[11:37]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. 8. þm. Reykn., Sigríði Jóhannesdóttur, fyrir ræðu hennar. Í ræðunni voru reyndar svo margir punktar sem ég hef athugasemdir við að ég þyrfti svona tíu andsvör til að svara þeim.

Hún ræddi um vandræði ungs fólks sem skuldar mikið. Enginn er fæddur með skuldir og ákveðin atriði eins og vaxtabætur t.d. hvetja menn til skulda. (Gripið fram í: Það eru ... ) Telur hv. þm. að það sé til bóta fyrir þetta fólk að hækka á því skatta? Hún lagði til að gott væri fyrir sveitarfélögin að hækka skattana. Þegar reksturinn væri svo slæmur að endar næðu ekki saman í sveitarfélögunum, þá ætti bara að hækka skattana. Telur hv. þm. að það sé til bóta fyrir þetta fólk að skattleggja fyrirtækið sem það vinnur hjá svo það geti ekki borgað almennileg laun eða jafnvel leggist niður? Telur hv. þm. að það sé gott að skattleggja hagnað fyrirtækisins þannig að enginn vilji leggja peninga í atvinnulíf, þannig að þetta fólk verði atvinnulaust? Ég spyr.

Hv. þm. virðist líta þannig á að fyrst ákveði maður útgjöldin eins og sveitarfélögin, kaupa íþróttahús o.s.frv., og svo eigi að mæta útgjöldum með auknum tekjum. Einstaklingar eiga að gera þetta líka. Þeir eigi að kaupa sér bíl og hús og fara í ferðalög og svo eiga tekjurnar að mæta þessu.

Í gamla daga lærði ég það að þegar bóndi setur fé á vetur, þá þarf hann hey. Engum bónda dettur í hug um miðjan vetur, þegar hann hefur sett of margt fé á, að heimta meira hey.