Fjáraukalög 1998

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 11:44:09 (2722)

1998-12-19 11:44:09# 123. lþ. 46.14 fundur 173. mál: #A fjáraukalög 1998# frv. 162/1998, GE
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 123. lþ.

[11:44]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Ræða mín verður það stutt að hún hefði ugglaust getað komist fyrir í andsvari ef ég hefði valið þá leið, svona nánast því a.m.k. Ég má til með að koma upp út af þeirri umræðu sem hér fór fram áðan og út af orðaskiptum hv. þm. Sigríðar Jóhannesdóttur og Péturs H. Blöndals. Hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði að enginn fæddist með skuldir. Ég hélt, herra forseti, að hv. þm. gerði sér staðreyndir betur ljósar en þetta. Hver einn og einasti Íslendingur sem fæðist, fæðist með skuldir vegna stöðu ríkissjóðs. Þetta veit ég að þingmaðurinn samþykkir eins og skot, enda nikkar hann til mín. Við erum sífellt að skuldbinda ófædd börn með aðgerðum okkar.

[11:45]

Ég vil í upphafi ræðunnar lýsa ánægju minni með að frv. sem við erum að ræða hér, fjáraukalagafrv., er til afgreiðslu áður en fjárlög 1999 koma til lokaumræðu. Sú breyting er tengd lögum um fjárreiður og það er vel. Ég og fleiri hafa lýst vilja sínum til að vinna þetta nákvæmlega svona. En þó hygg ég, herra forseti, að þegar dæmið verður endanlega gert upp þá komi í ljós að ekki sé einvörðungu um að ræða 5 milljarða halla á fjárlögum fyrir árið 1998, í stað 133 millj. kr. afgangs eða tekjujöfnunar í plús eins og fagmenn kalla það, heldur verði hallinn 8--10 milljarðar þegar ríkisreikningurinn verður lagður fram, væntanlega einhvern tímann á vordögum. Ýmsir segja: Það skiptir nú engu máli. Það eru bara lífeyrisskuldbindingar sem valda því. En þetta eru allt fjármunir sem við erum að festa, nákvæmlega eins og ég lýsti áðan. Í lífeyrisskuldbindingunum felast ákveðnar skuldbindingar til framtíðar. Ég veit að hæstv. ríkisstjórn mun ekki eiga auðvelt með að kyngja því að dæmið sé svona en þetta eru samt staðreyndir.

Ég hef áður sagt að allar fyrirliggjandi staðreyndir við fjárlagagerð eigi að koma inn í fjárlagagerðina. Þar vísa ég til þess að vitað var og minni hlutinn benti á við fjárlagagerðina fyrir 1998 að útgjöld væru vanreiknuð upp á 1,2 milljarða vegna sjúkrahúsanna eða Sjúkrahúss Reykjavíkur og Ríkisspítalanna. Það liggur ljóst fyrir að nú er komið til móts við þær tillögur með fjáraukalögum upp á 500 millj. Það hefði verið miklu eðlilegra að setja þetta inn í dæmið nákvæmlega þegar okkur var ljóst hver fjárþörfin var. Það hefði verið mikið eðlilegra að taka þau útgjaldatilefni og hafa með fjárlögunum en að vinna eins og unnið var, aðeins til að þurfa ekki að stilla fjárlögum upp með halla. Þá hefði verið nær að fara að tillögu minni hlutans sem lagði á þeim tíma til hækkun á tryggingagjaldi til þess að mæta þeim fyrirsjáanlega halla sem yrði á fjárlögum.

Herra forseti. Ég hef, sem fulltrúi í fjárln., sífellt sagt að ráðuneytin hafi ónóga yfirsýn yfir útgjöld. Rétt í lokin vil ég því gera eftirfarandi orð Ríkisendurskoðunar að mínum, með leyfi forseta:

,,Stjórnendur þurfa reglulega að ganga úr skugga um að reksturinn skili þeim árangri sem að er stefnt. Í því skyni þurfa þeir að bera raunverulegan árangur saman við fjárlög, fyrri áætlanir og árangur.``

Þetta hef ég sagt þau fjögur ár sem ég hef verið í fjárlaganefnd. Þetta er það sem á skortir í fjármunastjórn hæstv. ríkisstjórnar. Ég get ekki lokið máli mínu öðruvísi en nefna málið sem fyrst var á dagskrá í morgun, þ.e. frv. til laga um stuðning við þær breytingar sem fyrirhugaðar eru vegna tekjutenginga öryrkja og aldraðra. Ekki er hægt annað en fagna því að þetta frv. skuli liggja fyrir. Hins vegar vantar mikið á að mætt sé þeirri þörf sem fyrir liggur hjá þeim sem byggja afkomu sína á skömmtun örorkubóta og ellilífeyrisgreiðslna.

Ég get ekki látið hjá líða að nefna að um 1.400 öryrkjar, einstaklingar, eru í sárri neyð. Ef menn vildu fylgjast með þá þyrfti ekki annað en fara og líta á húsnæði mæðrastyrksnefndar þar sem eru langar biðraðir fólks að leita aðstoðar. Þar eru ekki aðeins öryrkjar heldur einnig einstæðar mæður og fólk sem á í vandamálum. Það er ekki auðvelt að standa í biðröð eftir örlítilli hjálp.

Ég er ekki sáttur við niðurstöðuna úr þessum ráðstöfunum. Við fjáraukalagagerðina lagði minni hlutinn til að greiddar yrðu 148 millj. vegna þess mismunar sem er á meðaltalslaunavísitölu og þeirra bóta sem þetta fólk hefur fengið. Ekki hefur verið orðið við því og það er miður. Það hefði sannarlega átt að vera búið að greiða til þeirra vegna ársins 1998. Við fjárlagagerðina munum við því leggja til að þessu fólki verði greidd 401 millj. sem er nákvæmlega sú leiðrétting sem ætti að vera, miðað við meðaltalslaunavísitölu. Það er mismunurinn á þeim 75 millj. kr. sem fólkið fær greiddar í fjárlögum ársins 1999 og þeirra 478 millj. sem hefði átt að greiða.

Herra forseti. Ég er auðvitað að ræða dálítið um fjárlögin sem verða til umræðu á eftir. Ég sagði í upphafi að ég ætlaði að vera stuttorður. Ég tel mig hafa staðið við það og lýk hér máli mínu.