Fjárlög 1999

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 12:50:44 (2724)

1998-12-19 12:50:44# 123. lþ. 46.15 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 123. lþ.

[12:50]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Gjarnan hefði ég viljað sjá meiri afgang á þessum tímum góðæris og eyðslu bæði einstaklinga og sveitarfélaga 10--20 milljarða. En það varð ekki niðurstaða hv. fjárln. Ég bendi líka á uggvænlegan vöxt erlendra skulda. Þær vaxa um 140 millj. á hverjum vinnudegi. Sumir kynnu að draga þá ályktun að þjóðin ætli að hætta að vinna. Skuldirnar eru nú komnar upp í 1,1 millj. á hvern íbúa.

Þakka ber að ekki skuli lengur vera halli á ríkissjóði og að atvinnuleysi skuli vera lítið. Lántaka ríkissjóðs er minni þannig að hér er ýmislegt gott þó einnig séu áðurnefndir gallar.

Herra forseti. Ég er með spurningu til hv. formanns fjárln. Á lið 205 er tillaga um 70 millj. kr. fjárveitingu til framkvæmda á Alþingisreit þar sem heildarkostnaður er 400 millj. Ég hef einhvern tíma heyrt að heildarkostnaðurinn við allt dæmið sé 5.000 millj. Getur hv. þm. upplýst mig um það?

Þá er á bls. 3 skrýtinn liður, 891 Sérstakar greiðslur í landbúnaði. Gerð er tillaga um 7,5 millj. kr. tímabundna fjárveitingu til að kosta slátrun á 1.600 hrossum og sporna þannig við ofbeit. Þetta eru 5.000 kr. hross. Hvað er þetta?