Fjárlög 1999

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 15:08:50 (2740)

1998-12-19 15:08:50# 123. lþ. 46.15 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 123. lþ.

[15:08]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta var um margt merkileg ræða og væri ágætt að hv. þm. héldi þessa ræðu t.d. yfir þeim fjölmörgu Íslendingum sem hafa trú á einkavæðingaraðgerðum ríkisstjórnarinnar (ÖJ: Á aðalfundi Sjóvár?) og kemur fram í miklum áhuga á kaupum hlutabréfa t.d. í bönkunum.

Þingmaðurinn reyndi að draga upp ranga mynd af stöðunni með því að segja að heildarskuldir þjóðarinnar væru að aukast. (Gripið fram í.) Það er nauðsynlegt að fara yfir þetta. Við erum að fjalla um ríkisfjármálin. Staðreyndin er sú að skuldir ríkisins eru að lækka. Þær hafa lækkað á þessu ári og þær munu lækka á næsta ári, samtals á þessum tveimur árum um á fjórða tug milljarða. Þetta skiptir miklu máli upp á framtíðina að gera. (Forseti hringir.) Hins vegar er alveg hárrétt að atvinnulífið hefur ekki getað greitt út í hönd allar þær fjárfestingarvörur sem það er að leggja í til að byggja upp afkastagetu sína. (ÖJ: En sveitarfélögin?) (Forseti hringir.) Sveitarfélögin, t.d. höfuðborgin hefur aukið skuldir sínar en hefur marga möguleika til að bæta stöðuna.