Fjárlög 1999

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 15:20:33 (2749)

1998-12-19 15:20:33# 123. lþ. 46.15 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 123. lþ.

[15:20]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég sagði ekki að hv. þm. hefði verið að veitast að hæstv. menntmrh. Ég sagði að hann hefði sett ofan í við hann og minnt hann á að Alþingi fari með fjárveitingavaldið og það er rétt.

Hins vegar vil ég minna hv. þm. á það að viðskiptahallinn á þessu ári verður 35 milljarðar og 30 milljarðar á næsta ári. Þetta eru 65 milljarðar á tveimur árum. Þetta er Íslandsmet. Erlendar skuldir Íslendinga munu hækka á næsta ári um 12 milljarða og hækka líka sem hlutfall af landsframleiðslu. Allar nágrannaþjóðir okkar eru að endurmeta hagvaxtarspár sínar til lækkunar. Hvað gerir íslenska ríkisstjórnin? Hún spáir aukningu hagvaxtar á næsta ári miðað við fyrri áætlanir. Þetta er loddaraleikur, tekjuáætlun ríkisstjórnarinnar við 3. umr. fjárlaga.

Ég vil að lokum, herra forseti, benda á eina mjög athyglisverða staðreynd í fjárlagafrv. ríkisstjórnarinnar. Tekjuskattur einstaklinga mun hækka um 12% á næsta ári. Tekjuskattur fyrirtækja mun hækka um 7%. Það sést skýrt á þessu hvaða hagsmuni hæstv. ríkisstjórn er að verja.