Fjárlög 1999

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 15:21:46 (2750)

1998-12-19 15:21:46# 123. lþ. 46.15 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 123. lþ.

[15:21]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef oft bent á það áður að ríkar ástæður eru fyrir því að heildarskuldir íslensku þjóðarinnar, þ.e. einstaklinga, fyrirtækja og ríkisins aukist vegna þess að verið er að fjárfesta og aðallega er verið að fjárfesta fyrir atvinnustarfsemina. Bent hefur verið á að á samdráttartíð áður hafði atvinnulífið dregið alla fjárfestingu mjög mikið saman og þess vegna var uppsafnaður vandi innan atvinnulífsins sem nú þegar hagur batnar brýst auðvitað út í því að það er fjárfest og keypt eru til landsins margs konar tól og tæki og taka þarf lán fyrir hluta þess.

Þetta er að hluta skýringin og ég vænti þess að hv. þm. sé þetta fullkomlega ljóst.

Hvað varðar, hæstv. forseti, þær athugasemdir um að hér sé hagvöxtur en ekki annars staðar, þá er það kannski bara vegna þess að stjórnarfarið á Íslandi er með öðrum hætti en þar sem kratarnir fara með völd í nágrannalöndum okkar.