Fjárlög 1999

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 15:23:51 (2751)

1998-12-19 15:23:51# 123. lþ. 46.15 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, KH
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 123. lþ.

[15:23]

Frsm. minni hluta fjárln. (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Hv. varaformaður fjárln. talaði nokkuð um málefnafátækt stjórnarandstöðunnar. Það er út af fyrir sig rétt hjá honum að það er kannski færra sem við höfum ástæðu til að gagnrýna nú en oft áður sem stafar auðvitað af breyttum aðstæðum og svo hinu að nú hefur meiri hlutinn tekið tillit til ýmissa ábendinga frá minni hlutanum og gert tillögur okkar sem við höfum áður flutt að sínum, enda hafa þeir þakkað mjög í ræðum sínum fyrir gott samstarf við minni hlutann. Ég vil gera hið sama og þakka kærlega fyrir gott samstarf við meiri hlutann. Það breytir hins vegar ekki því að við höfum ýmislegt enn þá við þetta heildardæmi að athuga og höfum gert það hingað til og eigum eftir að gera það áfram.

Ég ætla hins vegar ekki að hafa langt mál við umræðuna. Talsmaður okkar í minni hlutanum hefur komið sjónarmiðum okkar prýðilega á framfæri og ég þarf ekki miklu við það að bæta.

Við stöndum frammi fyrir dæmi sem búast má við að eigi eftir að breytast nokkuð í upphæðum eins og reyndar venjulega þó þær verði kannski ekki háar í hlutfalli við sjálft heildardæmið. En það hefur verið nokkuð athyglisvert að fylgjast með umfjöllun og störfum í hv. fjárln. án þess að ég ætli að fara að lýsa því með ljóðalestri. Þar hefur ríkt jólaskap og svona eins konar ,,allir fá þá eitthvað fallegt`` andrúmsloft. Ég man satt að segja ekki eftir ástandi sem þessu en því ræður að sjálfsögðu fyrst og fremst tvennt, þ.e. ytri aðstæður sem eru óvenjuhagstæðar og má fyrst og fremst þakka hagstæðu verðlagi sjávarafurða og hagstæðu olíuverði. Auk þess hafa ráðstöfunartekjur einstaklinga óneitanlega aukist sem betur fer og var tími til kominn og það skilar sér auðvitað í meiri veltu og hærri tekjum í ríkissjóð. Þannig er núna úr meiru að spila sem kemur sér auðvitað harla vel fyrir ýmsa í aðdraganda kosninga.

Ég hlýt þó enn einu sinni að lýsa áhyggjum vegna fjárhagsstöðu stóru sjúkrahúsanna í Reykjavík sem við í minni hlutanum höfum ítrekað reynt að fá bætta og vissulega orðið nokkuð ágengt. Staða þessara mikilvægu þjónustustofnana er nú betri en í því ömurlega ástandi sem ríkti t.d. við afgreiðslu fjárlaga ársins í ár og nú er kannski að skapast nýr grundvöllur með auknum samrekstri sem færir þessum stofnunum aukna möguleika til hagræðingar og færi á nýjungum. En ástand undanfarinna ára hefur verulega þrengt að æskilegri þróun á þessu sviði. Að mínu mati er einmitt nauðsynlegt með tilliti til slíkra breytinga að þessum stofnunum sé gert kleift að mæta til þess leiks með hreint borð. Þær hafa nógu lengi verið í spennitreyju ónógra fjárveitinga og þurfa að fá færi til betri möguleika og þróunar þjónustu. Jólaskap þeirra félaga í meiri hlutanum hefði mátt skila sér í tillögum af þessu tagi. En það varð ekki og niðurstaða minni hluta fjárln. varð því sú að flytja enn einu sinni tillögur um aukið fé til þessara stofnana, 300 millj. kr. til hvors sjúkrahúss til þess að ráðast að þeim rekstrarhalla sem þau eiga enn við að glíma þrátt fyrir framlög í fjáraukalögum sem væntanlega verða samþykkt hér á eftir. Sá vandi mun augljóslega aukast á næsta ári miðað við óbreytt umfang, hvað þá ef spítalarnir eiga að geta brugðist við auknum kröfum vegna nýrrar tækni og möguleika á því að stunda lækningar í framhaldi af því.

Þegar ég mælti fyrir nál. minni hlutans við 2. umr. ræddi ég það nokkuð sem við blasir, t.d. að allt of langir biðlistar eru eftir aðgerðum. Ég var með í höndunum lista yfir það og t.d. í október sl. voru nær 3 þúsund manns á biðlistum eftir aðgerð á Ríkisspítölunum. Ekki þarf að fara mörgum orðum um þá óvissu og þjáningar sem sjúklingar og aðstandendur þeirra eiga við að búa þegar svona stendur á, að vegna fjárhagsörðugleika sé ekki hægt að lina þjáningar þeirra og fara í þær aðgerðir sem nauðsynlegar eru. Í raun er auðvitað verið að kasta krónunni en spara eyrinn með því að gera þeim stofnunum ekki kleift að stytta þessa biðlista. Ég vona að tekið verði tillit til þessara tillagna minni hlutans því að það mundi breyta mjög miklu í þeirri stöðu sem spítalarnir búa nú við og ljóst er að hallinn í lok næsta árs mun nema u.þ.b. 1 milljarði kr. ef ekki verður að gert miðað við óbreyttan rekstur sjúkrahúsanna. Þess vegna er í rauninni algert lágmark að samþykkja tillögur minni hlutans um 600 millj. kr. til þessara spítala, bæði til að draga úr þessum halla og gera þeim kleift að mæta nýjum aðstæðum í rekstri. Ekki meira um það.

[15:30]

Ég hlýt þó enn einu sinni að minna á að mjög mikill vandi er á ferðum vegna ónógs viðhalds heilbrigðisstofnana og brýnt að ráðast í það verk að gera áætlun um t.d. 4--8 ára viðhald og viðgerðir á stofnunum í heilbrigðiskerfinu. Það er enn ein aðferðin til að kasta krónunni að taka ekki á þeim vanda sem allra fyrst vegna þess að viðgerðir og viðhald verður þeim mun kostnaðarsamara því lengur sem dregið er að ráðast í það.

Minni hlutinn hefur einnig haldið uppi mikilli gagnrýni vegna ónógra framlaga til málefna fatlaðra. Ástandið í þeim efnum er algerlega óviðunandi og við höfum átalið það harðlega að lögboðinn tekjustofn til Framkvæmdasjóðs fatlaðra hefur árum saman verið skorinn niður og auk þess tekinn að hluta til rekstrar. Það er þvert á tilgang sjóðsins samkvæmt lögum. Nú í ár er sjóðurinn skorinn niður um helming. Tillaga minni hlutans um að sjóðurinn fái allt það fé sem honum ber lögum samkvæmt var felld við 2. umr. Meiri hlutinn felldi þá tillögu og ég harma það vegna þess að full þörf er fyrir allt það fé sem sjóðnum ber, þ.e. tekjur af erfðafjárskatti, til að vinna að þeim verkefnum sem sjóðnum ber að leggja fé til.

Hins vegar ber að geta þess að nú er loksins hafin markviss vinna í því efni að bæta við úrræðum í þessum málaflokki og skapa skilyrði til þess að unnt sé að standa við lög og búa fötluðum þau skilyrði til búsetu og betra lífs sem þeim ber. Sérstaklega þarf að taka verulega á í þessu efni í Reykjavík og á Reykjanesi þar sem ástandið er gersamlega óviðunandi. Þar bíða hundruð einstaklinga eftir þjónustu og er löngu mál til komið að taka verulega á í því efni. Nú er sem sagt ætlunin, og mátti þó fyrr vera, að vinna eftir markvissri áætlun að uppbyggingu þjónustu þar sem þörfin er mest. Þess sér vissulega stað í brtt. meiri hlutans sem við styðjum að sjálfsögðu þótt við teljum að ástæða hefði verið til að ganga lengra. En ég legg áherslu á að áætlunum verði fylgt fast eftir í þessu efni og hvergi slegið af því að núverandi ástand er til háborinnar skammar í þjóðfélagi sem vill kenna sig við velferð.

Herra forseti. Margar af brtt. meiri hlutans eru þarfar og góðar. Við styðjum þær allflestar og höfum tekið þátt í að móta þær þótt enn sem fyrr sé aðeins meiri hlutinn skrifaður fyrir þeim. Ég ræddi það nokkuð við 2. umr. að eðlilegra væri að setja brtt. nefndarinnar fram á þann hátt að fram kæmi á þskj. hvaða tillögur eru lagðar fram í fullu samkomulagi en það sé bara skrifað á meiri hluta nefndarinnar. Ég ítreka þá skoðun mína að taka beri það upp aftur, sem áður var venjan, að skipta tillögunum í tvennt þannig að ljóst væri hvaða tillögum minni hlutinn stendur að með meiri hlutanum. Þetta er í rauninni ranglega fram sett.

Aðrar tillögur eru svolítið sérkennilegar og tengjast gjafmildi annarra en nefndarmanna í fjárln. Það vill nú oft svo til að böggull fylgir skammrifi og þannig virðist vera með gjafir frænda vorra Norðmanna sem stundum eru að gauka að okkur einu og öðru. Í brtt. meiri hlutans kemur fram að þessi gjafmildi kostar okkur tugi milljóna króna. Stafkirkjan sem á að koma upp í Vestmannaeyjum kostar okkur í raun um 35 millj. kr. Þar af eru lagðar til 20 millj. á næsta ári. Þá er lagt til að 12 millj. kr. verði varið til þess að koma upp Auðunarstofu að Hólum í Hjaltadal en Norðmenn gefa í hana timbrið. Ég man ekki nákvæmlega hversu margar milljónir það eru sem áætlað er að þurfi til að smíða úr timbrinnu þá frægu Auðunarstofu en mig minnir að það sé u.þ.b. helmingurinn sem á að fara í þetta á næsta ári. Svona ganga hlutirnir til. Norðmenn gefa og gefa þeir enn, varð einhverjum að orði í fjárln. þegar þetta var upplýst og einhverjum datt líka í hug hvort við ættum ekki að fara að gauka einhverju að Norðmönnum svo þeir þyrftu líka að fara að leggja til fé vegna viðtöku gjafa.

Ég bendi á einn lið sem mér er a.m.k. mjög umhugsunarverður og það er liður 06-397 Schengen-samstarf. Í frv. eru 14 millj. kr. ætlaðar til reksturs vegna þessa Schengen-samstarfs og 10 millj. til tækja og búnaðar. En í brtt. er lagt til að við bætist 72,2 millj. kr. til tækja og búnaðar og virðist enginn endir á því hvað þetta samstarf á að gleypa. Ég hef áður gagnrýnt það. Búið er að leggja tugi milljóna til þessa samstarfs sem er ekki komið á og verða sjálfsagt margar milljónirnar áður en því lýkur. Ég hef, herra forseti, verulegar efasemdir um málið og tel raunar að kostnaður vegna þess og umstangið verði slíkt að fjárhagslegur ávinningur verði minni en enginn og spurning um annan ávinning.

Þó að búið sé að mæla fyrir brtt. minni hlutans vil ég sérstaklega minna á einn lið, þ.e. Heyrnar- og talmeinastöð Íslands. Þær 14 millj. sem við leggjum þar til eru ætlaðar til að eyða biðlistum einstaklinga sem þurfa á tækjum og aðstoð að halda til þess að bæta aðstæður sínar og rjúfa þá einangrun sem heyrnardeyfan dæmir þá í. 14 millj. kr. eru taldar þurfa til að koma til móts við þarfir þessara einstaklinga. Því miður var það ekki niðurstaðan þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar af hálfu minni hlutans og það finnst mér mjög miður. Ég vildi sérstaklega óska þess að fulltrúar meiri hlutans endurskoðuðu þá afstöðu sína og sinntu þessu erindi og samþykktu tillögu minni hlutans. Þeir hafa fundið fé til ýmissa annarra þarfa. Þeim tókst t.d. að finna 7,5 millj. kr. til slátrunar hrossa, sem vissulega eru orðin of mörg sums staðar á landinu miðað við beitarþol, en það er spurning hvort hér sé staðið eðlilega að verki og víst er að þessi tillaga kom fram á allra síðasta fundi fjárln. og ekkert ráðrúm gafst til að ræða hvernig staðið yrði að þessari aðgerð, hvar helst yrði fækkað og eftir hvaða reglum, hvað yrði gert við afurðir, hvort þær væru til einhvers nýtar á mörkuðum hérlendis þar sem við höfum langa og mikla reynslu af fjöllum úr kjöti eða hvað væri hægt að gera við þetta kjöt. Verið er að tala um slátrun 1.600 hrossa. (Gripið fram í: Hver ætlar að slátra þeim?) Það var óskýrt, hér var spurt úti í sal hver eigi að slátra þeim. Það var óskýrt á þeim fundi, sem var síðasti fundur í hv. fjárln. en þetta töldu menn brýnt að gera og fundu til þess 7,5 millj. kr. sem væru bráðnauðsynlegar til að fækka hrossum. Það er spurning hver ber ábyrgðina á því að hrossin eru orðin svona mörg og (Gripið fram í.) ég hefði viljað ... já, landslið hestamanna var nefnt úti í sal. Það hefði kannski verið öllu ánægjulegra að samþykkja tillögu sem lyti að því að mæta kostnaði við að koma upp landsliði hestamanna en að samþykkja tillögu um að fækka hrossum. En þetta er nú svona og ég held að ég muni það rétt að við höfðum þó náð að spyrja hvað ætti að gera við allt þetta kjöt sem er óneitanlega dágott fjall. Ef ég man rétt eru einhverjar hugmyndir á reiki um að senda þetta Rússum til að borða í matarleysi sínu.

Ég ætla ekki að hafa mörg orð um tekjuhliðina við þessa umræðu. Hér hafa orðið nokkrar umræður um hana og hversu traust hún er og hverjum sé að þakka allar þær tekjur sem hafa fundist síðustu daga en þar hafa aldeilis orðið umskipti og við gagnrýnum það ekki í sjálfu sér. Minni hlutinn hefur margsinnis gagnrýnt áður að tekjuhlið væri stórlega vanáætluð og raunverulega notuð til þess að halda aftur af útgjaldakröfum. Við sögðum við 2. umr. að við teldum tekjur vanáætlaðar um 1--2 milljarða miðað við forsendur. Auðvitað þurfti að finna fé til að mæta allri útgjaldaaukningunni og ég verð að segja alveg eins og er, herra forseti, að ég teldi eðlilegt að veita þeim fundarlaun sem fóru í teknaleit á þessum forsendum hvort sem það væri fólgið í hlutabréfi í Búnaðarbankanum eða einhverju slíku. En við í minni hlutanum lýstum því að við teldum að tekjuforsendur mundu ekki standast og tekjur væru vanáætlaðar en forsendum hefur sáralítið verið breytt. Þess vegna setjum við spurningarmerki við það hvernig þetta er sett upp.

Það er a.m.k. hárrétt að rétt áður en þessi tekjuleit fór fram kom fulltrúi fjárlagaskrifstofunnar á fund efh.- og viðskn. sem falið er að leggja mat á tekjuhlið frv. Hann kom á fund og upplýsti nefndarmenn um að ekki væri talin ástæða til að endurskoða þjóðhagsáætlun miðað við þróunina í þjóðfélaginu og þar með tekjuhlið frv. En viku síðar var komið nýtt hljóð í strokkinn. Þá var allt í einu búið að endurskoða þetta allt saman og finna leiðir til að hækka tekjuhliðina um 3,7 milljarða. Við skulum vona að það standist því að það þarf tekjur til að standa undir öllum þeim tillögum sem hér liggja fyrir en ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta við þessa umræðu og hef lokið máli mínu.