Almannatryggingar

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 16:10:26 (2761)

1998-12-19 16:10:26# 123. lþ. 46.13 fundur 365. mál: #A almannatryggingar# frv. 149/1998, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 123. lþ.

[16:10]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég held að þetta sé í annað skipti sem hæstv. heilbrrh. kemur hingað til þings rétt undir lok þingsins með mál sem er mjög mikilvægt að afgreiða og biður þingið allra náðarsamlegast um að hleypa málum í gegn.

Ég rifja upp, herra forseti, að það var á síðasta þingi eða þarsíðasta undir þinglok að vori sem ég tók að mér að koma í gegn fyrir hæstv. ráðherra máli sem varðaði breytingar á umönnunarbótum og það var formaður heilbrn., stjórnarandstæðingur, sem stóð í stappi þá í heila nótt til þess að koma þessu máli í gegn. Hvers vegna? Vegna þess að það varðaði mikilvæga hagsmuni þeirra sem málið tók til en eins og í þessu máli þá kom það allt of seint.

Hér er um að ræða mál sem varðar stóran hóp manna og sem stjórnarandstaðan getur alls ekki lagst gegn. Málið er í eðli sínu gott en það er flóknara en svo að hægt sé að segja að sjálfgefið sé að það renni í gegnum þingið. Ástæðan er sú að hér er í fyrsta lagi tekið á málefnum ellilífeyrisþega og örorkulífeyrisþega og það eitt gefur tilefni til mikillar umræðu.

Staðreyndin er sú, herra forseti, að kjör þessara hópa hafa hækkað miklu minna en annarra í þjóðfélaginu. Á síðustu fimm árum, á síðasta hálfa áratug, hafa lágmarkslaun hækkað um 52%, launavísitala um 30% en örorkulífeyrir og tekjutrygging ekki nema um 17%. Þetta eitt og sér þegar við erum að ræða þessi mál gefur tilefni til þess að menn taki alvarlega umræðu um þetta.

Sömuleiðis gefur það tilefni til mikillar umræðu hvernig sú breyting sem nú er verið að leggja til er lögð fram. Þó það sé í sjálfu sér jákvætt að menn séu núna að stíga skref, eins og hæstv. ráðherra hefur orðað það, til þess að draga úr ákvæðum um að tekjur maka örorkulífeyrisþega og ellilífeyrisþega skerði tekjutryggingu bótaþegans blasir eigi að síður við sú staðreynd að þetta er í fyrsta skipti sem ákvæði um slíka skerðingu eru fest í lög. Það er mjög erfitt fyrir okkur sem höfum haft það í huga að það þarf að varðveita mannréttindi allra, líka örorkulífeyrisþega og ellilífeyrisþega, að samþykkja slíka breytingu. Mörg okkar eru þeirrar skoðunar að þarna sé verið að brjóta mannréttindi á þessum bótaþegum.

Herra forseti. Við vitum líka að það blasir við að Öryrkjabandalagið hefur lýst því yfir að það hyggist höfða mál gegn hæstv. heilbrrh. og því ráðuneyti sem hún stýrir vegna þessa meinta mannréttindabrots. Það er dálítið umhendis fyrir okkur í stjórnarandstöðunni að taka þátt í að samþykkja þessi lög sem mér sýnist í fljótu bragði að muni styrkja málstað ráðuneytisins í komandi málaferlum. Það er viðurhlutamikið fyrir okkur að taka þátt í því að ekki bara að samþykkja slík lög heldur að hleypa þeim í gegnum þingið.

Eins og málum er háttað varðandi örorkulífeyrisþegana er um að ræða 180 millj. kr. greiðslu sem hæstv. heilbrrh. segir að komist ekki til upphafsgreiðslna í janúar nema þetta frv. verði samþykkt. Auðvitað er hægt að segja að með þessum hætti hafi hæstv. ráðherra hálfgildings kverkatak á okkur. Það er hins vegar hluti af því samkomulagi sem hæstv. ráðherra lýsti í stuttu máli að ákveðnum parti af 2. gr. þessa frv. verður haldið eftir og tekinn til umræðu þegar þing kemur saman aftur í janúar. Þá gefst þinginu kostur á að ræða þessi mál til hlítar og taka til umræðu þau mál sem snúa að lífeyrisþegum. Það breytir því ekki að ég fyrir mitt leyti treysti mér ekki til þess að samþykkja þetta frv. í því formi sem samkomulag er um vegna þess að ég get ekki samvisku minnar vegna varið það að greiða atkvæði með lagaákvæði sem ég tel að brjóti mannréttindi þeirra sem málið varðar. Ég mun hins vegar ekki leggja atkvæði mitt gegn því eða reyna að tefja þetta mál með neinum hætti því að ég tel nauðsynlegt að þessar greiðslur komist til framkvæmda. Ég átel hins vegar vinnubrögðin, herra forseti. Það gengur ekki að jafnmikilvægt mál og þetta sem hæstv. ráðherra hefur mörgum sinnum rætt um á hinu háa Alþingi að eigi að koma til afgreiðslu á þessu ári skuli bera svona að.

Málið kemur degi áður en þingi á að ljúka. Málið er tekið til afgreiðslu daginn sem þinginu á að ljúka. Þá á eftir að rannsaka málið af hálfu þingnefndarinnar og það á eftir að fara í gegnum þrjár umræður. Það liggur fyrir, herra forseti, að innan Öryrkjabandalagsins er ekki samstaða um að afgreiða málið á þennan hátt vegna þess, eins og ég gat um, að þar eru líka menn í forustu samtakanna sem telja að hér sé um að ræða mannréttindabrot.

[16:15]

Það liggur í hlutarins eðli að þó að viðkomandi einstaklingar vilji að sjálfsögðu hlut félaga sinna sem mestan og stærstan og hvetji þar af leiðandi ekki til þess að greiðslurnar verði stöðvaðar er ekki hægt að ætlast til að slíkir menn leggi vilyrði sitt fyrir stuðningi við frv. þegar ljóst er að það mun e.t.v. baga málflutning þeirra gegn heilbrrn. þegar kemur að því dómsmáli sem ég lýsti áðan.

Herra forseti. Ef það er rétt að þetta mál hafi verið í undirbúningi mánuðum saman í heilbrrn. þá spyr ég: Hvers vegna kom það ekki fyrr? Ég spyr líka: Hvernig stendur á því ef hæstv. heilbrrh. er svo umhugað um að koma málinu fram að ekki er búið að ganga frá því við Öryrkjabandalagið að það fylgi málinu? Hvers vegna er málið ekki í þeim búningi sem það bandalag gæti sætt sig við?

Ég er fullmeðvitaður um það, herra forseti, að ekki er hægt að krefjast þess í hvert einasta skipti að hagsmunaaðilar séu að öllu leyti sammála þeim ráðherrum sem bera fram tiltekin mál sem varða umrædda hópa. En með tilliti til tímapressunnar og hvernig málið ber að þinginu hefði óneitanlega greitt mjög fyrir afgreiðslu málsins ef hægt hefði verið að leggja málið þannig fyrir að um lágmarkssamstöðu væri að ræða hvað varðar lykilatriði í þessu frv. með Öryrkjabandalaginu.

Ég velti því líka fyrir mér, herra forseti, í fullri alvöru hve mikil þörf er á þessu frv. Hér er um að ræða frv. í þremur greinum og þar af er ein gildistökuákvæði og síðan er ákvæði til bráðabirgða. Ákvæðið til bráðabirgða tengist 1. gr. og þar er um að ræða breytingar á örorkumati þar sem gert er ráð fyrir læknisfræðilegu mati miklu frekar en mati á starfsskyldu viðkomandi og jafnframt að þeir sem undirgangist matið skuli gangast undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og undir starfræna endurhæfingu. Þetta er vafalaust ágætisákvæði, herra forseti, þessi grein og bráðabirgðaákvæði sem tengist henni en það blasir við að greinin á ekki að öðlast gildi samkvæmt 3. gr. frv. fyrr en 1. mars 1999. Þar af leiðir að engar nauðir reka okkur til hraðrar samþykktar í þinginu.

Þegar ég kem síðan að 2. gr. þar sem um er að ræða breytingar á frítekjumarki og skerðingar á tekjutryggingu með tilliti til tekna maka velti ég því fyrir mér hvaða þörf sé á því að lögfesta þetta. Heilbrrh. fram af heilbrrh. getur staðfest að það hefur verið viðtekin skoðun innan heilbrrn. að sérhverjar breytingar á bótum sem horfa til ívilnunar er hægt að staðfesta með reglugerð. Ég hefði talið, herra forseti, að við hefðum átt að fara þá leið að geyma þetta frv. og það hefði verið hægt í sjálfu sér að hleypa því í gegnum 1. umr. og til þingnefndar og til þess að hæstv. heilbrrh. hefði örugglega fast land undir fótum hefði verið hægt að leggja fram nál., a.m.k. meiri hluta, þannig að þingviljinn væri fullkomlega staðfestur og það lægi ljóst fyrir hver hann væri en geyma síðan málið til umræðu fram yfir hátíðar þannig að við gætum tekið gagngera umræðu.

Ég skal greina frá því, herra forseti, hvers vegna ég er þessarar skoðunar. Ég er einfaldlega orðinn afar þreyttur á þeim vinnubrögðum sem við höfum þurft að búa við í heilbr.- og trn. síðustu vikur þar sem stór mál eru tekin í gegnum nefndina ef ekki með valdbeitingu eins og í gagnagrunnsfrv. þá með tímanauð eins og núna. Mér er að vísu ekki alveg ljóst hvort það er ég sem er starfandi formaður heilbr.- og trn. eða Kári Stefánsson en það skiptir ekki máli í þessu efni vegna þess að fagnefndin hefur ekki ráðrúm til þess að skoða málið út í hörgul. Við höfum einfaldlega ekki tíma til þess að rannsaka afleiðingar málsins.

Við vitum, herra forseti, að þingið starfar eftir ákveðnum hefðum. Þessar hefðir mótast af vinnulagi, verklagi og reynslu margra áratuga. Hefðirnar miða að því að koma í veg fyrir að einhverjir ágallar séu á þeim frv. sem eru að lokum samþykkt. Þess vegna höfum við 2. umr. þegar við ræðum málið eftir að það hefur verið grandskoðað og við höfum 3. umr. til þess að hafa upp á að hlaupa ef í ljós kemur að það er eigi að síður einhvers konar ljóður á ráði mála sem kunna að vera ágæt í eðli sínu. Með öðrum orðum eru umræðurnar eftir 1. umr. til þess að bæta málið og til að koma í veg fyrir að þingið samþykki eitthvað sem kunni að vera rangt.

Hér er um að ræða mál sem er afskaplega flókið í eðli sínu og erfitt er fyrir nefndarmenn að taka ábyrgð á því nema vita hvað um er að ræða, vita hvað er verið að samþykkja, sér í lagi þegar við blasir að ekki ríkir eining um málið í hópum þeirra sem eiga að njóta afrakstursins af málinu. Við slíkar aðstæður hefði verið æskilegt að senda málið út til umsagnar og fá skriflegar umsagnir og reyna að meta málið í ljósi þeirra. Staðan sem er uppi er hins vegar sú að okkur gefst einungis ráðrúm til þess að hafa stuttan fund. Við getum e.t.v. kallað til fulltrúa Öryrkjabandalagsins, við getum fengið útskýringar á frv. frá höfundum þess eða starfsmönnum heilbrrn. en mér er til efs, herra forseti, að til að mynda ég geti fengið svar við eftirfarandi spurningu frá lögfræðingum sem eru til þess bærir að meta það: Brýtur frv. að einhverju leyti stjórnarskrárvarinn rétt öryrkja og ellilífeyrisþega? Ég held að svo sé, herra forseti. En ég er ekki sérfróður um mál af þessu tagi og ég hefði viljað geta kvatt til fundar við okkur einhverja þá lögfræðinga sem hafa sérhæft sig á þessu sviði.

Hæstv. ráðherra hefur haldið því fram þrátt fyrir ábendingar og umvandanir frá umboðsmanni Alþingis sem varða nákvæmlega þau ákvæði sem hér er verið að breyta að fyrri tilhögun mála hafi ekki falið í sér lögbrot. Ég held að ég megi segja að það sé rétt mat hjá hæstv. ráðherra að niðurstaða umboðsmanns Alþingis var á þá lund að það þyrfti að skýra lögin og gera þau nákvæmari en það væri ljóst að sú tilhögun sem hún hefði áður fylgt var að mati umboðsmanns ekki lögbrot. Það styrkir málið að mínu viti. En ef hæstv. ráðherra telur að hún hafi haft a.m.k. veikt land undir fótum, hvers vegna gat þetta mál þá ekki beðið?

Umboðsmaður Alþingis óskaði að vísu eftir skýrari lagasetningu og það er sjálfsagt að verða við því. En með tilliti til þess að hann taldi að það væri ekki um að ræða neins konar brot á lögum eða stjórnarskrá hvernig málinu var hagað áður, þá hlýt ég auðvitað að spyrja: Hvernig stendur á því að það má ekki geyma þetta fram yfir áramótin?

Í þessu frv. er líka ýmislegt að finna sem varðar öryrkja sem erfitt er að skilja fullkomlega og mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í 2. málsl. 2. mgr. 2. gr. þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Hafi hjón hins vegar tekjur umfram 724.032 kr. á ári skal skerða tekjutrygginguna um 45% þeirra tekna sem umfram eru.``

Herra forseti. Ég vildi gjarnan fá skýringu hæstv. ráðherra á því hvort hér sé ekki um einhvers konar misskilning að ræða, hvort hérna eigi ekki að standa: skal skerða tekjutrygginguna um 45% af helmingi þeirra tekna sem umfram eru? Eða hvort í staðinn fyrir töluna 45% eigi ekki að standa 22,5%? Ef svo er ekki, þá sé ég ekki betur en annaðhvort sé um misskilning minn að ræða eða gróflega afturför varðandi þennan hóp. (Heilbrrh.: Aukna skerðingu.) Ef þetta er réttur skilningur hjá mér en hæstv. ráðherra skýrir það á eftir hvort um misskilning okkar er að ræða eða hvort þetta beri að lesa saman við 1. málsl. síðustu málsgreinar í greininni og hvort nauðsynlegt sé að lesa þetta saman til þess að fá réttan skilning og ef svo er, hvort sú staðreynd að við höfum náð samkomulagi um að halda eftir þeim málslið sem fyrstur er í síðustu málsgrein 2. gr. gæti leitt til þess að samþykktir með því formi sem samkomulag hefur tekist um feli í sér réttindaskerðingu og það meira að segja talsvert mikla. Ef svo er þá eru dæmi um að einmitt vinnubrögð af þessu tagi þar sem menn ná ekki að rannsaka málin til hlítar eru ekki bara fordæmanleg heldur geta þau verið hættuleg. Vísa ég þá til fyrri ummæla minna um eðli hinna þinglegu vinnubragða og hvers vegna við höfum ekki eina umræðu og ekki tvær heldur þrjár umræður til þess að koma í veg fyrir mistök eins og hér kann að vera um að ræða.

Ég hef líka sagt að með tilliti til þess hvernig málið ber að hefði verið æskilegt að álit Öryrkjabandalagsins lægi fyrir og það lægi fyrir að aðalstjórn bandalagsins væri í öllum meginatriðum sátt við þetta. Í máli hæstv. ráðherra í morgun kom fram að einhverjir menn frá bandalaginu hafa að vísu verið á einhverjum fundum í ráðuneytinu svo mánuðum skiptir, sagði hæstv. ráðherra, en hún skaut sér undan því að svara þeirri spurningu sem ég spurði þá: Hefur Öryrkjabandalagið lagt blessun sína yfir þetta frv.? Ég held að svo sé ekki.

Ég held, herra forseti, að það sé afar viðurhlutamikið af þinginu að taka þátt í því að samþykkja frv. eins og þetta. Ég get ekki annað en sagt það heiðarlega að það er skoðun mín. Ég hef greint frá því að ég get ekki samþykkt þetta frv. eins og það er svona. Ástæðan er sú að ég tel að hér sé enn þá, þrátt fyrir þær breytingar sem við erum að fallast á að taka út í bili og láta bíða til síðari umræðu eftir áramót, fæ ég ekki betur séð í fljótu bragði en um sé að ræða tvöfalt mannréttindabrot. Þá vísa ég hér til 2. og 5. mgr. 2. gr. Þar er um það að ræða að tekjur maka örorkulífeyrisþega skerða tekjutryggingu lífeyrisþegans og spurningin er: Stenst það mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar?

Í þessu samhengi ber að rifja upp eftirfarandi: Svona tekjutengingar og svona skerðingar vegna tekna maka hafa í rauninni verið inni allar götur frá því á árinu 1936 þegar þessi lög voru upphaflega samþykkt. En hvað hefur gerst í millitíðinni? Mannréttindahugtakið hefur tekið breytingum og hefur þróast og það var staðfest með breytingum okkar á hinu háa Alþingi á jafnræðiskafla stjórnarskrárinnar fyrir þremur, fjórum árum. Við á hinu háa Alþingi verðum að fylgjast með því og vera í takt við þær breytingar sem verða á veröldinni í kringum okkur og eitt af því sem tekur hvað örustum breytingum á þessu sviði eru mannréttindin og hugtakið sem í því felst. Mannréttindin eru alltaf að þróast. Ekki er langt síðan forustumenn fatlaðra, öryrkja og eldri borgara voru eins og Jóhannes skírari, rödd hrópandans í eyðimörkinni, þegar þeir voru að tala um mannréttindi sín vegna þess að þegnarnir fundu ekki samhljóm með þeim málflutningi. Það er gerbreytt. Afstaða almennings núna hefur breyst eins og hlutirnir breytast með þróun tímans og mannréttindi þessara hópa hafa miklu dýpri skilning en áður og þau hafa t.d. verið rædd í tengslum við breytingar á stjórnarskránni fyrir nokkrum árum.

Ég held því fram, herra forseti, að jafnvel þó finna mætti, að þessu frv. samþykktu, skýra heimild til að skerða lögin um almannatryggingar mundi slík skerðingarheimild ganga gegn ákvæðum stjórnarskrár lýðveldisins um jafnrétti og þá á ég við 65. gr., og líka um rétt til aðstoðar vegna örorku og þar vísa ég til 76. gr. stjórnarskrárinnar. Í fyrri greininni er lýst yfir að allir skuli vera jafnir fyrir lögunum og allir skuli njóta mannréttinda án nokkurrar mismununar og í greininni eru tekin nokkur dæmi en síðan er vísað til stöðu að öðru leyti. Meðal þess sem þar er vísað til er klárlega hjúskaparstaða. Með öðrum orðum, herra forseti, er ekki hægt annað en álykta út frá þessu en mönnum verði samkvæmt þessari grein ekki mismunað vegna hjúskaparstöðu vegna þess að slíkt felur í sér mismunun og þar af leiðir að það er í blóra við stjórnarskrána. Á því byggi ég afstöðu mína. Ég get ekki stutt þetta frv. þó að ég ætli ekki af þeim ástæðum sem ég hef lýst að leggjast gegn því að það verði samþykkt en ég tel að klárlega sé verið að brjóta mannréttindi á öryrkjum. Mér finnst slæmt að hið háa Alþingi taki þátt í því, að órannsökuðu máli, að samþykkja þetta. Ef hið háa Alþingi væri visst í sinni sök horfði öðruvísi við. Ég er ekki viss í minni sök, herra forseti, og mér er satt að segja um megn að samþykkja mál af þessu tagi eftir að við höfum verið í þeim handarbaksvinnubrögðum sem við vorum í í gagnagrunnsfrv. Á þá að bjóða okkur upp á að samþykkja mál af þessu tagi sem getur brotið stjórnarskrána, án þess að gefa þinginu möguleika á að kalla til færustu sérfræðinga á sviði stjórnarskrárlaga til þess að spyrja þá ráða? En við höfum ekkert ráðrúm til þess. Við erum með öðrum orðum að starfa í lausu lofti og vel getur verið að hv. þingmenn meiri hlutans kjósi sökum þrýstings hæstv. ráðherra að gera þetta. En mér er um megn að taka þátt í slíkum vinnubrögðum. Ég vil að öryrkjar og ellilífeyrisþegar njóti þeirra bóta sem verið er að leggja til. En ég hef fært rök að því að það er hægt að láta þá ná þessum bótum í gegnum reglugerð, herra forseti. Það þarf ekki þetta, og ef við samþykkjum þetta erum í fyrsta lagi að brjóta e.t.v. stjórnarskrárákvæði gagnvart þessum hópum. Í öðru lagi, herra forseti, erum við líka mögulega að tálma framgangi málssóknar þeirra gegn heilbrrn. Við erum að styrkja stöðu þess ráðuneytis í málssókn sem þeir hafa lýst yfir að verði hafin á næstu dögum.